Hugtakið sannsaga er tilraun okkar til þess að þýða og staðfæra það sem á ensku hefur verið nefnt „creative nonfiction“. Við skrif af þessu tagi er beitt ákveðinni aðferð við að segja sannsögulegar sögur sem sprettur m.a. upp úr nýju blaðamennskunni sem fram kom í kringum 1960. Blaðamönnum þess tíma, sem þurftu að skrifa um erfið málefni á borð við Víetnamstríðið, fannst sem hefðbundnar aðferðir blaðamennskunnar, s.s. að skrifa í hlutlægum tón og reiða sig á ónafngreinda heimildarmenn, dygðu ekki til þess að gefa mynd af trámatískum atburðum heldur þyrfti persónulegri nálgun.
Ef farið er enn lengra aftur í leit að forverum er iðulega staldrað við hjá Michel de Montaigne (1533–1592) sem oft er sagður frumkvöðull að þeirri grein persónulegra skrifa sem ganga undir heitinu esseyjur. Það hugtak er einmitt komið frá Montaigne því hann kallað skrif sín „essai“ sem er dregið af frönsku sögninni essayer eða reyna.
Þá að því sem helst einkennir sannsögur:
- Höfundurinn segir frá samkvæmt bestu vitund. Hann segir ekki vísvitandi ósatt og skáldar ekki inn í en skoðanir hans og hugmyndir ná inn í textann.
- Höfundur skrifar í fyrstu persónu og nýtir sjálfan sig, reynslu sína og upplifanir til að skerpa á og færa efnið nær lesandanum. Hann sviðsetur sjálfan sig líka og verður þannig hluti af sögunni.
- Höfundur „spjallar“ við lesandann og myndar trúnaðarsamband við hann.
- Efniviðurinn, sem er einhver sannleikskjarni, sóttur í dagbækur, upplifun, minningar, rannsóknir eða ferðalag, er settur fram með aðferðum frásagnarlistarinnar, s.s. sviðsetningu, samtölum, stílbrögðum, myndmáli og íroníu. Úr verður saga –sannsaga.
Ef þessum aðferðum er beitt má allt eins búast við því að erfitt sé að greina á milli sannsögu og skáldsögu eða skáldævisögu vegna þess að textinn er áþekkur í útliti og aflestrar. Stundum getum við ekki verið viss nema við fáum skilaboð frá höfundi eða útgefanda sem taka af öll tvímæli. Og stundum dugar það ekki til vegna þess að samband sannsögunnar og sannleikans er margslungið.
Höfundar sem hafa farið fullfrjálslega með staðreyndir hafa verið gerðir afturreka eins og Raynor Winn, höfundur minningabókarinnar The Salt Path. Þetta er saga af því þegar Winn og maður hennar missa hús sitt og leggja í kjölfarið upp í þúsund kílómetra langa gönguferð eftir suðvesturströnd Englands. Bókin hreppti verðlaun og seldist í bílförmum þar til rannsókn blaðsins Observer leiddi í ljós að ýmislegt hafði verið skáldað inn í og öðru sleppt, m.a. að þau hjónin hefðu misst hús sitt vegna þess að Winn hefði dregið sér fé. Winn hefur borið af sér sakir en eigi að síður varð úr þessu mikið hneykslismál.
Sumum finnst að ef aðferðir frásagnarlistarinnar eru nýttar til að segja sanna sögu sé hún þar með komin inn í ríki skáldskaparins og lúti lögmálum hans. En er þá aldrei hægt að segja sanna sögu, erum við alltaf háð tilbúnum, íhlutandi aðferðum og auðvitað tungumálinu sjálfu? Þetta er ákveðinn botnlangi í umræðunni því að við þurfum að geta miðlað því sem okkur finnst vera sannleikur hverju sinni með þeim ráðum sem tiltæk eru. Vissulega getur skáldsaga gefið eins konar trúðsleyfi til að segja satt, þar sé allt látið gossa eða stillt upp hliðstæðum aðstæðum og í lífinu. Það er annars konar sannleikur en sannsagan fæst við.
Ýmiss konar skrif finna sér leið inn í sannsöguna en algengast er að aðferð sannsögunnar sé beitt í esseyjum, ferðasögum og minningabókum (e. memoir). Ein grein sannsagnaskrifa hefur nokkra sérstöðu, sú sem kallast innlifunarskrif (e. immersion writing), vegna þess að þar fer höfundur af stað og beinlínis býr til söguefnið eða verður hvati að því. Sem dæmi má nefna konu sem klæddi sig upp sem karlmann í nokkra mánuði til þess að rannsaka ólík viðbrögð annars fólks við kynjunum. Ferðasögur geta líka flokkast undir innlifunarskrif.
Sannsagan verður þannig til þegar einhver sannleikskjarni er tekinn og unnið er úr honum með aðferðum skáldskaparins; þetta snýst bæði um vilja til að segja satt og að kanna hversu langt má fara frá þessum kjarna til að búa til læsilegt verk án þess að afbaka sannleikann. Minningar eru eins og hólmar í hafsjó gleymskunnar og því stundum óhjákvæmilegt að geta í eyðurnar þegar sannsögur eru annars vegar. Almennt nálgumst við þó sannsögur með þá hugmynd að höfundurinn hafi haft vilja til að segja satt, samkvæmt bestu vitund og að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem minnið setur. Stundum dugar einbeittur vilji höfundar til að segja satt þó ekki til. Hann getur óvart sagt ósatt með því að segja ekki nógu mikið af sannleikanum eða með því hreinlega að sleppa ákveðnum upplýsingum. En höfundar sannsagna hafa líka verið ásakaðir fyrir að draga ekkert undan og of mikið hispursleysi, í raun segja of satt. Það er því vandratað í heimi sannsögunnar.
Mynd
Dalrún Kaldakvísl.
Frekara lesefni
Dalrún Kaldakvísl. Köldukvíslarkver. Ritið, 3. tbl. 2024: Sannsögur.




