Hvað ef íslenska hefði ekki hefðbundna þolmynd? 


Sagnfræðingar velta stundum fyrir sér hvernig sagan hefði getað þróast ef t.d. tiltekinn lykilatburður hefði verið með öðrum hætti en raunin varð. Í málfræði þekkist þetta mun síður. 

Í sagnfræði þekkjast ensk hugtök á borð við alternate eða alternative history og counterfactual history en þá eru gjarnan settar fram rannsóknarspurningar sem hefjast á „Hvað ef …?“ Á íslensku hefur hugtakið hjásaga stundum verið notað en einnig hafa verið sett fram hugtök eins og efsaga, gagnsaga, sagnfræði í viðtengingarhætti, staðleysusagnfræði og valsaga. Stundum er slík sagnfræði líka bara kennd við hvað ef. Jón Þ. Þór lýsir henni svo í Lesbók Morgunblaðsins árið 2005: 

„Kjarninn í aðferðafræði og hugsun þeirra sem dunda sér við þessa tegund söguritunar er sá, að oft hafi óvæntir atburðir ráðið úrslitum um gang eða lok mála og þar með haft afgerandi áhrif á framvindu sögunnar. Ekkert sé fyrirfram ákveðið og þess vegna hafi skyndiákvarðanir eða óvæntar athafnir einstaklinga eða hópa, óvæntar breytingar á ytri aðstæðum, t.d. ófyrirséð veðrabrigði, oft haft örlagaríkar afleiðingar. Síðan spyrja þeir er við þessi fræði fást: „Hvað ef“ þetta eða hitt hefði ekki gerst (eða gerst)? Hver hefði framvinda sögunnar þá orðið, væri heimurinn kannski allt annar en hann er í dag?“ 

Dæmi um svona hvað ef-spurningu er sýnt í (1) en spurningin er yfirskrift eins kaflans í bókinni Hvað ef? eftir Val Gunnarsson. 

(1) Hvað ef víkingar hefðu sigrað heiminn? 

Úr því að þetta er vinsælt viðfangsefni í sagnfræði væri kannski við því að búast að þetta væri einnig vinsælt rannsóknarefni í málfræði, þá kannski einkum málsögu. Þótt málfræðingar velti oft fyrir sér margvíslegum og mismunandi „sviðsmyndum“ hefur að því er ég best veit frekar lítið farið fyrir hvað ef-rannsóknum í málfræði. Auðvitað er þó hægt að benda á ýmislegt sem gæti fallið undir málfræðilegar hvað ef-athuganir og stundum er stutt yfir í umræðu um tungumálið í ýmsum sagnfræðilegum hvað ef-spurningum; Valur Gunnarsson spyr t.a.m. strax í upphafi kaflans um víkingana (sbr. spurninguna í (1)): „Hefðu Íslendingar einhvern tímann getað sigrað heiminn? Og íslenska þar með orðið heimsmálið í stað ensku?“ 

Hér á eftir ætla ég að spreyta mig á einni málfræðilegri hvað ef-spurningu en fyrst sýni ég ýmsar aðrar hvað ef-spurningar sem ég hef safnað saman. 

Hvað ef í málfræði 

Ég hafði aldrei leitt hugann að hvað ef-málfræði þegar Gunnlaugur Bjarnason, nú óperusöngvari með meiru en þá nemi við Íslensku- og menningardeild, nefndi við mig fyrir nokkrum árum mögulegar hvað ef-rannsóknir í málfræði. Þegar ég bar þetta undir hann nýlega sagði hann að sig minnti að hann hefði verið að velta fyrir sér Stjörnustríði, Star Wars, þar sem allir virðast skilja hver annan jafnvel þótt persónurnar tali ekki sama geimverumálið. Hans hvað ef-spurning var eitthvað á þessa leið: 

(2) Hvað ef við værum með einhvern alheimsþýðanda í hausnum á okkur? Hvernig myndu tungumálin þróast án alls utanaðkomandi ílags? 

Ég ákvað að reyna að fá fleiri – einkum málfræðinga – til að búa til hvað ef-spurningar sem máttu tengjast hvaða undirsviði málfræði sem er. Þær létu ekki á sér standa og ég fékk margar bráðskemmtilegar og spennandi spurningar. Þær eru sýndar hér fyrir neðan en þar á eftir varpa ég fram eigin spurningu og geri tilraun til að ræða mögulegt svar í örstuttu máli. Ég fékk fleiri en eina spurningu frá sumum og þess má geta að spurningar um flámæli voru tíðastar en ég sýni hér eingöngu eina slíka spurningu. 

(3) Hvað ef-spurningar 

Hvað ef y hefði líka verið afnumið úr stafsetningu þegar z var afnumin? 

Hvað ef það væru engin sagnorð? 

Hvað ef flámælinu hefði ekki verið útrýmt? 

Hvað ef ekki hefði verið neitt u-innskot? 

Hvernig væri heimurinn öðruvísi ef það væri bara til eitt tungumál? 

Hvað ef við gætum bara lært eitt tungumál – hvernig hefðu tungumál og heimurinn almennt þá þróast? 

Hvað ef íslenska hefði varðveitt fleiri föll eins og t.d. staðarfall og sviptifall – hvernig liti fallakerfið út í dag? 

Hvað ef nýja þolmyndin tæki alveg yfir – getur hún það? 

Hvað ef stóra brottfall hefði verið lítið? 

Hvað ef öll fornöfn, þar á meðal fornöfn fyrstu og annarrar persónu, tjáðu þáttinn kyn?  

Hvað ef neitun setninga væri þannig að það þyrfti að segja þær aftur á bak? 

Hvað ef Akureyri hefði verið höfuðborg Íslands? 

Hvað ef viðtengingarháttur hverfur sem beygingarmynd sagna úr íslensku á næstu 100–200 árum? 

Hvað ef fjölnisstafsetningin hefði orðið ofan á á 19. öld? 

Hvað ef íslenska væri með frjálsa(ri) orðaröð – myndi þá fólk tala eins og í dróttkvæðum? 

Hvað ef íslenska hefði ekki málfræðilega kynjaaðgreiningu? 

Hvað ef sagnir í germönskum málum væru almennt í næstsíðasta sæti (sbr. regluna um sögn í öðru sæti)?  

Hvað ef óákveðinn greinir hefði (fengið að) þróast í íslensku? 

Hvað ef málbreytingar gerðust á einni nóttu? 

Hvað ef ekki hefði verið farið út í málhreinsun og það að uppræta danskan og lágþýskan orðaforða? 

Hvað ef hver einasti beygingarþáttur væri alltaf tjáður sem sérstakt orð? 

Hvað ef það væri eingöngu hægt að tengja saman setningar en aldrei smærri liði (t.d. nafnliði)? 

Hvað ef Íslendingar hefðu ekki átt sterka bókmenningu og ekki hefðu varðveist neinar sögur og handrit? 

Hvernig væri íslenska ef ritmál fyrir tungumálið hefði ekki verið til fyrr en á 20. öld? 

Hvað ef það væri engin þolmynd í íslensku? 

Mín eigin hvað ef-spurning er síðan svona: 

(4) Hvað ef hefðbundna þolmynd væri ekki að finna í íslensku? 

Ég hef stundum velt þessari spurningu fyrir mér í tengslum við mínar eigin rannsóknir á þolmynd og þá einkum því hvort við segðum þá að íslenska hefði ekki þolmynd eða hvort við myndum kalla eitthvað annað í málinu þolmynd. Í (5) er sýnd germynd þar sem frumlagið nemandinn er gerandi í nefnifalli og andlagið bókina í þolfalli. Í (6) er sambærileg setning sýnd í hefðbundinni þolmynd; þarna er notuð hjálparsögnin vera og lýsingarháttur þátíðar, lesin, og svo er bókin orðin frumlag í nefnifalli. Gerandinn er líka sýndur í (6) en hann er ekki í nefnifalli eins og í (5) heldur í þágufalli og stýrist af forsetningunni af (hér á eftir tala ég um þetta sem af-lið). Ég hef gerandann innan sviga í (6) þar sem ekki er nauðsynlegt að hafa hann með í þolmynd. 

(5) Germynd 

Nemandinn las bókina í gær. 

(6) Þolmynd 

Bókin var lesin (af nemandanum). 

Þar sem nýja þolmyndin, sjá dæmi (7), þróaðist m.a. út frá hefðbundinni þolmynd ræði ég hana ekki hér frekar. Eins útiloka ég hér líka þolmyndargerðir eins og fá(st)-þolmynd, sjá (8)–(9), sem hafa lýsingarhátt þátíðar. 

(7) Það var lesið bókina. 

(8) Ég fékk bókina senda.  

(9) Vörunni fæst ekki skilað

Þegar þolmynd er athuguð er rétt að hafa í huga að hún þarf auðvitað ekki að innihalda hjálparsögn þótt hún geri það í íslensku. Sem dæmi um þetta má nefna s-þolmynd í sænsku, sjá (10), og se-þolmynd í spænsku, sjá (11). 

(10) Sænska 

Boken lästes över hela jorden. 

(11) Spænska 

Se leen los libros voluntariamente. 

Eitt aðaleinkenni þolmyndar er að hægt er að nota af-lið (forsetningarlið með forsetningunni af) í henni sem vísar til geranda (sbr. dæmið Bókin var lesin af nemandanum sem sýnt var hér framar). Í því sem hér fer á eftir nota ég af-lið sem mælistiku á það hvort setningagerð gæti gert tilkall til þess að vera flokkuð sem þolmynd. Ég bendi þannig á nokkrar setningagerðir þar sem er hægt að nota slíkan af-lið og undirliggjandi spurning er þá: Myndum við tala um einhverja slíka setningagerð sem þolmynd í fjarveru hefðbundinnar íslenskrar þolmyndar? 

Og úr því að s-þolmyndin sænska var nefnd hér nokkrum línum framar liggur kannski beint við að byrja á að skoða -st í íslensku þegar við veltum því fyrir okkur hvort hægt væri að kalla einhverja aðra setningagerð þolmynd. Við tengjum -st gjarnan við miðmynd og þá er venjulega ekki hægt að nota af-lið. Það eru hins vegar dæmi til um að -st sé notað ásamt af-lið, sjá (12)–(14). Öll dæmin sem sýnd eru héðan af í þessum pistli má finna í Risamálheildinni. Leturbreytingar í þeim eru mínar. 

(12) Fyllist út af aðalábyrgðarmanni handrits  

(13) Athugist af þeim, sem mynda meirihluta eftir kosningar.  

(14) Kostnaður vegna verðmats greiðist af lántakanda. 

Við getum velt því fyrir okkur hvort svona dæmi yrðu flokkuð sem þolmynd ef hin hefðbundna þolmynd eins og við þekkjum hana fyrirfyndist ekki í íslensku. Í þessu samhengi má minnast á það að Kjartan G. Ottósson ræddi ýmis dæmi um það sem hann kallaði miðmynd í þolmyndarmerkingu eða þolmyndarmiðmynd í grein í Íslensku máli og almennri málfræði árið 1986. Í sumum þeirra var að finna svokallaðar háttarsagnir en þolmyndarleg notkun -st er einmitt oft samfara háttarsögnum (einkum eiga, verða, þurfa) eins og Kjartan benti á. Í (15)–(17) eru slík dæmi með af-liðum. 

(15) Þetta er bók sem ætti lesast af öllum bókmenntaunnendum [...] 

(16) Fjárfesting verður að samþykkjast af öllum stjórnarmönnum. 

(17) Þetta eru atriði, sem þurfa að athugast og ákveðast af sérfróðum mönnum [...] 

Reyndar er -st ekki forsenda þess að háttarsagnir leyfi notkun af-liða eins og sjá má í (18)–(21). Auk háttarsagnanna eiga, verða og þurfa, sem áður voru nefndar, sjáum við hér háttarsögnina mega

(18) Það á að rannsaka sakamál af lögreglu [...] 

(19) Málið verður að rannsaka alla leið af þar til bærum yfirvöldum. 

(20) Öll börn þarf að skoða af lækni eftir fyrsta hitakrampa. 

(21) 10. regla: Lunch Beat má setja upp hvar sem er af hverjum sem er [...] 

Fleiri setningagerðir þar sem fátt minnir á hefðbundna þolmynd fyrir utan af-lið sem vísar til geranda eru sýndar hér fyrir neðan. 

(22) Eru þær ekki líka framkvæmanlegar af heimilislækni? 

(23) Af 4. gr. víxillaga verður ráðið að handhafi „opins víxils“, þ.e. sýningarvíxils eða víxils án gjalddaga til útfyllingar af víxilhafa [...] 

(24) Hatursræðu er hægt að tjá munnlega eða í skriflegu formi af hverjum sem er [...] 

(25) Það þótti því sjálfsagt að láta skoða það af færustu mönnum [...] 

Áfram getum við hugleitt hvort einhver af þessum setningagerðum gæti gert tilkall til þess að vera flokkuð sem þolmynd. 

Frekari vangaveltur 

Hér hafa verið sýndar nokkrar setningagerðir sem hafa einkenni þolmyndar. Ef íslenska hefði ekki sína hefðbundnu þolmynd kann að vera að einhver þessara setningagerða væri kölluð þolmynd. Að minnsta kosti er ekki augljóst að við litum svo á að íslenska hefði þá bara alls enga þolmynd. 

Einnig má íhuga hvort einhver setningagerðanna (eða einhver enn önnur setningagerð, svo sem með fornafninu maður) væri notuð í auknum mæli og jafnvel hvort önnur setningagerð gæti þróast í fjarveru hefðbundinnar þolmyndar. Þá er einnig skemmtilegt að hugleiða hvernig við gætum komist að orði ef við ætluðum að tjá merkingu þolmyndar án þess að nota hana í setningum eins og Karlmanni á fimmtugsaldri var hrint niður stiga í Eddu á dögunum – gerandans er leitað (sjá mynd sem fylgir með pistlinum). Lesendur geta spreytt sig á því. 

Þakkir 

Ég þakka höfundum spurninganna sem eru sýndar í þessum pistli. Þeir eru: Atli Jasonarson, Ellert Þór Jóhannsson, Guðrún Þórhallsdóttir, Gunnlaugur Bjarnason, Helga Hilmisdóttir, Hlíf Árnadóttir, Ingunn Hreinberg Indriðadóttir, Iris Edda Nowenstein, Jim Wood, Jóhannes B. Sigtryggsson, Oddur Snorrason, Sigríður Sæunn Sigurðardóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir, Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir, Steinþór Steingrímsson, Yelena Sesselja Helgadóttir og Þórhallur Eyþórsson. Þá þakka ég Sigurði Stefáni Jónssyni ljósmyndara fyrir að ná því á mynd þegar Steinþór Steingrímsson hrinti mér niður stigann í Eddu. 

Heimildir 

Einar Freyr Sigurðsson. Germynd en samt þolmynd. Um nýju þolmyndina í íslensku. MA-ritgerð, Háskóla Íslands. 

Einar Freyr Sigurðsson. 2017. Deriving case, agreement and Voice phenomena in syntax. Doktorsritgerð, University of Pennsylvania. 

Einar Freyr Sigurðsson og Jim Wood. 2012. Case alternations in Icelandic ‘get’-passives. Nordic Journal of Linguistics 35(3):269–312. 

Engdahl, Elisabet. 2006. Semantic and syntactic patterns in Swedish passives. Benjamin Lyngfelt og Torgrim Solstad (ritstj.): Demoting the agent. Passive, middle and other voice phenomena, bls. 21–45. Amsterdam: John Benjamins.  

Guðni Th. Jóhannesson. 2013. Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst. Fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands 29. janúar. 

Illugi Jökulsson. 2013. Ef Adolf Hitler hefði verið myrtur 1919. Fréttablaðið 14. september, bls. 40. 

Jón Þ. Þór. 2005. „Hvað ef?“ – fræðimennska eða hugarórar? Lesbók Morgunblaðsins 5. febrúar, bls. 8–9.  

Kjartan G. Ottósson. 1986. Mörk orðmyndunar og beygingar. Íslenskt mál og almenn málfræði 8:63–119. 

MacDonald, Jonathan E. 2017. An implicit projected argument in Spanish impersonal- and passive-se constructions. Syntax 20(4):353–383. 

Starkaður Barkarson, Steinþór Steingrímsson og Hildur Hafsteinsdóttir. 2022. Evolving Large Text Corpora: Four Versions of the Icelandic Gigaword Corpus. Proceedings of the Thirteenth Language Resources and Evaluation Conference, bls. 2371–2381. Marseille: European Language Resources Association. 

Valur Gunnarsson. 2010. Ber íslenska þjóðin ábyrgðina á Hruninu? Tímarit Máls og menningar 71(3):44–52. 

Valur Gunnarsson. 2022. Hvað ef? Reykjavík: Salka. 

Wood, Jim. 2015. Icelandic morphosyntax and argument structure. Cham: Springer. 

Mynd 

Karlmanni á fimmtugsaldri var hrint niður stiga í Eddu á dögunum – gerandans er leitað, Sigurður Stefán Jónsson. 

Höfundur

Einar Freyr Sigurðsson er rannsóknardósent á íslenskusviði Árnastofnunar. Hann fæst m.a. við þolmynd og þolmyndarlegar setningagerðir í rannsóknum sínum.

Scroll to Top