Árnastofnun velur orð ársins 2025: vangreiðslugjald 


Árnastofnun safnar gögnum um málnotkun árið um kring og í lok árs velur stofnunin orð ársins á grundvelli þeirra gagna. Undanfarin ár hafa þau orð sem valin hafa verið sem orð ársins tengst stórum málum eins og eldsumbrotum á Reykjanesskaga, gervigreind og COVID. Í ár var ekkert eitt orð sem stóð upp úr. Á alþjóðlegum vettvangi var mikið rætt um tolla og tollastríð, hernaðarbrölt Í Úkraínu og Palestínu og mál sem því tengjast, að ógleymdri gervigreindinni. Innanlands voru skipulagsmál áberandi eins og oft áður, kjarasamningar, sviptingar í stjórnmálum og bílastæðamál. Orð ársins tengist einmitt því síðastnefnda, bílastæðunum, og greiðslufyrirkomulagi þeirra sem óhætt er að segja að verið hefur nokkuð umdeilt. Vangreiðslugjald er orð ársins 2025.

Hér að neðan er sagt frá þeim tíu orðum sem komu til greina sem orð ársins en nánar er fjallað um hvernig orð ársins er valið í pistlinum Orð ársins – hingað til hér á Mannamáli.is. 

vangreiðslugjald  

Orðið vangreiðslugjald var áberandi á árinu vegna umræðu um bílastæðamál.  

Vangreiðslugjald er gjald sem er innheimt af bílastæðafyrirtækjum ef ekki er greitt fyrir gjaldskylt bílastæði innan tiltekins tímaramma. Ef ekki er greitt innan tiltekins tíma er rukkun send til skráðs eiganda bílsins og vangreiðslugjald leggst á stöðugjaldið, þ.e. gjald vegna vangreiðslu.  

Orðið vangreiðslugjald er tiltölulega nýtt en það tengist nýrri tækni við að innheimta bílastæðagjöld. Orðinu bregður fyrst fyrir í fréttum um bílastæðamál á árinu 2011. Orðið vangreiðsla er þó ekki nýtt en er algengara í lagamáli en almennu máli. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er vangreiðsla skýrt sem ’of lág greiðsla’. 

Réttmæti gjaldsins hefur verið umdeilt sem og heiti þess. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur haldið því fram að vangreiðslugjald sé í raun innheimtugjald en ákveðnar reglur gilda um upphæð innheimtugjalda og ef miðað er við þær reglur eru vangreiðslugjöld oft mun hærri. Í sumar var sagt frá því að kvartanir vegna vangreiðslugjalda bílastæðafyrirtækja væru einn stærsti málaflokkurinn hjá Neytendasamtökunum. Samtökin hafa gagnrýnt gjöldin og kallað eftir skýrum reglum um gjaldskyld bílastæði frá stjórnvöldum og hefur Neytendastofa beitt stjórnvaldssektum í málum tengdum gjöldunum og upplýsingum um þau.  

Bílastæðamál voru fyrirferðarmikil í umræðunni á árinu en notkun orðsins bílastæðafyrirtæki jókst mikið og þá vakti orðið gjaldskylda sérstaka athygli vegna þess að erlendir ferðamenn héldu að nokkrir vinsælir ferðamannastaðir hétu Gjaldskylda vegna merkinga við bílastæði. 

tollastríð 

Mikil aukning varð á notkun orða sem tengjast tollum enda þau mál mikið í fréttum allt árið. Orðið tollastríð hefur verið einkennandi í þeirri umræðu.  

Árið 2025 hefur tollastríðið haft áhrif á mörg ríki, þar með talið Ísland. Hér á landi hefur umræðan m.a. snúist um tolla á járnblendi og kísilmálmi, sem og  áhrifum tollastríðs á efnahag á Íslandi, Evrópska efnahagssvæðið og Evrópusambandið. Upphaf tollastríðsins má rekja til nýrrar tollastefnu sem Bandaríkjaforseti kynnti snemma á árinu.  

Orðið er ekki nýtt en þegar dæmi um orðið eru skoðuð á Tímarit.is sést að notkun þess jókst árin 2018 og 2019 þegar orðið var notað til að lýsa tolladeilum milli Bandaríkjanna og Kína. Á árinu kom fram fjöldi nýrra orða sem tengdust tollamálum og mörg eldri orð voru notuð meira en áður. Notkun orðsins tollastríð jókst þó mest. Það er áhrifamikið orð sem lýsir þeim átökum sem eiga sér stað á alþjóðavettvangi en önnur orð á listanum sem lýsa átökum á þessu sviði eru verndartollur, refsitollur og hefndartollur.  

fjölþáttaógnir og fjölþáttaárásir 

Á liðnu ári voru fjölþáttaógnir og fjölþáttaárásir áberandi í umræðu um öryggismál, bæði hérlendis og erlendis. Með hugtakinu fjölþáttaógnir er vísað til samverkandi aðgerða sem ætlað er að valda skaða og grafa undan samfélagslegu öryggi. Slíkar aðgerðir geta verið bæði hernaðarlegar og óhernaðarlegar, farið fram leynt eða ljóst og beinst að ólíkum þáttum samfélagsins samtímis. 

Fjölþáttaógnir geta t.d. verið undirróðursherferðir, dreifing falsfrétta, netárásir og markviss hagnýting veikleika í mikilvægum innviðum. Aðferðirnar eru gjarnan notaðar samtímis og styrkja hver aðra, með það að markmiði að raska eðlilegri starfsemi samfélaga. Netárásir beinast gjarnan að lykilinnviðum og geta haft lamandi áhrif á fjarskipti, rafmagnsveitur og fjármálakerfi. Afleiðingin er veikt áfallaþol samfélaga og aukin hætta á víðtækum truflunum á daglegu lífi og öryggi borgaranna.  

Á árinu vakti aukin notkun dróna og drónaárása sérstaka athygli sem hluti af fjölþáttaógnum enda eru slík tæki orðin aðgengilegri og auðveldari í notkun en áður.  

Fjölgun öryggisógna á borð við netárásir og drónaárásir, ásamt aukinni spennu í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, hefur enn frekar dregið fram mikilvægi þess að skilja eðli fjölþáttaógna og þróa markvissar leiðir til að bregðast við þeim. 

gímald 

Rétt fyrir jól í fyrra var stórt mannvirki reist við Álfabakka í Reykjavík við lítinn fögnuð íbúa nærliggjandi húsa. Byggingin varð mjög umdeild í samfélaginu, mikið um hana rætt og hún kölluð ýmsum nöfnum, m.a. græna ferlíkið, græni veggurinn, græna vöruskemman, græna vöruhúsið, græna hrollvekjan og græna gímaldið

Líklega hefur græna gímaldið vakið mesta athygli en farið var að kalla bygginguna þessu nafni snemma í janúar. Byggingin reis mjög skyndilega og ekki víst að allir hafi vitað hvað þetta væri eða hvers konar starfsemi fyrirhugað var að færi fram í henni. Hugsanlega er þess vegna gripið til þess að nota orð sem vísar til ytra útlits og eiginleika hússins frekar en hlutverks þess eða þeirrar starfsemi sem þar á að fara fram. Gímald stuðlar við grænn og það gerir heitið enn eftirtektarverðara. Orðið ber með sér neikvæðan blæ, sem á vel við þá umræðu sem skapaðist um húsið.  

Orðið gímald er ekki mjög algengt í almennu máli ef tíðni orðsins er athuguð í Risamálheildinni en því bregður þó fyrir í ýmsu samhengi. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merking orðsins skýrð sem „mjög stórt (hátt og vítt) rými, t.d. salur e.þ.h.“. 

Orðið gímald hefur áður verið notað um stórar byggingar en einnig eru dæmi um að orðið sé notað til að lýsa einhverju fyrirferðarmiklu eða stóru, t.d. trampólíni, umfangsmikilli stjórnsýslu eða lífeyrissjóðakerfinu. Þá má geta þess að stærð getur verið afstæð og orðið gímald notað til að lýsa skotti á bíl og handtaska getur virkað eins og botnlaust gímald. 

kjarnorkuákvæði 

Kjarnorkuákvæði er áhrifamikið og gildishlaðið orð sem bar mikið á í umræðum ársins. Heitið undirstrikar að beiting ákvæðisins sé örþrifaráð sem geti haft alvarleg og jafnvel eyðileggjandi áhrif á báða aðila líkt og notkun kjarnorkuvopna.  

Elsta dæmi sem fannst um orðið kjarnorkuákvæði er i viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í Morgunblaðinu árið 2012 þar sem fjallað er um langdregnar umræður á Alþingi. Með þessu orði er vísað til ákvæðis í 71. gr. þingskapalaga sem heimildar forseta Alþingis annars vegar að setja þinginu tímamörk á ræðutíma í umræðum um tiltekið mál og hins vegar að leggja til að umræðum verði hætt og gengið strax til atkvæðagreiðslu. Orðið virðist vera þýðing á the nuclear option sem vísar upphaflega til ákvæðis sem hægt er að beita til að stöðva málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings. 

Orðið kjarnorkuákvæði kom nokkrum sinnum fyrir í umræðu um að stöðva málþóf Miðflokksins vegna þriðja orkupakkans 2019 og var mjög áberandi á þessu ári í tengslum við mjög langar umræður um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þetta sterka orðalag ýkir í raun það sem ákvæðið felur í sér, þ.e. að hnika til dagskrá Alþingis þegar umræður verða óhóflega langar.  

skuggafloti 

Orðið skuggafloti er tökuþýðing úr ensku shadow fleet og er notað um skip á vegum Rússa. Heitið vekur hugrenningar um leynd og ólögmæti og vísar til þess að skipin starfa oft „í skugganum“. Þau sigla gjarnan undir hentifánum og gefa stundum upp ranga staðsetningu sem torveldar eftirlit með starfsemi þeirra. Sum skipanna hafa öflugan fjarskiptabúnað sem gerir þeim kleift að trufla GPS-merki. 

Skuggaflotinn samanstendur að stórum hluta af gömlum og úrsérgengnum flutningaskipum og af þeim stafar því umhverfisógn og ógn við siglingaöryggi. Slík skip hafa valdið alvarlegum skemmdum á raforku- og fjarskiptastrengjum í Eystrasalti.  

Skip skuggaflotans hafa engu að síður gegnt milligöngu í sölu á rússneskri olíu á mörkuðum sem annars eru lokaðir Rússum vegna viðskiptaþvingana. Auknir olíuflutningar með þessu hætti, með óöruggum og oft ótryggðum skipum, grafa undan þeim alþjólegu öryggis- og umhverfisstöðlum sem settir hafa verið. 

… og frelsisfloti 

Frelsisflotinn er alþjóðleg grasrótarhreyfing sem var stofnuð árið 2010 og starfar undir merkjum Freedom Flotilla Coalition (FFC). Samtökin skipuleggja hjálparleiðangra á sjó til Gasa í Palestínu. Aðgerðir flotans miða annars vegar að því mótmæla og rjúfa hafnbann sem Ísrael hefur lagt á Gasasvæðið og hins vegar að flytja nauðsynleg sjúkrahjálpargögn, mat, vatn og aðrar lífsnauðsynjar  til íbúa svæðisins. 

Flotinn samanstendur af rúmlega fjörutíu bátum og um fimm hundruð þátttakendum frá fjölmörgum löndum, þar á meðal aðgerðasinnum, stjórnmálamönnum og lögmönnum. Í ár vöktu aðgerðir flotans mikla athygli á Íslandi en í einum bátanna var íslenska tónlistarkonan og aðgerðasinninn Margrét Kristín Blöndal, Magga Stína. Þá var sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg einnig í för með flotanum.  

Nokkrir bátar flotans voru stöðvaðir og farþegar þeirra fluttir til hafnar í Ísrael. Samtökin Frelsisflotinn greindu jafnframt frá því að skip hlaðið hjálpargögnum fyrir stríðshrjáða íbúa Gasa hefðu orðið fyrir drónaárás á alþjóðlegu hafsvæði undan ströndum Möltu og sökuðu þau Ísraelsher um árásina.  

ofbeldisvandi 

Á fyrri hluta ársins var ofbeldisvandi í skólum nokkuð til umræðu. Sérstaklega höfðu foreldrar ákveðins skóla á höfuðborgarsvæðinu áhyggjur af ofbeldi sem fengið hafði að grassera þar árum saman án þess að tekið hefði verið á málinu með tilhlýðilegum hætti. Vandamál tengd ofbeldi eru ekki ný af nálinni og því vekur það athygli að ofbeldisvandi var svo til óþekktur í textasöfnum Árnastofnunar fram til ársins 2025. Möguleg skýring á því gæti verið að mörgum finnist það felast í orðinu ofbeldi að þar sé einhvers konar vandi á ferðum og ekki þurfi að taka það sérstaklega fram. Þeirri tilgátu til stuðnings má benda á að Íslensk orðsifjabók tengir orðið ofbeldi við orð eins og beldinn og baldinn, sem merkja erfiður, ódæll og óstýrilátur. Það þykja ekki eftirsóknarverð skapgerðareinkenni enda hafa fáir nokkru sinni talað um vanbeldi (þó finnast örfá dæmi um það í söfnum Árnastofnunar, öll af samfélagsmiðlum). Ofbeldi er hins vegar vel þekkt og iðulega til vandræða. Og til að leggja áherslu á vandann sem fylgir ofbeldi er samsetningin „ofbeldisvandi“ auðvitað góð og gild. 

gervigreindarkapphlaup 

Gervigreind er enn mál málanna og á listanum eru yfir 200 orð sem innihalda „gervigreind“. Algengasta orðið á listanum er gervigreindarkapphlaup. Þegar talað var um gervigreindarkapphlaup á árinu var oftast vísað til samkeppni á milli Bandaríkjanna og Kína og jafnvel vísað í vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna á kaldastríðsárunum. Einnig vísar orðið stundum til samkeppni stóru tæknirisanna sem uppfæra gervigreindarlíkönin sín oft á ári í baráttu um notendur. Önnur samsett gervigreindarorð eru til dæmis: gervigreindarbóla, gervigreindarlausn og gervigreindarmyndband, að ógleymdri gervigreindarglýjunni sem Magnea Matthíasdóttir fjallaði um í grein í Málfregnum. Meirihluti orðanna eru stakdæmi en þessi mikli fjöldi samsettra orða gefur vísbendingu um það á hversu mörgum sviðum samfélagsins gervigreind hefur hafið innreið sína. Orðin eru vitnisburður þess hvernig samfélagið tekst á við þær tækni- og samfélagsbreytingar sem gervigreind hefur í för með sér. 

virðismat

Orðin virðismat og virðismatsvegferð voru áberandi í umræðu um kjarasamninga kennarafélaga fyrr á þessu ári. 

Virðismatsvegferð er sameiginlegt og markvisst ferli samningsaðila sem felur í sér endurmat á launamyndun og skipulagi kennarastarfa. Annars vegar snýr vegferðin að þróun hlutlægs virðismatskerfis sem gerir kleift að meta virði kennarastarfa á málefnalegan hátt og bera þau saman við viðmiðunarstéttir á almennum og opinberum vinnumarkaði. Hins vegar felur hún í sér verkáætlun um grundvallarbreytingar á launamyndun og vinnutíma, með það að markmiði að jafna kjör kennara við aðra sérfræðinga, styrkja grunnlaun, draga úr yfirvinnu og bæta vinnuumhverfi.  

Seinni liður þessa orðs, -vegferð, vísar til þess að um er að ræða langtímaferli sem ætlað er að efla stöðu kennarastarfsins, auka stöðugleika í skólakerfinu og bæta starfsaðstæður og árangur skólastarfs. 

vók/vókismi

Mikið var rætt um vók og vókisma á árinu. Þrátt fyrir talsverða notkun virðist merkingin í íslensku samhengi nokkuð á reiki og stjórnast að hluta til af afstöðu þess sem notar það hverju sinni. Hugtakið á rætur að rekja til svarts fólks í Bandaríkjunum á millistríðsárunum og vísaði þá til vitundar um kynþáttafordóma og mismunun. Síðar hefur merkingin víkkað, nær nú utan um mikilvægi vitundar um félagslegt óréttlæti almennt og hugtakið notað víðast hvar á Vesturlöndum. Undanfarin ár hefur borið nokkuð á óþoli gagnvart fólki sem gengst við því að vera kallað „vók“, sérstaklega hjá þeim sem eru ósammála, annaðhvort um mikilvægi samfélagslegs réttlætis eða um það í hverju það er fólgið. Hugtakið hefur þá verið notað til að tala niður til fólks og í textasafni Árnastofnunar má finna dæmi um að þeir sem kallaðir eru vók séu sakaðir um dyggðaskreytingu, nornaveiðar, slaufunarmenningu, alræðishyggju og mikilmennskubrjálæði, á meðan aðrir segja að það að vera vók merki að vera almennilegur við annað fólk eða að vera ekki sama um fólk þó að maður þekki það ekki. 

Þannig er farið að nota hugtakið eins og hvert annað gjamm í pólitískri umræðu. Við þekkjum þess háttar gjamm í upphrópunum um kommúnisma og kapítalisma, að ‚hinir‘ séu fasistar, íhald, trumpistar eða eitthvað enn verra. Þegar við uppnefnum þá sem eru ósammála okkur er það yfirleitt ekki til að hjálpa okkur að skilja hvers vegna þeir eru ósammála eða til að liðka fyrir uppbyggilegum skoðanaskiptum og rökræðum til að sætta hugmyndir. Það getur hins vegar gagnast ágætlega til að þétta raðirnar og búa til gjá á milli ‚okkar‘ og ‚hinna‘.  

Athygli vekur að ekki hafa verið mjög áberandi tilraunir gerðar til að þýða hugtakið vók á íslensku. Þó hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson í viðtali notað orðið vælumenning fyrir woke culture. Hugsanlega er það í ætt við skrif um ‚vælustefnu og samsemdarstjórnmál‘ á Alþingi á blogginu bjorn.is, sem Björn Bjarnason tengir við nokkra þingmenn Samfylkingarinnar. En þá erum við auðvitað aftur komin í gjammið. 

Scroll to Top