Undanfarin ár hefur fjöldi innflytjenda og flóttafólks á Norðurlöndunum aukist af mörgum ástæðum. Þessar samfélagslegu breytingar hafa leitt til aukinnar meðvitundar og umræðu um málefni innflytjenda og flóttafólks og einnig til vaxandi athygli á kennslu norrænna tungumála sem annarra mála.
Myndin hér fyrir neðan er byggð á gögnum frá Norrænu ráðherranefndinni og sýnir vel hvernig hlutfall íbúa á Norðurlöndum sem fæddust erlendis hefur stöðugt verið að hækka undanfarna áratugi, nema í Grænlandi þar sem hlutfallið hefur lækkað.

Mynd 1: Íbúar Norðurlandanna fæddir erlendis (1990–2023).
Norðurlöndin hafa hvert fyrir sig þróað námskeið, kennsluefni og mótað stefnur um kennslu norrænna tungumála sem erlendra tungumála. Kennsluaðferðir og námsefni hafa verið með ýmsu móti og lengi vel skorti samræmi í nálgun og aðferðum á milli Norðurlandanna. Meðal annars hefur lengi skort skýrt yfirlit yfir stöðu menntunar, kennslu og samfélagslegs viðhorfs til norrænna tungumála sem annarra tungumála. Slíkt yfirlit er hins vegar mikilvægt skref í átt að því að skapa heildarsýn yfir hvernig þessi málaflokkur þróast á Norðurlöndum, auðvelda samanburð milli landa og styðja við stefnumótun, kennsluhætti og rannsóknir. Fræðafólk frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð tók þátt í rannsóknarverkefninu Norræn tungumál sem önnur mál (Nordic Languages as Second Languages) en rannsóknarnetið var stofnað árið 2024 og styrkt af Nordplus með það að markmiði að efla norrænt samstarf um stöðu norrænna tungumála á öllum skólastigum.
Einn afrakstur samstarfsnetsins er þvernorrænt yfirlit yfir menntastefnu og námsframboð í norrænum málum sem öðrum tungumálum, á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu, sem birt er á vefsíðu háskólans OsloMet–storbyuniversitetet. Færslur fyrir hvert land eru ekki tæmandi yfirlit, heldur gefa þær innsýn í helstu áherslur menntastefnu og framkvæmdar í kennslu norrænna tungumála sem annarra mála í hverju landi. Samanburður nýtist ekki einungis fræðafólki heldur einnig kennurum, stefnumótendum og almenningi sem vill skilja betur áskoranir og tækifæri sem felast í fjölmenningu og tungumálanámi á Norðurlöndunum.
Vefsíða verkefnisins: https://nafo.oslomet.no/om-nafo/hvem-samarbeider-vi-med/nordic-languages-as-second-languages/
Flokkun á vefsíðunni er eftir skólastigum og hægt er að leita innan hvers lands, eða þvert yfir löndin eftir áherslum.
Hér eru nokkrir lykilpunktar úr verkefninu sem birtast þegar lýsingarnar eru skoðaðar og greindar.
- Kennsla norrænna tungumála sem annarra tungumála er minnst formfest á leikskólastigi. Danmörk er eina landið sem krefst mats á tungumálakunnáttu hjá öllum þriggja ára börnum sem ekki sækja leikskóla. Auk þess eiga eins árs börn sem búa á tilteknum félagslega erfiðum svæðum og eru ekki skráð í leikskóla að sækja 25 klukkustundir á viku í leikskólanám sem styður málþroska þeirra, félagslega, persónulega og vitsmunalega þróun auk lýðræðislegrar þátttöku.
- Á grunnskólastigi er ábyrgðin á tungumálakennslu fyrst og fremst hjá sveitarfélögunum, sem veitir þeim mikið svigrúm en einnig mikla ábyrgð. Gæði og umfang þjónustu geta því verið mjög mismunandi milli sveitarfélaga.
- Yfirlitið sýnir einnig hvernig kerfin á Norðurlöndunum byggja hvert á öðru. Að sænskri fyrirmynd eru á Íslandi notuð stöðupróf fyrir nýkomna nemendur af erlendum uppruna til að kortleggja tungumálafærni þeirra, fyrri námsreynslu, stærðfræði og læsi. Notkun þeirra í grunnskólum er þó ekki skylda.
Innan samstarfsnetsins hefur verið rætt um næstu skref og möguleg framtíðarverkefni, meðal annars hugmyndir um að auka samstarfið við fleiri lönd á norðurslóðum. Sérhefti um kennslu Norðurlandamála sem annarra tungumála er í vinnslu.
Leitað er einnig leiða til að efla samstarf og bæta við sjónarhornum fleiri samfélaga, eins og t.d. Færeyja og Grænlands. Rannsóknir í litlum málsamfélögum hafa sýnt að innflytjendur og kennarar standa frammi fyrir auknum áskorunum, til dæmis vegna takmarkaðs framboðs á kennsluefni. Þátttaka þessara landa í umræðunni um framtíðarverkefni myndi stuðla að auknu gildi þeirra og gera það að verkum að hægt yrði að veita þeim löndum sérstakan stuðning sem búa við takmarkað námsefni og takmarkað framboð í kennslu tungumála sinna sem annarra mála.
Heimildir
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. (e.d.). Stöðumat fyrir erlenda nemendur. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Emilsson Peskova, R., Lindholm, A., Ahlholm, M., Vold, E. T., Gunnþórsdóttir, H., Slotte, A., & Esmann Busch, S. (2023). Second Language and Mother Tongue Education for Immigrant Children in Nordic Educational Policies: Search for a Common Nordic Dimension. Nordic Studies in Education, 43(2), 128–144.
Hoffmann, L., & Holm, A.-E. (2025). ‘Guardians of the language’: Language ideologies and migrants’ language learning experiences in Iceland and the Faroe Islands. Journal of Multilingual and Multicultural Development.
NAFO. (2025, 10. september). Nordic languages as second languages. OsloMet.
Nordregio. (2024). The Nordic geography of diversity. State of the Nordic Region 2024.
Warren, A. R., Iversen, J. Y., & Straszer, B. (2025). Setting the scene: Teacher education for linguistically diverse classrooms in the Nordic region. Í A. R. Warren, J. Y. Iversen, & B. Straszer (ritstj.), Teacher education for working in linguistically diverse classrooms: Nordic perspectives (bls. 1–30). Language Science Press.


