Hús Breiðdalsseturs og Rannsóknaseturs HÍ á Breiðdalsvík. Þar er m.a. sýningarherbergi með munum úr fórum dr. Stefáns Einarssonar (1897–1972) frá Höskuldsstöðum í Breiðdal.
Breiðdalssetur var stofnsett 2008 og er nú starfrækt í nánu samstarfi og sambýli við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Breiðdalssetur skiptist í þrjú meginsvið: Jarðfræðistofu, Samfélags- og sögustofu og Málvísindastofu en tilgangur hinnar síðastnefndu er fyrst og fremst að heiðra minningu dr. Stefáns Einarssonar frá Höskuldsstöðum í Breiðdal og framlag hans til málvísinda, örnefnasöfnunar og íslenskra fræða almennt. Á setrinu er t.a.m. sýningarherbergi tileinkað Stefáni.
Stefán Einarsson (1897–1972) frá Höskuldsstöðum í Breiðdal var lungann úr starfsævinni prófessor við Johns Hopkins University í Baltimore. Stefán hóf sinn fræðimannsferil á þriðja áratug síðustu aldar við rannsóknir á íslenskum framburði, með nýjustu mælitækjum sem voru að ryðja sér til rúms á þeim tíma. Þegar frá leið urðu bókmenntarannsóknir og saga meginviðfangsefni hans, auk merkilegs frumherjastarfs á fleiri sviðum, svo sem við söfnun þjóðfræðilegs efnis í Breiðdal með segulbandsupptökum, og við kennslu íslensku sem annars máls, m.a. með því að styðjast við hljómplötur. Síðast en ekki síst sinnti Stefán margháttuðum rannsóknum á austfirskum máleinkennum; hann skráði örnefni eystra og lagði sitt af mörkum við skráningu og útgáfu héraðssögu.
Stefán Einarsson lauk prófi í norrænu við Háskóla Íslands 1923, með meistararitgerðinni Hljóðfræði íslenskrar tungu á vorum dögum. Árin 1918–1923 hafði Stefán Einarsson unnið við Blöndalsorðabók og aðstoðað Jón Ófeigsson (1879–1938) við hljóðritun uppflettiorðanna. Í grein um íslenska hljóðfræði í inngangi orðabókarinnar nefnir Jón vinnuframlag og sérþekkingu Stefáns sérstaklega.
Stefán fékk styrk 1924 til áframhaldandi náms í Helsinki og sérhæfði sig enn frekar í hljóðfræðirannsóknum með nýjustu mælitækjum þess tíma, hjá Hugo Pipping prófessor, en doktorsprófinu lauk hann í Ósló 1927 með ritinu Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache [Um hljóðfræði íslensks máls].
Stefán hafði komist í kynni við bandaríska hljóðfræðinginn Kemp Malone (1889–1971) sem dvaldi m.a. á Íslandi 1919 við rannsóknir á íslenskri hljóðfræði og birti niðurstöður sínar í bók sem kom út 1923. Malone varð lektor og síðar prófessor við Johns Hopkins, 1924–1956. Hann var t.a.m. meðal stofnenda tímaritsins American Speech 1925. Ásamt því að sinna hljóðfræði og málvísindum kenndi Malone og rannsakaði einkum enskar bókmenntir fyrri alda.
Fyrir tilstuðlan Malones var Stefán Einarsson ráðinn til kennslu við Johns Hopkins University í Baltimore 1927. Hann varð lektor fimm árum síðar og prófessor árið 1936 og gegndi þeirri stöðu allt til starfsloka 1962.
Stefán hafði haldið áfram rannsóknum sínum í hljóðfræði og hljóðkerfisfræði að loknu námi. Hann gaf meðal annars út rit um hljóðbreytingar og lagði sig eftir að kanna staðbundinn framburð á Íslandi.
Ekki var mikil eftirspurn eftir námi í hljóðfræði og málfræði nútímaíslensku í Baltimore svo að rannsóknir og kennsla Stefáns fór mikið til að snúast um bókmenntasögu og norrænar og enskar bókmenntir. Má segja að hann hafi einnig að því leytinu fetað sömu slóð og Malone kollegi hans sem áður var nefndur.
Þekktasta verk Stefáns á íslensku um bókmenntir er sennilega Íslenzk bókmenntasaga 874–1960 sem kom út 1961 en fjórum árum fyrr hafði Stefán sent frá sér íslenska bókmenntasögu á ensku. Á ritaskrá Stefáns er mýgrútur af greinum um skáld, rithöfunda, bókmenntaverk og bókmenntasögu. Stefán lagði meðal annars sérstaka rækt við sinn austfirska uppruna, sjá t.d. rit hans Austfirsk skáld og rithöfundar frá árinu 1964.
Bókin Icelandic: grammar, texts, glossary var um árabil eitt best þekkta ritið erlendis um íslenskt mál og menningu. Samning bókarinnar tengdist upphaflega íslenskunámskeiði Stefáns fyrir bandaríska hermenn 1942. Bókin kom fyrst út 1945 og var síðan margoft endurútgefin. Þetta er meira en 500 síðna verk. Enda þótt fáir stúdentar við Johns Hopkins í Baltimore hefðu sýnt áhuga á nútímaíslensku hafði Stefán undirbúið sig með námsefni í íslensku sem öðru máli. Hann gat því brugðist skjótt við þegar herinn kallaði eftir slíku kennsluefni. Hann útbjó einnig námsefni í íslensku með svonefndri Linguaphone-aðferð sem var útbreidd í sjálfsnámi í tungumálum víða um heim um miðja síðustu öld. Þar fylgdu hinum rituðu textum og útskýringum fimmtán litlar hljómplötur með upplestri og samtölum en fjórir ungir íslenskir leikarar lögðu til raddirnar, þau Róbert Arnfinnsson, Herdís Þorvaldsdóttir, Helga Bachmann og Helgi Skúlason.
Stefán var meðal frumkvöðla í að taka upp þjóðfræðilegt efni á segulband hér á landi. Á vefnum Ísmús eru 63 færslur merktar honum. Stefán tók meðal annars upp á segulband kvæði, frásagnir, rímur og söng nokkurra Breiðdælinga árið 1954, í Gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík þar sem Breiðdalssetur er til húsa í dag. Má sem dæmi nefna að Stefán gerði margar upptökur með söng og ýmsum kvæðum í flutningi Kristínar Helgu Þórarinsdóttur sem fædd var 1867 og lést 1957. Stefán náði þar sem sé að bjarga verðmætum heimildum sem almenningur og fræðimenn geta hlýtt á í dag.
Stefán safnaði örnefnum, einkum á Austur- og Suðausturlandi, og eru gögn hans varðveitt í örnefnasöfnum Árnastofnunar. Sjöfn Kristjánsdóttir nefnir í grein um Stefán í tímaritinu Glettingi 2002 að til sé óútgefið handrit, ,,Örnefni í Beruneshreppi í Suður-Múlasýslu“.
Stefán sinnti ávallt þeim jarðvegi sem hann var sprottinn úr og skrifaði um héraðssögu Austurlands. Hann gaf m.a. út Breiðdælu: Drög til sögu Breiðdals (ásamt Jóni Helgasyni prentara) og ritaði þar sjálfur m.a. ,,Landnáms- og byggðarsögu Breiðdals“.
Stefán Einarsson flutti búferlum aftur heim til Íslands árið 1962, og bjó í Reykjavík til dauðadags 1972. Minningargreinar sem birtust um Stefán Einarsson geyma lýsingu á manninum og ævi hans, auk rannsóknarferilsins. Vilhjálmur Þ. Gíslason skrifaði meðal annars í Morgunblaðinu 13. apríl 1972:
Dr. Stefán var mikill iðjumaður en vandvirkur, hljóðlátur fræðimaður, með augun opin fyrir margs konar málum og mönnum. Það sést ekki sízt á mörgum og fjölbreyttum ritfregnum og ritdómum, sem hann skrifaði. Mér telst svo til að þær séu kringum 280, um erlendar fræðibækur og um íslenzk skáldrit og fræðirit á mörgum sviðum. Auk þess samdi hann sæg af alls konar ritgerðum í íslenzk og 12 eða 13 erlend fræðitímarit [...] Dr. Stefán Einarsson var tvennt um ævina, og hvort tveggja af lifi og sál og með heiðri og sóma. Hann var austfirzkur sveitamaður og amerískur prófessor. Hann vann rannsóknir sínar og stundaði háskólakennslu sína vandlega á amerískan nýtízku máta, en í honum var líka mikið af safnara og grúskara á gamla góða austfirzka vísu.
Nokkur rit Stefáns Einarssonar:
1927: Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache. Doktorsritgerð, Universitetet i Oslo. Oslo: A.W. Brøggers Boktrykkeri.
1931: A specimen of southern Icelandic speech: a contribution to Icelandic phonetics. Oslo: Jacob Dybwad.
1932a: Icelandic Dialect Studies I. Austfirðir. The Journal of English and Germanic Philology 31(4), 537-572.
1932b: Some Icelandic words with hv-kv. København: Levin & Munksgaards Forlag.
1945: Icelandic: grammar, texts, glossary. Baltimore: Johns Hopkins Press.
1948: Breiðdæla. Drög til sögu Breiðdals. Jón Helgason og Stefán Einarsson sáu um útgáfuna. Reykjavík.
1949: Um kerfisbundnar hljóðbreytingar í íslenzku. Studia islandica 10. Reykjavík: Leiftur.
1955: Linguaphone: námsskeið í íslenzku. London: Linguaphone Institute.
1961: Íslenzk bókmenntasaga 874–1960. Reykjavík: Snæbjörn Jónsson.
1964: Austfirsk skáld og rithöfundar. Akureyri: Oddur Björnsson.
Myndir