Í kringum síðustu aldamót fór að bera á mikilli notkun orðsins gaur í unglingamáli. Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók merkir nafnorðið gaur ‘náungi, maðurʼ og tilheyrir óformlegu málsniði. Orðið á sér mjög langa og áhugaverða sögu og hefur á síðastliðnum áratugum gengið í gegnum talsverðar breytingar hvað varðar merkingu. Í þessum pistli verður einkum fjallað um notkun orðsins gaur sem ávarp eða upphrópun.
Gaurar í gegnum aldirnar
Í forníslensku hafði orðið gaur yfir sér mjög neikvæðan blæ og var í Snorra-Eddu haft um „óvitra menn“. Eins og sjá má í fornmálsorðabókinni sem gefin er út í Kaupmannahöfn kemur orðið gaur fyrir þegar í lok 13. aldar og er oft notað sem ávarp.
(1)
en *þu gaurr er mec særðe ... alldre scalltu fa lækneng (1270)
en þú gaur er mig særði ... aldrei skaltu fá lækningu
(2)
Gauʀ, kuath hann mikla suívirdíng hefir þu mer gíort ok skom (1400-1425)
Gaur, kvað hann mikla svívirðing hefur þú mér gjört og skömm
(3)
spurði hann í mikilli reiði herra gaurr ... hvat manna ertú (1650-1700)
spurði hann í mikilli reiði: „herra gaur... hverra manna ertu?“
Dæmin hér að framan eru öll úr þýðingum á frönskum riddarasögum og má sennilega rekja til franska orðsins gars sem þýðir ‘drengurʼ (sbr. garçon í nútímamáli). Orðið virðist hafa verið notað sem eins konar skammaryrði í fornu máli.
Í byrjun 20. aldar var merking orðsins enn mjög neikvæð. Samkvæmt orðabók Blöndals frá 1920–1924 merkti það ‘langur slániʼ, ‘óþokkiʼ eða ‘dóniʼ. Neikvæð merking virðist svo mildast þegar á líður öldina og Íslenskri orðabók frá 2002 bættist við skýringin ‘strákurʼ.
Hvað eru ávörp?
Í hversdagslegum samtölum nota mælendur stundum ávörp á borð við kallinn, elskan, vinan og vinur og gaur. Hlutverk ávarpa er að viðhalda tengslum á milli fólks sem á í samræðum og gefa til kynna afstöðu mælanda til viðmælanda. Eftirfarandi brot er tekið úr samtali tveggja fimmtán ára drengja, Boga og Svenna, sem eru að spila tölvuleikinn Grand Theft Auto. Þegar upptakan hefst er Bogi að skoða ummerki eftir stóra bílasprengju. Skyndilega sér hann mann hreyfast á skjánum.
(4) Lifandi gaur: GTA
(B=Bogi, S=Svenni)
→ 01 B *heh* gau(r) (.) það er græ- Það er gaur li:fandi hérna
02 (0,3)
03 B sérðu gæjann
04 B hann er li:fandi
05 S vó::
Í dæminu hér að framan notar Bogi orðið gaur tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið notar hann orðið sem ávarp, það er hann notar það til að fanga athygli Svenna og benda honum á að nú þurfi hann að taka vel eftir. Í seinna tilvikinu notar hann hins vegar gaur sem tilvísun, þ.e.a.s hann er að tala um viðkomandi einstakling en ekki við hann. „Gaurinn“ sem Bogi vísar til í seinna tilvikinu er ekki beinn þátttakandi í samtalinu. Slík notkun er allt annars eðlis en fyrra tilvikið og ekki til umfjöllunar hér.
Ávörp eins og gaur í dæminu hér að framan eru ekki valin af handahófi. Með vali á ávarpi getur mælandi gefið til kynna hver tengsl hans eru við viðmælanda og sýnt jákvætt eða neikvætt viðhorf. Ávörp eru því aldrei hlutlaus og notkunin á þeim persónubundin. Eins geta ávörp verið tengd ákveðnum hópum í samfélaginu. Ef við veljum óviðeigandi ávarp í einhverju samhengi getur það því komið illa við viðmælendur. Þetta þekkja til dæmis foreldrar sem hafa reynt að nota ávarpið gaur við unglinga á heimilinu.
Hlutverk ávarpsins gaur
Við rannsókn á notkun ávarpsins gaur í samtölum Boga og vina hans kom í ljós að orðið kemur fyrir í mjög ákveðnu samhengi. Efniviður rannsóknarinnar sem um ræðir telur um 4 klukkustundir og 21 mínúta þar sem koma fyrir 137 tilvik orðsins gaur sem ávarp. Af þessum tilvikum koma flest fyrir í beiðnum, eða í segðum þar sem mælandi biður viðmælanda um að gera eitthvað fyrir sig. Slíkt tilvik má sjá í dæmi (5).
(5) Ránsferð: GTA
(B=Bogi, S=Svenni)
01 B manstu þegar þetta átti að vera fokking nett
02 og við vorum bara að ræna búðir
03 (1,2)
04 S *jáhaha*
05 (0,5)
→ 06 B gau(r) far- eh farðu í a- aðra búð (.) við förum
07 að ræna
08 (0,9)
09 S ókei:
Í dæmi (5) situr Svenni við stýrið. Bogi biður vin sinn um að fara í aðra búð til að þeir geti farið saman að ræna. Segðin hefst á ávarpinu gau(r) sem er algengt munstur í samtölunum. Oftast, eða í 95% tilvika, kemur ávarpið fyrir sem fyrsta orð í segðinni.
En þótt flest dæmin hafi komið fyrir í beiðnum var gaur einnig notað í samhengi þar sem strákarnir voru að keppast um orðið, brydda upp á nýjum umræðuefnum eða sýna viðbrögð við nýjum upplýsingum.
Gaur að færa út kvíarnar?
Í upphafi var gaur aðallega notað í samtölum ungra manna sem eiga í samtölum við kynbræður sína. Þó má einnig heyra orðið notað af körlum um konur og af konum bæði um konur og karla. Í nýlegum hlaðvörpum má finna þó nokkur dæmi um gaur í samtölum kvenna. Eftirfarandi dæmi, sem er númer (6), kemur fyrir í hlaðvarpsþætti frá 2025. Hér segir þáttastjórnandinn Birta frá hrakförum sínum á þjóðvegum landsins og vinkona hennar Sunneva bregst við með orðinu gaur í línu 12.
(6) Skutl í óveðri: Hlaðvarp
(S=Sunneva, B=Birta)
01 B já ég þurfti að skutla pabba heim [upp á Bifröst]
02 S
[*he .hhhh * ]
03 B .hhhh og svo var hann eitthvað svo þurfti ég náttlega að
04 keyra tilbaka (0,7) og ég var eitthvað ég ætla að
05 leggja af stað núna bara þúst ég annað hvort
06 fer núna eða ég fe:r ekki (.) [þúst] aftur heim
07 S
[já ]
08 B þúst það er bara .hh af því að það var bara talað um að veðrið
09 yrði bara (.) kreisí klukkan (.) eitthvað (.) möh (.) þarna
10 klukkan tvö og ég á- það átti að vera verst klukkan þrjú (.)
11 fjögur .hhh þannig að ég var bara [ef::] ef ég fer nú:na
→ 12 S
[gaur]
13 B þá næ en ef ég hinkra smá þá næ ég þessu ekki skilurðu .hhh
14 þannig að ég bara æi bara sniðugt að fara bara núna
Í dæmi (6) kemur gaur fyrir eitt og sér, þ.e. orðið er ekki notað sem undirbúningur fyrir væntanlegt framhald. Orðið gaur er því notað sem viðbragð við upplýsingum sem koma fram í frásögninni, á stað sem segja mætti að sé eins konar hápunktur. Hér má því velta fyrir sér hvort rétt sé að flokka gaur sem ávarp eða hvort orðið sé að þróast í átt að því að vera upphrópun (eða orðræðuögn).
Í þessu samhengi má velta fyrir sér líkindum íslenska orðsins gaur og orða á borð við dude og mate í ensku. Eins og Kiesling og Rendle-Short hafa bent á í rannsóknum sínum virðast bæði orðin hafa glatað sinni upphaflegu merkingu, það er vísun í karlkyns einstaklinga. Færð hafa verið rök fyrir því að orðin beinist ekki lengur afdráttarlaust að ákveðnum viðmælanda heldur sé notað til að láta í ljós afstöðu gagnvart því sem kemur fram í frásögninni og jafnvel til að marka skil á milli umfjöllunarefna.
Að lokum
Ávörp koma og fara sem gerir það að verkum að erfitt er að fanga þessi orð í orðabækur. Í Íslenskri nútímamálsorðabók má finna ýmis orð sem notuð hafa verið í gegnum tíðina en eru lítið áberandi í nútímamáli. Þar má nefna ávörp á borð við gæskur og gæskan, lagsmaður, lagsi og manni. Ávarpið gaur er heldur ekki þar að finna enda þykir slík notkun heldur óformleg og hefur einkum verið bundin við ungt fólk, í það minnsta undanfarnar aldir. Í óformlegum samtölum sækja yngri kynslóðir ávörp ekki síst til ensku. Í norrænum hlaðvarpsgrunni sem verið er að vinna að um þessar mundir má sjá að ávörpin bró, hon, luv og sis eru töluvert mikið notuð í Noregi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi. Í íslensku eigum við svo gamla ávarpið gaur sem hefur hlotið endurnýjun lífdaga með nýrri merkingu. Ekki er þó enn ljóst hvort þessi orð festi rætur eða hverfi á brott eins og fjölmörg önnur ávörp hafa gert.
Heimildir
Helga Hilmisdóttir. 2025. Notkun orðsins gaur í samtölum unglingsdrengja. Orð og tunga 27:31–59.
Íslensk orðabók. 2002. Mörður Árnason (ritstj.). Reykjavík: Edda.
Íslensk nútímamálsorðabók. Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Kiesling, Scott F. 2004. Dude. American Dialect Society 79:281–305.
ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog / A Dictionary of Old Norse Prose. Københavns Universitet. http://onp.ku.dk (sótt í október 2024).
Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
Rendle-Short, Johanna. 2009. The address term mate in Australian English: is it still a masculine term? Australian Journal of Linguistics 29(2):245–268.
Rendle-Short, Johanna. 2010. ʽMate’ as a term of address in ordinary interaction. Journal of Pragmatics 42(5):1201–1218.
Samtalsorðabók. Helga Hilmisdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Zwicky, Arnold M. 1974. Hey, Whatsyourname!. Í: La Galy, Michael W., Robert A. Fox, Anthony Bruck (ritstj.). Papers from the tenth regional meeting of the Chicago Linguistic Society 10(1), bls 787–801. Chicago: University of Chicago.
Mynd
Pörupiltar. Melissa Hanhirova.





