Samfall
Þegar beyging íslenskra orða er skoðuð kemur fljótt í ljós að sumar beygingarmyndir koma fyrir á fleiri en einum stað í beygingardæminu. Ef við skoðum t.d. uppáhaldsorð margra íslenskukennara, hestur, þá sjáum við að sama myndin, hesta, kemur fyrir bæði í þolfalli fleirtölu og eignarfalli fleirtölu. Þetta er ein birtingarmynd fyrirbæris sem nefnist samfall (e. syncretism). Samfall beygingarmynda þýðir að sama beygingarmyndin birtist á ólíkum stöðum í beygingardæminu.
Í tilviki hests er samfallið hugsanlega bara tilviljanakennd samhljóðun vegna þess að öll nafnorð sem beygjast yfirhöfuð fá endinguna -a í eignarfalli fleirtölu, sama hver þolfallsmyndin er. Á öðrum stöðum í málkerfinu er um kerfisbundið samfall að ræða. Til dæmis er samfall milli nefnifalls og þolfalls í öllum hvorugkynsnafnorðum (og ákvæðisorðum þeirra, svo sem lýsingarorðum). Svo eru til nokkur orð, eins og skór, sem hafa alveg einstakt samfallsmynstur, en nánar verður vikið að því hér fyrir neðan.
Málfræðingar hafa mikinn áhuga á því hvernig börn á máltökuskeiði fara að því að læra allar þessar beygingarmyndir og halda þeim aðgreindum þrátt fyrir að sumar þeirra birtist á fleiri en einum stað í málkerfinu, bæði innan sama beygingardæmis og milli ólíkra beygingardæma. Ef barn heyrir einhverja af þessum samfallsmyndum er m.ö.o. ekki augljóst út frá beygingarmyndinni hvaða orð, fall, tölu eða jafnvel kyn er um að ræða.
Ef til vill gætu samfallsmynstur gefið okkur einhverja vísbendingu um það hvernig við lærum og flokkum mismunandi beygingarmyndir. Óregla gerir okkur erfiðara fyrir að læra málið og aukið samfall helst gjarnan í hendur við aukna reglu í málkerfinu. Til dæmis er nokkur fjöldi karlkynsorða sem fékk áður endinguna -u í þolfalli fleirtölu, sem breyttist svo í -i til samræmis við önnur orð sem enda á -ir í nefnifalli fleirtölu (t.d. fjörðu – firði, köttu – ketti). Þar með varð málkerfið reglulegra en auk þess varð til samfall sem var ekki áður til staðar í þessum orðum. Í fornri beygingu orðanna er raunar ekkert samfall milli beygingarmynda neins staðar í beygingardæminu.
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) geymir gögn um beygingarmynstur hundruð þúsunda íslenskra orða. Hvort sem maður ætlar bara að fletta því upp hvernig eitthvert orð beygist eða nýta gögnin í stórtækar málfræðirannsóknir eða máltæknilausnir þá er hægt að nýta BÍN á ótal vegu.
Þökk sé því hvernig gögnin í BÍN eru sett upp þá er hægur leikur að finna öll samfallsmynstrin sem leynast þar. Hver beygingarmynd er merkt með svokölluðu marki, sem segir til um málfræðilegar formdeildir hennar, þ.e. fall, tölu og ákveðni í tilviki nafnorða. Með því að taka saman hvaða beygingarmyndir birtast oftar en einu sinni innan beygingardæmis, og með hvaða mörkum, fáum við út samfallsmynstur orðsins. Ef við flokkum öll nafnorð í BÍN á þennan hátt fáum við góða hugmynd um þau samfallsmynstur sem finnast í íslenskri nafnorðabeygingu.
Byrjum á því að sía frá samsett orð svo að hvert grunnorð (þ.e. ósamsett orð) komi bara einu sinni fyrir. Það þýðir t.d. að hestur verður eftir í orðasafninu en ekki reiðhestur, plóghestur, lestrarhestur o.s.frv. Í sumum orðum eru afbrigði af beygingarmyndum á einhverjum stöðum í beygingardæminu. Stundum er beyging á reiki milli málhafa en afbrigði geta líka verið háð setningarlegu umhverfi og stílbrigðum. Til einföldunar eru orð með slík afbrigði síuð frá hér.
Þá standa eftir 11 samfallsmynstur sem finnast bara í einu orði:
dísil, flimtingur, frændi, hel, hugur, leggings, skati, skór, systir, völ, örna
Tökuorðið leggings er bara skráð í BÍN í fleirtölu án greinis og tekur engar beygingarendingar. Nokkur hinna orðanna eru ekki notuð í öllum samsetningum falls, tölu og greinis af ýmsum ástæðum, sem skýrir sérstöku samfallsmynstrin. Það eru m.ö.o. göt í beygingardæmum þeirra. Ef við síum þessi orð frá standa bara fjögur orð eftir:
frændi, skati, skór, systir
Skati er merkt „skáldamál“ en það sem er sérstakt við það í þessu samhengi er að það beygist eins og hvert annað veikt karlkynsorð í eintölu en í fleirtölu er -n- skotið inn milli stofns og endingar (skatnar). Það er þó varla hægt að telja þetta orð til virks orðaforða í íslensku nútímamáli.
Óregla r-stofna frændsemisorðanna faðir, bróðir, dóttir, systir og móðir er vel þekkt. Það vill þannig til að systir er það eina sem hefur einstakt samfallsmynstur. Hin orðin fá sömu endingar en taka ólíkum hljóðskiptum í stofni (t.d. móður – mæður) og hafa því ekki samfall milli eintölu og fleirtölu eins og systir (t.d. þf. et. systur – þf. ft. systur).
Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er frændi í grunninn leitt af lýsingarhætti nútíðar sagnarinnar frjá. Þó að til séu fjölmörg önnur orð sem enda á -(a)ndi og eru leidd af lýsingarhætti nútíðar einhverrar sagnar þá er samfallsmynstur orðsins frændi einstakt þar sem það hefur ekki hljóðskipti milli a og e (eða ó/æ í tilviki bónda) í eintölu og fleirtölu líkt og önnur svipuð orð heldur kemur bara hljóðið æ þar fyrir í öllum myndum. Þá stendur aðeins orðið skór eftir.
Skór
Þetta ofurvenjulega og hversdagslega orð, skór, er algjörlega einstakt í málinu þegar nánar er að gáð. Það hefur samfall í þremur beygingarmyndum, sem er ekki svo merkilegt í sjálfu sér fyrir utan þá staðreynd að allar þessar gerðir af samfalli koma hvergi fyrir annars staðar.
- þf.et. – þgf.et. – þf.ft.: skó
- nf.et. – nf.ft.: skór
- þgf.et.m.gr. – þgf.ft.m.gr.: skónum
Fyrstu tvær samfallsgerðirnar finnast að hluta til hjá öðrum orðum en í þeim tilvikum ná þau líka til fleiri staða í beygingardæminu. Til dæmis eru veik karlkynsorð (gluggi) með samfall í þolfalli og þágufalli eintölu og þolfalli fleirtölu, eins og skór, en það samfall nær líka til eignarfalls eintölu og fleirtölu (glugga). Svo eru mörg hvorugkynsorð eins í nefnifalli eintölu og fleirtölu en þá eru þolfallsmyndirnar líka eins (skáld). Skór er sem sagt eina orðið með nákvæmlega þetta samfallsmynstur.
Þriðja tilvikið af samfalli er enn sérstakara. Það er eina dæmið í BÍN um að þágufall eintölu með greini hafi sömu mynd og þágufall fleirtölu með greini og raunar eina dæmið í BÍN um að sama beygingarmyndin komi fyrir bæði í eintölu og fleirtölu með greini, óháð fallinu.
Ef við berum skór saman við annað svipað karlkynsorð eins og mór, þá sjáum við að beygingin er nákvæmlega eins í eintölu (skór/mór, skó/mó o.s.frv.), en í fleirtölu virðist stofnsérhljóðið hafa fallið brott eða runnið saman við upphafshljóð endingarinnar alls staðar nema í eignarfalli án greinis:
ft. án gr. | ft. með gr. | |
nf. | skór/móar | skórnir/móarnir |
þf. | skó/móa | skóna/móana |
þgf. | skóm/móum | skónum/móunum |
ef. | skóa/móa | skónna/móanna |
Ef skór beygðist reglulega ættum við þ.a.l. von á beygingarmyndunum skóar, skóa, skóum og þar fram eftir götunum í fleirtölu.
En af hverju hélst -a í eignarfalli fleirtölu án greinis? Eiríkur Rögnvaldsson nefnir í Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku að það skýrist líklega af merkingarlegum hömlum. Ef -a fellur brott þá stendur stofninn einn eftir og eignarfallsmerkið er þá alveg horfið. Líkt og nefnt var hér að ofan er endingin -a algild í eignarfalli fleirtölu og því virðist hún nauðsynleg til að koma eignarfallsmerkingunni til skila. Hins vegar má fella -a brott þegar greininum er skeytt við því hann geymir nægar upplýsingar um fall og tölu án þess.
Það virðist kannski léttvægt að sérhljóð falli á brott í nokkrum beygingarmyndum í einu orði en það býr til nýjar samsvaranir í málkerfinu í formi samfalls sem koma ekki fyrir annars staðar. Algeng orð eru betur til þess fallin að geyma óreglu og skór er orð sem hefur líklega heyrst nær daglega á flestum heimilum í margar aldir. Kannski féll sérhljóðið brott einmitt vegna þess hve orðið er algengt; það er mun þjálla að segja „farðu í skóna“ (eða jafnvel „skónna“) heldur en „farðu í skóana“.
En hvaða þýðingu þetta gæti haft fyrir skipulag beyginga í heilanum á okkur er ekki gott að segja. Kannski er orðið skór eins og vel til gengnir, gamlir skór sem við höfum mótað eftir eigin þörfum og skipar þ.a.l. sinn eigin, örsmáa, beygingarflokk.
Heimildir
Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
Eiríkur Rögnvaldsson. 2013. Hljóðkerfi og orðhlutakerfi íslensku, bls. 177. [Rafræn útgáfa]. Reykjavík.
Kristín Bjarnadóttir, Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir og Steinþór Steingrímsson. 2019. DIM: The Database of Icelandic Morphology. Proceedings of the 22nd Nordic Conference on Computational Linguistics, Turku, Finnlandi.
Mynd
Arwan Sutanto. Unsplash.