Sameiginleg yfirstéttarmenning í keisaradæminu
Eftir fall Kænugarðs á 13. öld féll stór hluti þess landsvæðis sem nú er Úkraína undir yfirráð Póllands-Litáens. Verulegur hluti svæðisins komst síðar undir stjórn Rússa en það var ekki fyrr en á 17. og 18. öld sem stærstur hluti Úkraínu lenti undir yfirráðum þeirra. Vestur-Úkraína var áfram hluti af austurrísk-ungverska keisaradæminu, og síðar þeim ríkjum sem tóku við í framhaldinu.
Allt fram á miðja 19. öld féll þjóðernisleg sjálfsmynd meðal bæði menntaðra Rússa og Úkraínumanna undir sameiginlega yfirstéttarmenningu. Menning keisaradæmisins á 18. og 19. öld var eins konar blendingur þar sem bæði rússneskir og úkraínskir menntamenn áttu þátt í að móta nútímarússnesku sem tungumál keisaradæmisins. Með því að hafa vald á því tungutaki sem mestrar virðingar naut gátu elítur jaðarsvæðanna betur aðlagast heimi valdhafanna. Samhliða því var þeim frjálst að viðhalda eigin hefðum og nota móðurmál sitt á „heimavelli“, að því tilskildu að þeir væru hollir rétttrúnaðarkirkjunni og keisaraættinni.
Hugmyndir á 19. öld um rússneska þjóðareiningu
Rússneskir menntamenn á 19. öld sem þekktu stefnur og strauma í Evrópu voru innblásnir af hugmyndum meðal Breta, Frakka og Þjóðverja og töldu að þjóðleg samstaða og eining væri forsenda þess að keisaraveldið stæði sterkt. Til að geta keppt við hin nýlenduveldin yrði Rússland að mynda trausta þjóðareiningu sem samanstæði af rétttrúuðum Austur-Slövum.
Öfugt við Rússland viðurkenndi Habsborgaraveldið Úkraínumenn sem sérstaka þjóð, og á seinni hluta 19. aldar voru ýmis úkraínsk félög stofnuð þar og úkraínska var kennd í skólum. Þetta leiddi til þess að í Rússlandi var farið að útmála Pólverja og Austurríkismenn sem æsingamenn og forsprakka „samsærisins úr vestri“; þarna væru á ferðinni óvinir Rússlands sem hefðu „búið til“ úkraínska þjóðernishyggju í því skyni að grafa undan rússneskri þjóðareiningu. Rússneskir þjóðernissinnar hvöttu til strangari aðgerða gegn öllu sem var úkraínskt og héldu því fram að ef Úkraínumenn myndu ekki aðlagast herraþjóðinni væri hætta á að Rússland drægist aftur úr Frakklandi og Bretlandi; Þýskaland yrði þannig forystuþjóðin meðan Rússland stæði í sömu sporum og hin hnignandi veldi Habsborgara og Ottómana, vegna þess að sterkan þjóðarkjarna skorti.
Sú hugmynd festi rætur í sjálfsskynjun Rússa að það væru landráð gegn rússnesku þjóðinni að gera ráð fyrir að til væri sérstök úkraínsk þjóðarsjálfsmynd. Ef einhver kotbóndi talaði úkraínsku mátti svo sem líta svo á að þar færi einfaldlega frumstæður og ómenntaður Rússi en öðru máli gegndi ef menntamaður talaði úkraínsku. Sá yrði ávallt álitinn svikari.
Enda þótt Úkraínumenn væru yfir 90% íbúanna í Úkraínu var sláandi hve lítið bar á þeim og þeirra tungumáli í borgum og bæjum. Úkraínumenn voru í raun lítt sýnilegir – eins og þögull meirihluti án aðgangs að hinu opinbera rými.
Rússneska heldur stöðu sinni á tíma kommúnismans
Febrúarbyltingin 1917 valdefldi íbúana til að taka stjórnkerfið í sínar hendur. Úkraínskir bændur í hermannabúningum streymdu inn í borgirnar. Ekki leið á löngu uns tungumál þeirra hafði fundið sér leið inn í alla þætti þjóðlífsins, þar á meðal í fjölmiðlum, menntakerfinu, hernum og í opinberri stjórnsýslu. Talsmenn úkraínsku hreyfingarinnar reyndu að koma því til skila að þeir væru ekki að sækjast eftir því að rússneska hyrfi; þeir vildu einungis hnekkja hinni einokandi stöðu sem rússneska naut á sviði æðri menningar. Úkraínska tók nú að sjást í hinu opinbera rými. Það kallaði aftur á móti strax á sterk viðbrögð og hneykslan meðal hinna rótgrónu stétta í borgum landsins; það eitt að veita úkraínsku þannig stöðu nútímalegrar tungu fæli í sér að rússneskumælandi fólk, sem byggi innan um aðra hópa á jaðarsvæðum heimsveldisins, myndi missa sitt einkatilkall til þeirra gilda sem tengdust nútíma og siðmenningu. Rússneska hélt því stöðu sinni sem tungumál framfara og menningar.
Á Stalínstímanum voru rithöfundar, listamenn og vísindamenn teknir af lífi í hrönnum þannig að Úkraínumenn urðu enn og aftur án eigin menntamannaelítu sem væri fær um að tjá sameiginlega sjálfsmynd þeirra. Úkraínsku var ýtt til hliðar og hún var stimpluð sem tákn um pólitíska óhollustu. Það varð beinlínis varúðarráðstöfun hjá fólki að tala heldur rússnesku til að forðast ásakanir um þjóðernishyggju. Eftir að Krústsjef hafði fordæmt stalínismann árið 1956 öðluðust þeir þegnar sem ekki voru Rússar meira svigrúm en áður til tjáningar á sviði máls og menningar. En pendúllinn sveiflaðist til baka á tíma Brésnefs þegar aftur var markvisst ýtt undir rússnesku á öllum sviðum opinbers lífs í Sovétríkjunum. Rússneska sat ótvírætt í fyrsta sæti en úkraínska féll neðar og var eiginlega flokkuð sem einhvers konar furðuverk sem mætti skoða út frá þjóðfræðilegu sjónarhorni. Sífellt fleiri Úkraínumenn sögðu skilið við þjóðtungu sína sem var höfð til merkis um lágt menningarstig og hindraði fólk í að komast áfram í samfélaginu. Meira að segja eftir að Úkraína hafði öðlast sjálfstæði árið 1991 var það fólki til trafala að tala úkraínsku, eina opinbera málið í landinu, en rússneska hélt áfram að vera lykillinn að félagslegum hreyfanleika.
Sjálfstæð Úkraína gagnvart hugmyndum Pútíns um rússneskumælandi „þjóð“ utan viðurkenndra landamæra Rússlands
Stjórnmálaöfl í Úkraínu hliðholl Rússum fengu samþykkt lög, árið 2012, sem í orði kveðnu var ætlað að vernda minnihlutatungumál – en þegar verið var að afla stuðnings við löggjöfina kom samt berlega í ljós að áherslan var lögð á „verndun rússneskrar tungu“. Tungumálin urðu að erfiðu pólitísku vandamáli fyrst og fremst vegna þess að Rússland Pútíns gerði meinta „verndun rússneskrar tungu og þeirra sem hana tala“ að vopni sínu í stjórnmálabaráttunni. Með því að halda á lofti hugtakinu „hinn rússneski heimur“, og vinna að því að þróa og efla hollustu við Kreml meðal rússneskumælandi íbúa nálægra landa, var Rússland í reynd að freista þess að búa til rússneskumælandi „þjóð“ sem næði út fyrir landamæri Rússlands eins og þau eru viðurkennd alþjóðlega. Með því að halda því fram að ekki væri fullt samræmi milli annars vegar rússneskrar þjóðar og hins vegar Rússlands í pólitískum skilningi kynti Pútín undir þjóðernismetingi og tilgangurinn var að blása nýju lífi í hugmyndina um slíkt samræmi.
Pútín virðist leggja það að jöfnu að vera rússneskumælandi og að vera Rússi, hollur Kreml. Hins vegar er ekki til neitt sem heitir rússneskumælandi díaspora með sameiginlega sjálfsmynd. Þótt til séu einstaklingar utan Rússlands sem tala aðallega rússnesku er rangt að tala um þá sem einn samstæðan hóp, hvað þá að ganga út frá því að þeir líti á Rússland sem heimaland sitt. Kannanir sem gerðar voru á öðrum áratug þessarar aldar sýndu að hjá þeim sem dagsdaglega tala mestmegnis rússnesku skipti tungumálasjálfsmyndin miklu minna máli en sjálfsmynd þeirra sem borgara í samfélaginu.
Í ljósi andúkraínskrar orðræðu í rússneskum fjölmiðlum ákváðu úkraínsk stjórnvöld að hverfa frá þeirri stefnu að hafa tiltölulega lítil afskipti af tungumálunum. Árið 2018 samþykkti þingið lög sem krefjast þess að úkraínska sé notuð á flestum sviðum hins opinbera lífs. Lögin skylda embættismenn og aðra í opinbera geiranum til að kunna úkraínsku og nota hana í samskiptum við fólk. Úkraínska varð að skyldufagi í skólum.
Sjálfsmyndir, málhegðun og fordómar á stríðstímum
Enda þótt hernaðarárás Rússa árið 2014 hafi styrkt úkraínska sjálfsmynd leiddi hún ekki endilega til breytinga á málhegðun. Margir íbúar notuðu bæði úkraínsku og rússnesku í daglegu lífi, að ógleymdum þeim sem tala blandað málafbrigði (það kallast súrzjyk). En innrásin 2022 breytti stöðunni: Bein tengsl milli tungumáls og þjóðerniskenndar styrkjast á kostnað blandaðra sjálfsmynda. Úkraínsk sjálfsmynd eflist stöðugt meðal rússneskumælandi einstaklinga. Þrátt fyrir þessar breytingar verða stundum árekstrar þar sem úkraínskumælandi íbúar í borgum fjarri víglínunni eiga það til að áfellast fólk sem talar rússnesku og hefur lifað af sprengjuárásir, og saka það um skort á föðurlandsást. Svo virðist sem tungumálsfordómarnir hafi snúist við.
Sumir taka meðvitaða ákvörðun um að nota eingöngu úkraínsku. Þeim finnst það að hafna rússneskunni vera ákveðin leið til að koma sér upp skýrri sjálfsmynd þar sem ekki gætir mótsagna eða togstreitu. Hinir betur menntuðu, með mikið félagslegt auðmagn, fara þó gjarna hægar í sakirnar hvað þessi umskipti varðar. En hina rússneskumælandi borgara, sem halda fullri tryggð við Úkraínu sem ríki en eiga erfitt með að tileinka sér nýtt mál (eða ákveða beinlínis að halda sig við móðurmál sitt, rússneskuna), skortir hins vegar góða fulltrúa sem geti verið málsvarar þessara sjónarmiða án þess að misnota þau í pólitískum tilgangi.
Að lokum
Hefði Rússland ekki misnotað rússneska tungu í þágu útþenslustefnu sinnar og notfært sér að íbúarnir eru að hluta til rússneskumælandi, til að réttlæta pólitísk og síðar hernaðarleg yfirráð, væri spurningin um mismunandi tungumál væntanlega miklu minna vandamál.
Þýðing úr ensku



