Aristide er ungur maður sem býr á Norðaustur-Indlandi. Móðurmál hans er karbíska, sem er tíbesk-búrmiskt tungumál talað af um 500 þúsund manns, en hann talar ensku sem annað mál. Aristide er einn fjölmargra sem leggja stund á íslenskunám þrátt fyrir að hafa aldrei komið til landsins. Hann féllst á að útskýra hvaðan áhuginn kemur og segja frá reynslu sinni af náminu.
Áhugi Aristide á íslensku kviknaði í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Miklar truflanir urðu á flugumferð víða um Evrópu og eldsumbrotin vöktu athygli um allan heim. Ísland komst í heimsfréttirnar og Aristide hugsaði með sér: „Býr virkilega fólk þarna?“
Ári síðar beindist athygli Aristides aftur að Íslandi. Í þetta sinn var hann að vafra á netinu þegar hann rakst á YouTube-rásina Hrafna. Þar birtast stutt myndbönd sem fjalla um íslenska menningu og ýmislegt annað sem varðar daglegt líf hér á landi. Það var einmitt í gegnum þessi myndbönd sem hann komst fyrst í kynni við íslenska tungu og lærði nokkur grunnatriði. Seinna heyrði hann umfjöllun um forníslensku, nútímaíslensku, dönsku og norsku á YouTube-rásinni Ecolinguist og það vakti forvitni hans enn frekar. „Mér fannst þetta svo áhugavert að ég byrjaði fyrst að læra smá norsku og síðan íslensku.“
Ólíkt jafnöldrum sínum á þrítugsaldri sem yfirleitt vilja læra útbreidd tungumál á borð við frönsku, þýsku eða spænsku ákvað Aristide að læra eitthvað allt annað. „Mig langaði að vera öðruvísi,“ segir hann. „Af hverju ekki að læra íslensku?“. Svo bætir hann við: „Nánast enginn af þeim sem eru í svipaðri stöðu og ég myndi þora læra tungumál eins og íslensku.“
Námsferðalagið
Aristide hóf ekki netnám í íslensku fyrr en árið 2022. „Eftir að hafa skoðað YouTube-rás Ecolinguist fór ég að fylgja íslenskukennaranum Óskari Braga á Instagram og YouTube og lærði nokkur orð í íslensku af honum.“ Allar götur síðan hefur hann sótt einkatíma hjá þessum íslenskukennara í gegnum netið. Honum fannst einnig gagnlegt að nota appið Drops til að læra fleiri grunnatriði í tungumálinu og svo vefsíðuna LingQ til að lesa íslenska texta með enskum þýðingum. Annað slagið les hann og þýðir íslenska texta og fréttir í samvinnu við námsfélaga frá Portúgal sem deilir íslenskuáhuganum. „Stundum skiljum við bara 3% af textanum,“ segir hann með bros á vör, sem sýnir jákvætt viðhorf hans til íslenskunámsins þó að hann eigi margt eftir ólært.
Erfiðasti hluti námsins snýr að íslensku beygingakerfi og kyni orða. „Uppbygging tungumálsins er framandi fyrir mér. Til dæmis er ákveðinn greinir settur aftan við nafnorðið en ekki fyrir framan það, sem gerir þetta nokkuð ruglingslegt“, útskýrir hann. Honum finnst tiltölulega auðvelt að læra orðaforða og framburð og er það vegna líkinda við önnur germönsk mál sem hann þekkir.
Hann viðheldur áhuga sínum á náminu með því að horfa á ýmsar YouTube-rásir sem fjalla um ferðalög til Íslands og sögu landsins. Draumur hans er að heimsækja Ísland og tala við Íslendinga á íslensku.
Áhugi á íslenskri tónlist, sjónvarpsþáttum og sögu
Auk tungumálsins hefur Aristide einnig áhuga á íslenskri menningu og sögu. Hann sækir sér fróðleik á því sviði með því að hlusta á íslenska tónlist. Uppáhaldslagið hans um þessar mundir er Hann er ekki þú í flutningi Bríetar. Honum finnst einnig mjög áhugavert að horfa á sjónvarpsþættina Fangar. Þrátt fyrir það að skilningur hans á töluðu máli sé enn frekar takmarkaður finnst honum mikilvægt að horfa á þessa sjónvarpsþætti á íslensku til að hafa sem mest gagn af þeim við tungumálanámið.
Þáttaröðin Vikings á Netflix vakti einnig forvitni Aristide um sögu landsins og bókmenntir. Þó að þáttaröðin sé á ensku og aðeins lauslega byggð á íslenskum miðaldabókmenntum þá hefur hann til dæmis fengið að fræðast um Eirík rauða og Leif Eiríksson í gegnum þættina. „Þættirnir urðu þess valdandi að ég vildi læra enn meira um menningu víkinga “. Hann hvetur alla þá sem hafa áhuga á norrænni menningu að horfa á þessa þætti. Einstaka sinnum fylgist hann með íslenskri fréttasíðu RÚV á Instagram til að komast í tæri við málið og fræðast meira um íslenskt nútímasamfélag.
Það er þess virði að læra íslensku
Þótt íslenska sé lítið tungumál í samanburði við mörg önnur sér Aristide einstakt tækifæri í því að læra eitthvað sem fáir kunna. Íslenskunámið hefur opnað fyrir honum nýjan menningarheim sem er í þúsundum kílómetra fjarlægð, langt frá eigin heimhögum. „Að læra íslensku hefur gert lífið áhugaverðara”, segir hann og bætir við: „Í stað þess að láta mér leiðast ákvað ég að læra nýtt tungumál. Áhuginn kviknaði um leið“.
Þegar hann er spurður um hvað hann sjái fyrir sér í framtíðinni þá segir Aristide að hann vilji nýta sér kunnáttuna. „Mig langar til að heimsækja Ísland einhvern tímann – ekki bara til að tala við heimamenn heldur líka til að vera til gagns til dæmis með því að aðstoða aðra sem tala ekki tungumálið, að túlka fyrir fólk“, segir hann.
Öllum þeim sem hikandi eru við að hella sér út í íslenskunám ráðleggur Aristide eftirfarandi: „Ef þig langar til að heimsækja Ísland þá er það frábær ástæða til að læra íslensku.“ Í kveðjuskyni bætir hann svo við: „Ef þú vilt bæta færni þína í tungumálum sem eru sjaldgæf í heiminum þá segi ég bara – gerðu það endilega! Það er þess virði.“
Mynd
Aristide