Er íslenska lúxusvara?


Ef einhver lesandi hefur nýlega átt í basli með að panta kaffi á íslensku er kannski huggun í því að vita að þetta er aldagamalt vandamál. Um íslenskukunnáttu danska kaupmannsins við Djúpavog orti skáldið Stefán Ólafsson í Vallanesi „maðurinn kann í íslensku já, já og og“. 

Þetta var á 17. öld og manninum var kannski vorkunn enda fátt í boði fyrir þá sem vildu leggja stund á íslensku sem annað mál. Vissulega var komin íslensk orðabók á þessum tíma en skýringarnar voru allar á latínu og miðuðu við að notandinn vildi lesa fornkvæði og rúnaristur, ekki selja Íslendingum brennivín og mjöl á okurverði. 

Sem betur fer er nútíminn með lausn. Nú getur danskurinn skráð sig í fjarnám í hagnýtri íslensku við Háskóla Íslands til að bæta við orðaforðann án þess að flytja á mölina. Danskurinn þarf ekki að hætta að draga að sér auðinn enda er námið skipulagt með það í huga að hann geti lært íslensku eftir að hann lokar versluninni. Segjum sem svo að hann eigi líka yndislega konu frá Indlandi sem ákveður að flytja til Íslands með honum. Á Indlandi starfaði hún sem leikskólakennari og hún vill vinna áfram á leikskóla hér. Án íslenskunnar hefur hún takmarkað gagn af starfsreynslunni og sérmenntuninni. En það er lítið mál fyrir hana að skrá sig í háskólanám í íslensku. Hún stefnir að því að klára BA-nám í íslensku sem öðru máli í fjarnámi. Konan á svo systur á Indlandi sem er læknir með sérmenntun í umönnun aldraðra og þau hvetja hana líka til þess að flytja til landsins. Hún er að skoða það af fullri alvöru en er ekki búin að taka lokaákvörðun. 

Frumvarp af því tagi sem var til skoðunar innan háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins í nóvember kynni hins vegar að gjörbreyta íslenskukunnáttu innflytjenda – og því miður ekki til hins betra. Að nafninu til var þetta lagaheimild til að innheimta skólagjöld af nemendum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Máluð er upp falleg mynd af háskólasamfélagi sem malar gull með því að rukka aðkomufólk um svimandi upphæðir fyrir námið en á mannamáli var þetta hreinn og beinn niðurskurður fjárveitinga til íslenskukennslu. Enda var í frumvarpsdrögunum beinlínis lagt til að ríkið myndi ekki leggja krónu til íslenskunáms á háskólastigi nema vegna ríkisborgara EES-ríkja eða annarra sem uppfylla mjög þröng skilyrði, svo sem það að vera nú þegar komið með ótímabundið dvalarleyfi. Þetta átti að gerast á miklum hraða enda var lagt til að gjaldtakan myndi hefjast strax næsta sumar. 

Í frumvarpsdrögunum var sagt að markmiðið væri að nýta opinber fjárframlög til háskóla betur sem er auðvitað gott og blessað. En í upphafi skyldi endinn skoða og spyrja má hvort það sé einmitt ekki hagkvæm fjárfesting á litlu málsvæði eins og okkar að tryggja aðgang að hágæða námi fyrir fólk sem ætlar svo sannarlega að setjast hér að. Á síðustu árum hefur gengið brösuglega fyrir innflytjendur á Íslandi að finna tungumálanám við hæfi. OECD-skýrsla sem kom út nú í september um færni og atvinnuþátttöku innflytjenda á Íslandi dregur upp dökka mynd af stöðunni. Óvíða í OECD-löndum er jafnt slæmt aðgengi að tungumálanámi fyrir innflytjendur og hér. Ísland stendur sig líka allra verst meðal OECD-ríkja þegar það kemur að hlutfalli innflytjenda sem tala þjóðtunguna vel eða reiprennandi. Meðaltal innan OECD er 60% en á Íslandi nær hlutfallið ekki 20%. 

Þetta er virkilega sláandi tala. Er tungan okkar svona miklu erfiðari en pólska, finnska eða kóreska? Við erum ekki miklu minni þjóð en Lúxemborg en þar hafa tæplega 70% innflytjenda náð góðum tökum á málinu. Opinber fjárframlög til íslenskunáms innflytjenda hrundu í hruninu og þau hafa enn ekki náð sér almennilega á strik miðað við höfðatölu. Með frumvarpi eins og þessu myndi standa til að skera niður framlag til íslenskukennslu enn frekar. 

En skiptir íslenska kannski ekki máli þegar það kemur að atvinnutækifærum? Getum við ekki öll bara talað ensku saman? Atvinnuþátttaka innflytjenda er vissulega mjög há en Ísland sker sig því miður úr meðal OECD-ríkja hvað varðar fjölda vel menntaðra innflytjenda sem festast í láglaunastörfum þar sem fyrri starfsreynsla og sérmenntun nýtist ekki. Niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir í ársbyrjun sýna að 36% svarenda úr röðum innflytjenda telja að kunnáttuleysi í íslensku hamli þeim frá að fá betra starf. Og konur sem koma með háskólagráðu erlendis frá eiga enn erfiðara með að fá starf hér við hæfi en karlar í sömu stöðu. 

Ljósi punkturinn í OECD-skýrslunni er íslenskunámið sem stendur til boða í háskólum hérlendis. Það að ljúka íslenskunámi við háskóla á Íslandi margfaldar líkurnar á að fólk nái framúrskarandi tökum á málinu. Þetta er mjög vinsælt nám sem gagnast fyrst og fremst fólki sem ætlar að setjast hér að og vill taka fullan þátt í samfélaginu og atvinnulífinu. 

Af hverju er til skoðunar að kippa út fjárfestingu er varðar framtíð íslenskunnar sem þegar hefur sannað sig? Er íslenska kannski lúxusvara? Mál sem bara moldríkt fólk hefur efni á að læra? Staðan í dag á Íslandi er þannig að hið opinbera reiðir sig verulega á háskólana til þess að mennta fullorðna innflytjendur sem vilja læra íslensku hratt og vel. Á litlu málsvæði eins og okkar er ekki óeðlilegt að háskólarnir gegni þessu hlutverki gagnvart fólki sem kemur hingað með stúdentspróf eða háskólagráðu. Í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2024–2026 sem samþykkt var í maí síðastliðnum er einmitt talað um eflingu samstarfs við háskólana um aðgengi að námi í íslensku á háskólastigi. 

Breytingar á gjaldtökuheimildum opinberra háskóla eins og lagðar voru til í nóvember 2024 myndu vera þrándur í götu íslenskunnar og hefðu einnig slæmar afleiðingar fyrir venjulegt fólk. Tökum fjölskylduna við Djúpavog sem dæmi. Danskurinn við Djúpavog fær áfram að stunda sitt nám og þarf ekki að borga krónu fyrir. Hann er ríkisborgari EES-ríkis og þar með er hann undanþeginn öllum skólagjöldum. En kona hans er líka nýflutt til landsins og þarf að eiga lögheimili hér í tvö ár áður en hún fær undanþágu frá skólagjöldum. Annað hvort þarf hún að taka íþyngjandi lán til þess að skrá sig í sama námið og eiginmaðurinn fær ókeypis eða tóra í tvö ár í starfi sem krefst ekki íslenskukunnáttu. Systir hennar, læknirinn, ákveður að koma ekki enda nennir hún ekki að borga margar milljónir úr eigin vasa til þess að tala tungumál skjólstæðinga sinna. Að ári loknu gefast danskurinn og eiginkona hans líka upp. Hún er þreytt á að afgreiða túrista á ensku í hlutastarfi og flytur til Finnlands í staðinn. Danskurinn kann nú fullt í íslensku en getur ekki hyggað sig einn og yfirgefinn við brimseltu sog. Þau kaupa sér hús í útjaðri Helsinki og halda regluleg matarboð þar sem Íslandsævintýrið er vinsælt umræðuefni. En smám saman gleymist íslenskan. Dag einn vaknar maðurinn og ekkert er eftir – nema „já, já og og“. 

Vonandi tilheyra frumvarpsdrögin fortíðinni og vonandi marka komandi ár kaflaskil í sögu málsins. Upphaf nýs tímabils þegar íslenska fær líka að njóta sín sem tunga annarsmálshafa. Greiður aðgangur að gæðanámi í íslensku er lykillinn að farsælli framtíð íslensku en líka að farsælli framtíð samfélagsins. Það gengur ekki til lengdar að vaxandi hópur fólks er svo gott sem raddlaus innan samfélagsins og fær markvisst færri tækifæri til starfsframa og samfélagsþátttöku en þau sem kunna málið vel. Eitthvað mun láta undan. Það er okkar verkefni að tryggja að íslensk tunga lifi og að við fáum öll tækifæri til að tilheyra henni og nota óháð uppruna. 

Höfundur

Katelin Marit Parsons er aðjúnkt í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Hún starfar einnig sem ritstjóri vefsins Handrit íslenskra vesturfara við Árnastofnun.

Scroll to Top