Í upphafi var skynsemin 


Orðasambandið „að gjalda skynsemi“ kemur nokkrum sinnum fyrir í fornum textum. Það er athyglisvert að í tveimur tilvikum er orðalaginu beitt við mjög sambærilegar aðstæður, nánar tiltekið þar sem rætt er um dauðastund mannsins og yfirvofandi reikningsskil hans andspænis Guði. Í Jóns sögu postula I er það postulinn og guðspjallamaðurinn Jóhannes Sebedeusson sem ávarpar gamlan kunningja sinn, ungan mann sem var áður undir handleiðslu hans en leiddist síðar út á braut glæpa. Postulinn vill snúa unga manninum aftur á réttan veg og býðst jafnvel til að deyja í hans stað ef ekkert annað dugar til að bæta fyrir misgjörðir hans: „Hræðstu eigi, vesæll maður, hefir þú enn nokkra von, því að ég skal gjalda guði skynsemi fyrir þig, búinn skal ég að deyja fyrir þínar sakir, svo sem Kristur dó fyrir vorar.“ Í Ceciliu sögu meyjar er það píslarvotturinn Valerianus sem stendur hvergi banginn frammi fyrir blóðþyrstum greifa sem er þess albúinn að pynta hann til dauða, og segir: „Hvað eruð þér eða konungar yðrir nema hímandi manneskjur í heimi þessum um stund, og munu deyja af stundu, og skulu gjalda þá skynsemi guði fyrir verk yður og veldi það er hann gaf ykkur.“ 

Dauðastundin í frönsku 15. aldar handriti. Mikjáll erkiengill og ónefndur djöfull berjast um sál mannsins en Guð fylgist ábúðarfullur með.

Í báðum sögunum sem hér er vitnað til er talað um að „gjalda skynsemi“ í merkingunni: „að skila inn yfirliti um gjörðir sínar.“ Hugsunin er hagræn í öllum aðalatriðum; dauðinn og skatturinn eru jafn óumflýjanlegir og báðir krefjast þess að þú fyllir út viðeigandi eyðublað um eignir og skuldir á tilsettum tíma. Merking orðsins „skynsemi“ virðist hér alls ólík því sem tíðkast í nútímamáli. 

Stærsti hlutinn af þeim sögum sem skráðar voru hérlendis um heilaga karla og konur á miðöldum eru þýðingar úr latínu, og svo er einnig um þessar tvær. Samanburður við latneska textann leiðir í ljós að orðalagið „að gjalda skynsemi“ er þýðing á latneska orðasambandinu „reddere rationem“. Sögnin „reddo“ merkir „endurgjalda“ eða „gefa til baka“, einkum það sem fengið hefur verið að láni, en er einnig notuð í almennri merkingu um það að koma einhverju (þar með talið manneskjum) aftur á sinn rétta stað (til dæmis í sitt rétta embætti). Hvort sem við greiðum af húsnæðisláninu, skilum bók á bókasafnið eða umbunum barni fyrir góða hegðun – alltaf erum við að koma skikk á hlutina, halda heiminum í jafnvægi og spyrna við óreiðunni sem bíður handan við hornið ef hirðuleysið tekur völdin.  

Orðið „ratio“ er margrætt í latínu og er bæði notað á sviði stærðfræði og siðfræði. Orðið er rótskylt sögninni „reor“ sem merkir ýmist „að reikna“ (í hinu stærðfræðilega samhengi) eða „að meta“ og „álíta“ (í siðfræðinni). Siðfræðilega athöfnin er að flestu leyti sniðin eftir hinni stærðfræðilegu; þegar við metum innræti manneskjunnar þurfum við að tína til gjörðir hennar og skoðanir, og „reikna“ þær út – leggja saman hið jákvæða og draga frá hið neikvæða. Álit okkar á öðru fólki ætti helst aldrei að vera huglægt, handahófskennt eða órökstutt, heldur skyldi það ávallt grundvallast á réttum útreikningum. Þegar framkoma okkar við aðra byggir á sanngjörnum útreikningi er öruggt að hún felur í sér „ratio“ eða skynsemi.  

Orðið „skynsemi“ sem þýðing latneska orðsins „ratio“ kemur fyrir í hómilíum sem mótast á 12. öld og teljast því til allra elstu ritheimilda sem varðveitar eru á íslensku. „Skynsemi“ getur sömuleiðis haft sömu merkingu og orðið „ástæða“ í nútímamáli. Í ævintýri einu sem þýtt var á 14. öld er sagt frá biskupi sem ræðir drykklanga stund við ungfrú sem leitar til hans en vísar henni síðan frá sér „fyrir þá skynsemi að messutími var kominn.“ Í Stjórn er „skynsemi“ jafnvel notað sem þýðing á latneska orðinu „causa“. Í Silvesters sögu er biskupinn Eufrosinus krafinn svara um það hvers vegna hann fastar á laugardögum frekar en fimmtudögum. Svar biskupsins er svohljóðandi: „Þörf má þar vinna til fullrar skynsemi, ef vér vitum að helgir feður postular vorir hafa boðið, en þó er skynsemi gjaldandi, þar er skynsemi er leitað.“ Þetta þýðir með öðrum orðum: „Það ætti nú að teljast fullgild ástæða að postularnir sögðu að þetta ætti að vera svona, en það er sjálfsagt að tilfæra rökin úr því að beðið er um rökstuðning.“ Hér kemur orðið „skynsemi“ fyrir þrisvar sinnum í einni og sömu málsgrein.  

Orðið „skynsemi“ vísar til útreiknings og ástæðu en merkingin getur jafnframt færst yfir á málflutninginn eða frásögnina um þessi atriði, líkt og sést á dæmunum tveimur úr Jóns sögu postula og Ceciliu sögu. Þetta er sambærilegt latneska orðinu „ratio“ og hinni forngrísku hliðstæðu þess, „logos“ – orðinu sem var í upphafi, eins og kemur fram í Jóhannesar guðspjalli. Orðalagið „að gjalda skynsemi“ getur haldið sér jafnvel þótt vegferð orðsins í textunum sem þýtt er úr sé ekki alltaf eitt og hið sama. Þetta má sjá í Páls sögu postula I, sem er þýdd að verulegu leyti upp úr Postulasögu Nýja testamentisins. Þegar Páll postuli kemur til Jerúsalem í síðasta sinn ávarpar hann æstan múginn sem vill varpa honum í fangelsi og segir: „Heyrið þér, bræður, þá skynsemi er ég mun gjalda fyrir mig.“ Orðalagið „reddo rationem“ er notað á þessum stað í Vúlgötunni en í hinum upphaflega gríska texta Postulasögunnar talar Páll um að hann ætli sér að flytja „apólógíu“ (ἀπολογία) eða varnarræðu. Áherslan er öll á hið talaða og lifandi orð, og þeim sem þýddi söguna á 13. öld hefur þótt orðið „skynsemi“ duga fullvel til að ná utan um merkinguna.  

Merking orðsins „skynsemi“ var þannig mun víðtækari á kaþólskum tíma en í samtíma okkar. Nútímamerkinguna er hins vegar líka að finna í heimildum frá 13. öld þar sem orðið er ósjaldan notað um sálargáfuna sem felst í því að greina rétt frá röngu og gáfulegt frá heimskulegu. Með siðaskiptunum má segja að sú merking orðsins hafi orðið einráð, vafalaust sem liður í þeirri lútersku einstaklingshyggju sem tók völdin í trúarlífinu. Orðið „skynsemi“ kemur fyrir þrisvar sinnum í Kirkjuordinansíu Kristjáns III. Danakonungs þar sem línur voru lagðar fyrir hinn nýja sið í landinu, og í öllum þremur tilvikunum er vísað til skynsemi í merkingunni „dómgreind“, nokkurn veginn á sama hátt og við skiljum orðið í dag. 

Allt er þetta vert að hafa í huga, því ef nokkuð er að marka hinar kaþólsku frásagnir um dauðastundina verður ljóst að skynsemin var ekki aðeins í upphafi; hún er líka í endann.  

Heimildir

Heilagra manna sögur I-II, útg. C.R. Unger. Kristjanía, 1877.  

Islendzk æventyri I, útg. C.R. Unger. Halle, 1882. 

Postola sögur, útg. C.R. Unger. Kristjanía, 1874. 

Stjorn, útg. C.R. Unger. Kristjanía, 1862. 

Mynd

Le Mort devant son juge, Maitre de Rohan. Wikimedia.

Höfundur

Hjalti Snær Ægisson er rannsóknarlektor á menningarsviði Árnastofnunar.

Scroll to Top