Morðálfur að norðan 


Eftir að morðálfurinn Hákon jarl hafði varið Danavirki fékk Danakonungur honum presta til að kristna Noreg –⁠ en Hákon vildi halda í heiðnina og sendi prestana aftur í land.

Hvað er eiginlega morðálfur og hvernig er það orð hugsað? Til að komast að því þurfum við að ferðast aftur til víkingaaldar. 

Orrusta við Danavirki 

Árið 974 áttu Danir í átökum við Þjóðverja. Samkvæmt þýskum heimildum höfðu Danir látið ófriðlega og herjað á þýsk lönd. Ottó Þýskalandskeisari hélt þá norður til að skakka leikinn. Danir bjuggust til varnar við þá skurði sína og víggarða sem á norrænu nefnast Danavirki. Samkvæmt annálariti Thietmars af Merseburg hafði virki þetta hlið sem hann nefnir Wieglesdor. Samsvarandi norrænt nafn er ekki varðveitt en kann að hafa verið *Vígliðsdyrr. Thietmar segir að keisarinn þýski hafi verið sigursæll í þessari herför. 

Norrænar heimildir segja einnig frá orrustu við Danavirki sem talin hefur verið hin sama. Samkvæmt Heimskringlu kvaddi Haraldur Gormsson Danakonungur til sín liðsauka frá Noregi til að verjast hinni þýsku innrás. Fyrir norska liðinu fór Hákon Sigurðarson Hlaðajarl. Svo vel vill til að hirðskáld Hákonar, Einar skálaglamm, orti um þessa herför og varðveittar eru nokkrar vísur um hana í drápunni Velleklu. Ein þeirra er svona: 

Ok við frost at freista

fémildr konungr vildi

myrk- Hlóðynjar -markar

morðalfs, þess es kom norðan,

þás valserkjar virki

veðrhirði bað stirðan

fyr hlym-Njǫrðum hurðar

Hagbarða gramr varða.

Endursegja má efni vísunnar á þessa leið: 

Og þegar frysti vildi hinn örláti konungur Jótlands reyna bardagamanninn er kom að norðan þá er konungurinn bað hann að verja virkið fyrir hermönnunum. 

Samkvæmt næstu vísum í Velleklu áttu Norðmenn orrustu við Danavirki og tókst að verja garðinn. Það rímar nú ekki vel við þær heimildir sem segja Þjóðverja sigursæla en í mannkynssögunni er svo sem enginn skortur á dæmum um bardaga þar sem báðir aðilar lýsa yfir sigri. Nærtækt er líka að hugsa sér að norrænir menn hafi farið halloka í stríðinu en verið sigursælir í einhverjum tilteknum viðureignum og haldið því á lofti. 

Morðálfur 

Erindi þessa pistils er að líta á orðið morðálfur sem kemur fyrir í vísunni að ofan. Í eyrum Íslendinga nútímans hefur orð þetta skoplegan blæ. Íslenska hirðskáldið Einar hefur þó alveg áreiðanlega ekki ætlað að gera grín að vinnuveitanda sínum Hákoni jarli þegar hann kallaði hann morðálf. Fyrir Einari hefur þetta orð fallið fullkomlega inn í hina harðsoðnu hernaðarhugmyndafræði sem skáld víkingaaldar aðhylltust og þá heiðnu hugsjón sem Vellekla endurspeglar. 

Orðið morð og skyld orð í germönskum málum merkja venjulega „óleyfilegt manndráp“ af einhverju tagi – í forníslenskum rétti launvíg eða víg sem ekki hefur verið gengist við með þeim hætti sem lög gerðu ráð fyrir. Orðið á sér hins vegar einnig ættingja í latneska orðinu mors sem merkir „dauði“. Það er meðal vísbendinga um að orðið hafi upphaflega haft nokkuð almenna merkingu. Víst er að morð er ekki neikvætt orð í dróttkvæðum heldur virðist það hafa svipaða merkingu og víg eða orrusta

Í heiðnum heimildum hefur orðið álfur ekki heldur neinn neikvæðan eða skoplegan blæ. Álfar eru heilagar og guðlegar verur og iðulega eru „æsir og álfar“ nefndir saman. Kenningin morðálfur er hliðstæð við kenninguna hildar ás sem kemur fyrir í Bandadrápu um Eirík jarl, son Hákonar jarls. 

Hefðbundið er að endursegja kenningar af þessu tagi með orðum eins og „bardagamaður“ og það hef ég gert hér að ofan. En víst er að fyrir heiðnu skáldunum hefur hin heilaga tenging orðanna ás og álfur verið merkingarþrungin. Í Velleklu kemur fram að Hákon jarl berst að mun banda, það er að segja samkvæmt vilja goðanna, og að þeim stýra goð – goðin stjórna eða leiðbeina honum.

Annað heiðið kvæði, Gráfeldardrápa, hefur líka orðalagið þeim stýrðu goð en segir jafnframt að sjálfur sigtýr var í höfðingjanum og skýrendur hafa skilið þetta svo að sigtýr sé Óðinn. Kenningar eins og morðálfur og hildar ás verða að skoðast í þessu samhengi. Goðin stýra höfðingjanum, Óðinn er í höfðingjanum og höfðinginn er sjálfur af guðlegum toga. Því er allt eins hægt að túlka orðið morðálfur þannig að það merki „vígaguð“. 

Eftir kristnitöku kemur að því að álfar glata heilögum tengslum sínum og orðið álfur verður brúklegt í skopi og háði. Í Njáls sögu segir Skarphéðinn „Sjáið ér rauðálfinn?“ og er því greinilega ekki ætlað að vera hrós. 

Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu er fjallað um kenningar og þar er þessi athyglisverða klausa: 

Mann er og rétt að kenna til allra ásaheita. Kennt er og við jötnaheiti og er það flest háð eða lastmæli. Vel þykir kennt til álfa. 

Hér er útskýrt að í hinu hefðbundna skáldamáli sé það meint sem hrós en ekki háð að kenna til álfa. Þetta hefur væntanlega ekki verið augljóst á 13. öld og ástæða til að taka það fram. Lesendur Snorra þurftu að vita að morðálfur Einars skálaglamms væri ekki eins og rauðálfur Skarphéðins. 

Heimildir 

Brennu-Njáls saga. 1954. Útg. Einar Ól Sveinsson. Íslenzk fornrit XII. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík. Sjá bls. 115. 

Edda Snorra Sturlusonar. 1988. Útg. Heimir Pálsson. Mál og menning, Reykjavík. Sjá bls. 88 og 126. 

Heimskringla I. 1941. Útg. Bjarni Aðalbjarnarson. Íslenzk fornrit XXVI. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík. Sjá bls. 210, 242, 256–257 og 340. 

Ottonian Germany. The Chronicon of Thietmar of Merseburg. 2001. Þýð. David A. Warner. Manchester University Press, Manchester. Sjá bls. 131. 

Mynd

Christian Krohg 

Höfundur

Haukur Þorgeirsson er rannsóknarprófessor á menningarsviði Árnastofnunar. Hann fæst m.a. við fornan kveðskap.

Scroll to Top