My amma was Icelandic – um listina að krydda ensku með íslensku 


Íslenskir vesturfarar sem fluttust til Nýja Íslands í kringum þarsíðustu aldamót mynduðu lengi eigið málsamfélag þar sem þeir gátu talað íslensku í sínu daglega lífi. Foreldrar töluðu íslensku við börnin sín, skólastarfið fór fram á íslensku, gefin voru út íslensk blöð og tímarit og íslenska var notuð sem almennt samskiptamál við veiðar á Winnipeg-vatni og í búðum. Eftir því sem árin liðu jókst hlutfall fólks af öðrum uppruna, auk þess sem það færðist í aukana að foreldrar hættu að tala íslensku við börnin sín. Sérstaklega á þetta við um árin eftir seinna stríð þegar talið var mikilvægt að allir Kanadamenn sýndu samhug og legðu áherslu á sameiginlega, kanadíska menningu. Nú eru mjög fáir eftir vestra sem lærðu íslensku í æsku. En þótt yngri kynslóðir Vestur-Íslendinga, eins og þeir eru nefndir hér samkvæmt íslenskri málvenju, hafi ekki alist upp við íslenskt mál má samt segja að „gamla málið“ hafi sett mark sitt á menningu Manitóbafylkis. Þetta á við bæði í kringum Winnipeg-vatn sem og í borginni sjálfri.  

„My amma was Icelandic“ 

Þegar ég flutti til Winnipeg haustið 2004 var lítil fataverslun og saumastofa í hverfinu mínu. Verslunin hét Stúlka. Þegar ég rak augun í skiltið var forvitni mín að sjálfsögðu strax vakin. Ég fór því inn til að spyrja hvers vegna búðin héti þessu nafni. Eigandinn sagði þá strax á ensku, „my amma was Icelandic.“ Svo bætti hún því við að gamla konan hafði átt dúkku sem hún fékk stundum að leika sér með þegar hún var í heimsókn. Þessa dúkku kallaði amman stúlku. Búðareigandinn vildi því halda á lofti þessu orði sem þekkt var innan fjölskyldunnar og á þennan hátt heiðra minningu ömmu sinnar.  

Ég var nýflutt til Manitóba og það kom mér á óvart að heyra Kanadabúa nota orðið amma í ensku samhengi. Ég átti þó eftir að komast að því að þetta tiltekna orð er vel þekkt meðal Vestur-Íslendinga í Manitóba. Og það á ekki bara við um orðið amma. Þegar vel er að gáð nota enskumælandi afkomendur vesturfaranna töluvert af orðum sem rekja má til íslensku, jafnvel þótt þeir skilji enga íslensku að öðru leyti og hafi aldrei komið til Íslands. 

Að krydda talið með íslenskum orðum 

Á fundi Þjóðræknisfélagsins í Vesturheimi árið 1985 vakti prófessor Solli Sigurdson einmitt athygli á þessum sið en Solli er einnig þekktur fyrir gamansama söngva sína um íslensku arfleifðina vestra. Í ræðu sem hann hélt á fundi félagsins nefndi hann sex atriði sem huga þurfi að til að varðveita vesturíslenska menningu. 

  1. Orðin úr æsku: Amma, Afi, thakk feri, elskan, teppi, mjolk, kjissa, kovi, skammakrok og öll orðin yfir íslenskan mat. 
  2. Hátíðir
  3. Matur
  4. Sönglög
  5. Ljóð og sögur
  6. Sagan: byggðasöfn, kirkjur

Efst á blaði hjá Solli Sigurdsson eru það sem hann kallar á ensku „Selected Icelandic words that we used to use“. Í viðtali í Lögbergi-Heimskringlu hvetur hann svo félaga sína til að varðveita vesturíslenska menningu með því að krydda talmálið með íslenskum orðum, eða „pepper our talk with Icelandic words“, eins og hann orðar það á ensku. 

Hvaða orð nota ungir Vestur-Íslendingar? 

Ég ákvað að gera litla könnun á því hvort ungir Vestur-Íslendingar væru enn að nota orð sem rekja mætti til íslensku og sendi því tölvupóst til vina og kunningja í Manitóba. Ég bað þau um að senda mér lista yfir íslensk orð sem þau þekktu og töldu sig geta notað í samskiptum við aðra afkomendur vesturfaranna. Ég fékk svör frá fimm einstaklingum á aldrinum tuttugu og fimm til þrjátíu ára. Í töflu 1 er svörunum skipt niður í merkingarflokka. Athugið að ritháttur er kominn frá heimildarmönnum og miðast við algengan rithátt vestra. 

Merkingarflokkur Orð og frasar 
matur vinarterta, lifrapylsa, slatur, ponnukokur, ástarbolur, hardfiskur, rullupylsa, hangikjot, kleinur, skyr/sker, vatn, kaffi, misostur/mesa, tvibokur, brennevin 
gæluorð, fjölskyldutengsl my pabbi, my mamma, amma, afi/afa, langamma, langafi/langafa, frændi, frænka, nafni, vinur, greyið, elskuhjarta, elskan, elskan mín, lambið mitt 
félagslíf/hefðir tombola, kaffitimi/kaffitima, kaffisopa, tedroppur, glima, þorrablot, Islendingadagurinn, sang, lestrarfelag, fjallkona 
þjóðtrú huldafolk/huldufolk, huldukot, Mori, jólasveinur, Greila, Bukolla 
önnur nafnorð Vestur Islendingur, stúlka, fiskimaður, kisa/kísa, hestur, kúa, boli, hilling, blýantur, saga, ljóð, teppi, lopi, peysa, lopapeysa  
Upphrópanir, kveðjur og kurteisisorð já, nei, jæja, bless, velkominn, sittu hérna, viltu, þakka þér fyrir, gjörðu svo vel, komdu sæll, sæl, gledileg jol, godan daginn, daginn, goda nott, sofdu rott 
blótsyrði og skammaryrði helvítis, andskotans, tík, drullusokkur 
frasar og orðatiltæki það gengur allt á milli fimm og sjö, allt í lagi, hvað er klukkan?, gamla málið 

Tafla 1: Íslensk orð sem afkomendur vesturfaranna þekkja og nota. 

Á listanum er töluvert af matarorðum, gæluorðum, orðum sem lýsa fjölskyldutengslum og tengjast viðburðum og hefðum í samfélagi Íslendinga vestanhafs. Flest þessara orða eru kunnugleg úr nútímaíslensku þótt stafsetning hafi stundum aðlagast nýju umhverfi (t.d. ponnukokur ’pönnukökur’ og greila ’Grýla’). Þá má sjá glitta í flámæli sem algengt var Íslandi á þeim árum sem flestir vesturfarar fluttust yfir hafið (sjá t.d. mesa eða mysa). Frasinn það gengur allt á milli fimm og sjö er hins vegar nýrri af nálinni. Samkvæmt heimildarmanni voru þessi orð notuð sem svar við spurningunni „hvað segirðu gott“ og vísa til þess að á þessum tíma er happy hour í Gimli og víðar á Nýja Íslandi. 

Rannsókn á notkun íslenskra orða í Lögbergi-Heimskringlu 

Ég ákvað að fylgja fyrstu könnuninni eftir með rannsókn á notkun íslenskra orða í tímaritinu Lögberg-Heimskringla sem gefið er út í Winnipegborg. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvernig afkomendur Vestur-Íslendinga í Manitóba notuðu íslensk orð og frasa í ensku samhengi. Efniðviðurinn var frá árunum 1985, 2003 og 2011.  

Samtals var farið yfir 552 blaðsíður af prentuðu efni þar sem finna mátti 858 íslensk orð eða orðasambönd. Orðin koma fyrir í ýmiss konar samhengi, ekki síst í minningargreinum, viðburðartilkynningum og auglýsingum. Í eftirfarandi minningargrein má t.d. sjá orðin afi og lang-afi (mynd 1): 

Mynd 1: Minningargrein úr Lögbergi-Heimskringlu 2004. 

Í viðburðartilkynningum má oft sjá orð sem tengjast hefðum og viðburðum í Nýja-Íslandi. Í eftirfarandi tilkynningu er orðið kaffitími notað yfir óformlega fundi þar sem öllum áhugasömum gefst tækifæri til að spreyta sig á íslensku (mynd 2). 

Mynd 2: Viðburðartilkynning úr Lögbergi-Heimskringlu 2004. 

Í auglýsingum bregður fyrir ýmsum orðum úr íslensku, ekki síst orðum yfir íslenskar matvörur eins og sjá má í auglýsingu frá Tip Top Foods í Gimli (mynd 3). Athugið að í blaðinu hefur stafsetning verið færð til þess horfs sem tíðkast á Íslandi. 

Mynd 3: Auglýsing úr Lögbergi-Heimskringlu 2004. 

Orðin sem koma fyrir í Lögbergi-Heimskringlu skarast að miklu leyti við þau sem komu fram í fyrri könnuninni. Auk þess er þó einnig í blaðinu töluvert af orðum sem koma fyrir endrum og eins en eru ekki almennt þekkt meðal enskumælandi lesenda Lögbergs-Heimskringlu (þ.e. málvíxl). Oft tengjast þessi orð frásögnum frá Íslandi, t.d. ferðasögum. Þessum orðum fylgja iðulega þýðingar á ensku. Sem dæmi má nefna orð á borð við haustlitaferð og skammdegi. 

En hversu útbreidd eru þessi orð í Manitóba? Gróflega má skipta þeim í þrjá flokka: a) orðaforði sem varðveist hefur á heimilum eða innan ákveðinna fjölskyldna, b) orðaforði sem er almennt þekktur meðal afkomenda Vestur-Íslendinga, og c) almennur orðaforði sem nær út fyrir hópinn (mynd 4). 

Mynd 4: Útbreiðsla orðanna og notkunarmöguleikar. 

Breytingar á orðaforða 

Þótt mörg ofangreindra orða eigi sér óslitna sögu í vesturíslenskri menningu hafa aukin samskipti við Ísland, sérstaklega eftir hátíðarhöldin á Íslandi 1974 og 1975 vestra, leitt til ákveðinna breytinga. Kona á fertugsaldri sem alin var upp í Manitóba sendi mér til dæmis eftirfarandi athugasemd (þýðing höfundar): 

”Most Icelandic foods have retained their original names and I grew up hearing words like Amma,Afi, sæng, kísa, kúa, and elskan used in common language. The reconnection with postwar Iceland with tourism, flights, business and cultural initiatives has increased a lot of the words people use now and some of it comes across as strange for older speakers in Manitoba.”

„Íslensk ​​matarorð hafa haldist vel og ég ólst upp við að heyra orð eins og Amma, Afi, söng, kísa, kúa og elskan í daglegu tali. Aukin tengsl við Ísland eftir stríð – m.a. vegna bættra samgangna, viðskiptatengsla og menningarsamstarfs – hafa orðið til þess að fólk notar mun fleiri íslensk orð nú á dögum en það gerði í gamla daga. Sum þessara nýju íslensku orða hljóma undarlega í eyrum Vestur-Íslendinga af eldri kynslóðinni.“ 

Í ljósi þessa væri áhugavert að skoða muninn á gömlu orðunum sem varðveist hafa frá fyrri tímum og þeim sem hafa komið inn seinna. 

Tilfinningar gagnvart íslensku 

Eins og Daisy Neijmann bendir á í grein frá 2017 bera afkomendur Vesturfaranna oft sterkar tilfinningar til íslenskrar tungu. Fólk sem talaði íslensku við foreldra, afa og ömmur en skipti yfir í ensku þegar það hóf skólagöngu tengir íslensk orð við bernskuminningar. Lillian Vilborg McPherson lýsir þessum tilfinningum í ritstjórnargrein sem hún skrifaði í Lögberg-Heimskringlu

I was walking through the Bay downtown when I heard a child‘s voice call Amma. My heart melted on the spot and I went into a reverie about my own perfect grandparents.“ 

Ég var á gangi um Hudson Bay vöruhúsið niðri í bæ þegar ég heyrði barnsrödd kalla „amma“. Hjartað bráðnaði á staðnum og mér varð strax hugsað til afa og ömmu sem voru algjörlega fullkomin. 

Að lokum 

Eins og fram hefur komið hafa íslensk orð bæði táknrænt og tilfinningalegt gildi meðal Vestur-Íslendinga. Orðin eru notuð af afkomendum vesturfaranna sem eins konar merkimiði sem sýnir bakgrunn mælanda. Orðaforðinn er þekktur meðal þeirra sem hafa alist upp í vesturíslenskri menningu eða hafa lagt sig eftir því að kynnast henni. Hann hefur viðhaldist og breiðst út meðal annars í gegnum tímaritið Lögberg-Heimskringlu þar sem blaðamenn og auglýsendur nota íslensk orð sem eins konar tákn um sameiginlegan bakgrunn. Sambærileg málnotkun þekkist einnig meðal annarra þjóðarbrota í Norður-Ameríku, eins og til dæmis afkomendur sænsku- og finnskumælandi Finna sem Susanne Österlund-Pötzsch hefur fjallað um í bók sinni American Plus.  

Nú þegar fækkar í þeim hópi sem heyrðu íslensku í æsku verður áhugavert að sjá hvort dragi úr notkun þessara vesturíslensku orða eða hvort nýjar kynslóðir taki við og haldi máltengslunum á lofti. Hér má svo hlusta á Solli Sigurdsson syngja um sögu Nýja-Íslands, New Iceland Saga, þar sem hann kryddar textann með orðum á borð við harðfiskur, Íslendingadagurinn og sker.  

Heimildir 

Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason (ritst.). 2017. Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning. Reykjavík: Háskólaútgáfan. 

Helga Hilmisdóttir. 2009. My amma was Icelandic. Vínartertuenska í Manitóba. Sturlaðar sögur, bls. 50–53. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen. 

Lillian Vilborg. 2005. Harðfiskur & skyr. From the pages of Lögberg-Heimskringla. Winnipeg. 

Lögberg-Heimskringla

Neijman, Daisy. 2017. Mál til samskipta eða tengsla? Gildi íslenskunnar í Vesturheimi. Í Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning, bls. 279–302. Reykjavík: Háskólaútgáfan. 

Österlund-Pötzsch, Susanne. 2003. American Plus. Etnisk identitet hos finlandssvenska ättlingar i Nordamerika. Helsingfors: Svenska litteratursällskapet i Finland. 

Myndir

Ljósmyndari: Gord Mackintosh, Winnipeg Free Press. Notað með leyfi.  

Aðrar myndir eru skjáskot úr Lögbergi-Heimskringlu sótt á Tímarit.is. 

Höfundur

Helga Hilmisdóttir er sviðsstjóri íslenskusviðs. Hún var lektor í íslensku við Manitóbaháskóla 2004–2008. Greinin byggist á fyrirlestri sem fluttur var á ráðstefnunni The 11th International Conference of Nordic and General Linguistics í Freiburg 2012 og á málþingi í Eddu 3.október 2025.

Scroll to Top