Nýyrði gegna mikilvægu hlutverki í mótun orðræðu þar sem þau geta kynnt nýjar hugmyndir eða þekkingu. Með nýjum orðum má styrkja, skýra eða jafnvel breyta umræðunni, meðal annars með því að opna nýjar leiðir til að hugsa um málefni eða tjá sig. Þessi þróun hefur bein áhrif á hvernig við hugsum sem samfélag.
Umhverfismál
Umhverfismál hafa verið áberandi í samfélaginu undanfarin ár og kallað fram fjölmörg nýyrði. Sum orðanna eru fræðileg og eru notuð í lagatextum, fréttum o.s.frv. Önnur eru frekar notuð í almennri umræðu og geta verið gildishlaðin. Hamfarahlýnun er áhrifamikið orð í loftslagsorðræðunni og endurspeglar alvarlegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Það vakti mikla athygli og var valið orð ársins 2019.
Fjöldi nýrra samsettra orða með fyrri liðinn loftslags- hefur komið fram. Mörg þessara orða endurspegla vaxandi meðvitund til að bregðast við loftslagsvandanum, til dæmis: loftslagsaðgerðir, loftslagsaktívisti, loftslagsáætlun, loftslagskvíði, loftslagsverkfall og loftslagssamviskubit. Á hinn bóginn hafa komið fram orð sem sýna að viðteknum hugmyndum um loftslagsvána er hafnað og litið sé á hana sem pólitískan og hugmyndafræðilegan tilbúning. Dæmi um þetta eru: loftslagsheilaþvottur, loftslagsmóðursýki, loftslagsrugl, loftslagsofstæki og loftslagsöfgafólk.
Einnig hafa sprottið fram orð í tengslum við umhverfismál þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra auðlindanýtingu, minnkun úrgangs og ábyrgð í neysluvenjum. Dæmi um slík orð eru kolefnisfótspor, matarsóun, gámagrams og frískápur. Slík orð endurspegla aukna meðvitund um áhrif neyslu á umhverfið og stuðla að dýpri skilningi á þeim áskorunum sem fylgja loftslagsbreytingum.
COVID-19
Heimsfaraldurinn COVID-19 er dæmi um hvernig áhrifamiklir félagslegir og alþjóðlegir atburðir geta haft áhrif á þróun orðaforða. Meðan faraldurinn geisaði komu fram fjölmörg orð og orðasambönd sem endurspegluðu breyttan veruleika og nýjar aðstæður. Þótt orð eins og sótthreinsun, sprittun, smitkeðja og sóttvarnarhólf hafi þegar verið til í málinu varð notkun þeirra mun tíðari og þau birtust í breyttu samhengi í kjölfar faraldursins.
Fjöldi læknisfræðilegra og vísindalegra hugtaka öðlaðist jafnframt útbreidda notkun í almennu máli. Hluti af þessum orðaforða, svo sem nýgengi, smitrakning, raðgreining og PCR-próf, kom frá sóttvarnaryfirvöldum sem þurftu á nákvæmum hugtökum að halda til að útskýra sóttvarnaraðgerðir og forvarnir. Fjölmiðlar gegndu lykilhlutverki í dreifingu þessara orða.
Þá urðu einnig ýmis hugtök sem lýstu félagslegum og skipulagslegum þáttum faraldursins varðandi samskipti og smitvarnir áberandi í almennri umræðu. Orð eins og samkomubann, fjöldatakmörkun, einangrun, sóttkví og smitgát urðu miðlæg í opinberri upplýsingamiðlun og gegndu lykilhlutverki í að móta sameiginlegan skilning á því hvernig samfélagið skyldi bregðast við faraldrinum.
Þetta sýnir að svokölluð COVID-orð voru ekki alltaf nýyrði í hefðbundnum skilningi heldur orð sem voru til staðar í málinu en fengu nýtt gildi og aukið vægi í ljósi breyttra aðstæðna. Samhliða þessu urðu þó einnig til fjölmörg nýyrði, einkum í formi samsettra orða. Í mörgum þessara nýyrða vísar fyrri liðurinn beinlínis til veirunnar sjálfrar eða þeirra afleiðinga sem faraldurinn hafði, svo sem kórónu- (kórónuveirusýking), bólusetningar- (bólusetningarátak), sóttkvíar- (sóttkvíarhótel) og smit- (smithæfni). Auk þess komu fram orð sem fela í sér félagslega og pólitíska afstöðu gagnvart aðgerðum stjórnvalda og þeim áhrifum sem þær höfðu á daglegt líf, svo sem bólusetningarklúður, bólusetningarsamsæri og sóttkvíarfangelsi. Í almennri umræðu og á samfélagsmiðlum urðu jafnframt til orð sem endurspegluðu persónulega reynslu fólks af faraldrinum, t.d. farsóttarþreyta og bólusetningaröfund.
Meðal nýrra orða sem mynduð voru á annan hátt má nefna kófið sem er hljóðlíking við COVID og var oft notað til að lýsa ástandinu sem leiddi af faraldrinum. Þá má nefna orðið kóviti sem er nýyrði myndað úr orðunum COVID og hálfviti og er íslensk samsvörun við enska orðið covididiot og merkir einstakling sem telur sig vera sérfræðing í sóttvörnum og veirufræðum án þess að hafa til þess menntun eða forsendur. Önnur nýyrði sem hafa sömu orðmyndun og eru blendingar eða samrunaorð eru fjartí, myndað af fjar og partí og merkti partí sem haldið er í gegnum fjarfundabúnað, hreinangrun, myndað af hreint og einangrun og merkti einangrun frá veirusýktum heiminum þar sem hreinlæti er í fyrirrúmi og smitbit, myndað af smit og samviskubit og merkti samviskubit yfir því að hafa smitað. Slík orð endurspegla einnig þörf samfélagsins til að tjá nýja reynslu á persónulegan hátt.
Femínísk orðræða
Líkt og loftslagsváin og heimsfaraldurinn kölluðu á ný orð til að lýsa brýnum og sameiginlegum áskorunum endurspeglar femínísk orðræða sambærilega þörf til að nefna og greina margþætt fyrirbæri tengd misrétti, sjálfsmynd og félagslegum breytingum. Þessi orðræða hefur vaxið hratt á undanförnum árum og með henni hefur orðið til fjölbreyttur orðaforði sem endurspeglar þróun samfélagsumræðunnar.
Eitt þekktasta dæmið er hrútskýring, myndað úr orðunum hrútur og útskýring. Það samsvarar enska orðinu mansplaining og vísar til þess þegar karlmaður útskýrir eitthvað fyrir konu af yfirlæti eða án þess að virða hennar þekkingu. Annað áhrifamikið hugtak er þriðja vaktin sem hefur verið áberandi í íslenskri jafnréttisumræðu. Það vísar til hins ósýnilega álags sem konur bera gjarnan í tengslum við utanumhald fjölskyldulífs, svo sem að muna eftir afmælum, bóka tíma og hafa yfirsýn yfir fjölda smávægilegra en engu að síður mikilvægra verkefna. Sem dæmi um önnur mikilvæg hugtök sem hafa fest sig í sessi í þessari orðræðu eru þolendaskömm, drusluskömm og nauðgunarmenning sem öll varpa ljósi á vaxandi meðvitund um kynjaða reynslu og misrétti í samtímanum. Þessi hugtök gefa tungumálinu orð yfir reynslu sem áður var lítt nefnd eða gerð sýnileg.
Á meðan orðræða um umhverfismál og heimsfaraldur hefur einkum mótast í gegnum hefðbundna fjölmiðla þar sem lögð er áhersla á staðlað og viðurkennt málfar hefur kynjaorðræða einnig þróast á stafrænum vettvangi. Þar er orðræðan óformlegri og ensk orð og orðasambönd mun algengari en í hefðbundinni fjölmiðlaumræðu. Ekki hafa öll orð í kynjaorðræðunni fengið rótgrónar íslenskar samsvaranir, til dæmis má nefna hugtökin manspreading og manterrupting sem eru enn gjarnan notuð á ensku í íslensku samhengi.
Áhrif enskrar menningar
Ýmis önnur tökuorð, sem endurspegla víðtæk áhrif enskrar menningar og eiga uppruna sinn meðal annars í netmiðlum og kvikmyndum, eru nú hluti af daglegu máli og sýna jafnframt hvernig íslensk tunga er í sífelldri snertingu við hnattræna menningu. Má þar nefna orð eins og baby shower, bucket list, starstruck, clickbait og FOMO. Á Nýyrðavef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum má sjá fjölmargar tillögur frá almenningi um íslenskar samsvaranir við ensku orðin sem dreifast um samfélagsmiðla, svo sem bumbubuna, skjóluskrá, stjörnustjarfur, smellugildra og útundanótti. Þetta sýnir að þrátt fyrir óhjákvæmileg áhrif stafrænnar samskiptamenningar og aukin áhrif ensku, þá ríkir áfram sterkur vilji til að íslensk orð nái fótfestu í stað erlendra orða.
Orðmyndun í íslensku
Íslensk málstefna hefur lengi einkennst af málrækt og áhuga á varðveislu íslenskrar tungu. Eitt af meginmarkmiðum íslenskrar málræktar er að efla íslenska tungu og mynda ný orð eftir því sem þörf er á – helst á þann hátt að mynda nýju orðin frekar úr innlendum orðstofnum en að taka upp tökuorð. Þegar erlend orð festa sig í sessi í málinu eru þau oft aðlöguð íslensku hljóðkerfi, stafsetningu og beygingakerfi, t.d. klikkbeita (af e. clickbait) og læka (af e. like).
Fjölmörg íslensk nýyrði eru þýðingar á erlendum orðum. Algengar eru svonefndar tökuþýðingar þar sem orðhlutar eru þýddir lið fyrir lið, eins og í orðunum gaslýsing (e. gaslighting), glerþak (e. glass ceiling), hatursglæpur (e. hate crime) og hefndarklám (e. revenge porn).
Að lokum
Nýyrði gegna mikilvægu hlutverki í mótun orðræðu um samtímaleg viðfangsefni á borð við loftslagsvá, heimsfaraldur og jafnrétti kynja. Ný orð verða til sem viðbrögð við breyttum aðstæðum og gegna lykilhlutverki í því að skýra umræðu, gera flókin eða ósýnileg fyrirbæri sýnileg. Nýyrði gera fólki kleift að tjá sameiginlega reynslu og gegna þar með mikilvægu hlutverki í því að hjálpa samfélögum að takast á við nýjar áskoranir. Þannig stuðla nýyrði að því að tungumálið haldist lifandi og í takt við síbreytilegt samfélag.
Mynd
Vladimir Fedotov. Unsplash.