Orðið alveg er alþekkt enda með þeim algengustu. Það virðist þó vera tiltölulega ungt í málinu því að elsta örugga dæmið sem fundist hefur er frá því um 1800. Þetta dæmi er í hinum vinsælu Stellurímum Sigurðar Péturssonar (1759–1827), skálds, leikritahöfundar og sýslumanns:
Tekur að syfja tróður klyfja Grana,
bannar gríma [= nótt] gleðskap meir
gengin ríma alveg deyr.
Nú á dögum er alveg langalgengasta orðið í merkingunni ‛algerlega’, ‛fullkomlega’, eins og sjá má á eftirfarandi mynd en hún sýnir fjölda dæma um alveg og nokkur samheiti þess í Risamálheildinni (2022):

Fjöldi dæma um alveg og ýmis samheiti orðsins í Risamálheildinni (2022).
Þessir yfirburðir orðsins eru ekki alveg nýtilkomnir. Á síðari hluta 19. aldar jukust vinsældir alveg mjög hratt eins og sjá má á eftirfarandi mynd en hún sýnir fjölda dæma um alveg og nokkur samheiti orðsins í blöðum frá 19. öld.

Fjöldi dæma í blöðum frá 19. öld um alveg og ýmis samheiti (Tímarit.is).
Fá dæmi eru um öll orðin framan af tímabilinu enda er textamagnið heldur rýrt. En þegar upp úr 1860 fer alveg að sækja í sig veðrið. Í lok aldarinnar ber það síðan höfuð og herðar yfir samheitin. Næstalgengasta orðið á myndinni er algerlega, algjörlega sem rís nokkuð. Dæmum um önnur orð fjölgar vissulega líka en það skýrist af vaxandi efnismagni á tímabilinu. Dæmi eru í blöðum um öll orðin nema alveg frá því fyrir 1840 (allt frá einu dæmi og upp í 79). Elsta dæmið um alveg í blöðum er frá 1846 svo að framgangur orðsins er býsna hraður.
Orð verður til
Talið hefur verið að orðið sé nýmyndun, upprunnin í talmáli. En einnig er hugsanlegt að orðið hafi verið tilbúningur lærðra manna, ef til vill sett saman til höfuðs tveim orðum, aldeilis og allagutu. Fyrra orðið er tökuorð (sem barst í málið úr dönsku á 17. öld, aldeles) og kann af þeim sökum að hafa verið illa séð á tímum rómantíkur og hreintungustefnu. Síðara orðið, allagutu, er afbökun úr alla götu, allar götur, sem nú er einkum notað í tímasamböndum á borð við allar götur síðan. Áður fyrr hafði alla götu, allar götur mun víðara notkunarsvið, eins og sjá má af eftirfarandi dæmi úr orðabók Sigfúsar Blöndals: sá allar götur í austri nokkra dranga ‛sá alveg í austri …’. Eggert Ólafsson (1726–1768) virðist hafa amast við framburðinum sem ritmyndirnar allagutu (alla gutu) endurspegla. Svo kann að hafa verið um fleiri málsmetandi menn og hugsanlega var alveg beinlínis myndað til að koma í staðinn; síðari hlutinn -veg hefur sömu merkingu og gata og nýmyndunin alveg hefur því legið beint við.
Lipurð og sveigjanleiki
Merkingartilbrigði og hlutverk alveg eru í nútímamáli talsvert fleiri en ráða má af orðabókum. Orðið samsvarar vissulega oftast atviksorðum á borð við algerlega og gersamlega að merkingu. En oft samsvarar það frekar mjög, talsvert, hæglega og að minnsta kosti, allt eftir samhengi, eins og hér má sjá dæmi um:
| Dæmi um alveg í samhengi | Merking alveg |
| Mér finnst alveg sorglegt þegar að fólk sýnir ekki áhuga á börnunum sínum | ‛mjög’ |
| svo fer ég líka alveg oft í Bústaði félagsmiðstöðina okkar | ‛talsvert, nokkuð’ |
| þú getur alveg keypt þér síma á tuttugu þúsund | ‛hæglega, auðveldlega’ |
| Þetta er vægast sagt stórsýning því að við erum með alveg hundrað manns á sviði. | ‛að minnsta kosti’ |
Alveg er iðulega greint sem atviksorð í orðabókum. Þó kemur það stundum fyrir í stöðu lýsingarorðs: það var alveg logn, þú ert alveg met, þetta var alveg hryllingur. Hér mætti í öllum tilvikum hafa lýsingarorðið alger í staðinn (algert logn, algert met, alger hryllingur). Loks getur alveg verið það sem kallað er á íslensku orðræðuögn (e. discourse particle). Slík orð, sem eru oft upphaflega atviksorð, bera ekki eiginlega merkingu heldur gegna þau fremur tilteknum hlutverkum í samræðum og oft má sleppa þeim án þess að merking raskist. Sem dæmi um orðræðuagnir má nefna sko, ha og þúst (< þú veist). Orðræðuagnir hafa margvíslegan tilgang. Sumar þeirra eru t.d. notaðar sem hikorð, þ.e. orð sem mælandi grípur til þegar hann reynir að vinna sér tíma í samræðum. Greina má þrjú mismunandi hlutverk alveg sem orðræðuagnar:
| Dæmi um alveg í samhengi | Hlutverk alveg sem orðræðuagnar |
| ég hlusta alveg á útvarp en ég geri það samt sjaldan | dempun |
| og hún alveg: „ertu eitthvað bilaður?“ | merki um beina ræðu |
| það var alveg frekar gaman | hik |
Í fyrsta dæminu kemur alveg fram sem nokkurs konar dempun sem stendur þá í sambandi við andmæli sem fylgja (í dæminu hér markast þessi andmæli af tengingunni en). Í næsta dæmi er alveg notað til að láta áheyranda vita að nú komi tilvitnun í einhvern annan, þ.e. bein ræða. Bara er oft notað í sama tilgangi: og hún bara: „ertu eitthvað bilaður?“. Í þriðja dæminu notar mælandinn alveg væntanlega til að vinna sér tíma, hann fær með þessu örlítið tóm til að ákveða hvað hann segir næst.
Alveeg
Fjölbreytni orðsins alveg snýst ekki eingöngu um merkingu og hlutverk heldur líka framburð. Stundum er lögð mikil áhersla á síðara atkvæðið og þá teygist á e-inu: alveeg. Þessi framburður varð talsvert útbreiddur í kjölfar þess að nöldurseggurinn Indriði kom fram á sjónarsviðið í gamanþáttunum Fóstbræðrum sem sýndir voru á Stöð 2 um og upp úr aldamótum. Indriða var tamt að bera alveg fram með þessum hætti.
Vinsældir Indriða urðu slíkar að framleidd var sérstök spiladós þar sem heyra mátti í honum. Hér má sjá Jón Gnarr fá í hendur fyrsta Indriða-hnappinn:
Heimildir
Katrín Axelsdóttir. 2025. Allavega alveg. Orð og tunga 27:1–30.
Risamálheildin. 2022. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. malheildir.arnastofnun.is (sótt í október 2024).
Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
Sigurður Pétursson. 1844. Ljóðmæli Sigurðar Péturssonar. Reykjavík.
Sørensen, Preben Meulengracht. 1977. Alveg. Opuscula 2 (2):245–253. Bibliotheca Arnamagnæana 25 (2).
Tímarit.is. [Án ártals.] Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. timarit.is (sótt í september 2024).
Mynd
Katrín Axelsdóttir er prófessor í íslensku sem öðru máli. Rannsóknir hennar eru einkum á sviði málsögu.



