Bil lenda á milli stafs og hurðar í umfjöllun um stafsetningu. Ákveðnar reglur og hefðir eru þó um notkun þeirra og þau hafa skýrt hlutverk. Bil flokkast ekki með greinarmerkjum en eins og þau gera þau texta greinilegri en bera ekki sjálf merkingu. Þau veita andrými og aðgreina orð, eru ósýnileg en taka samt pláss, auðvelda lestur og koma í veg fyrir belgsogbiðuritun!
Bil eru tvenns konar: orðabil og línubil. Í yfirlitinu hér á eftir fjalla ég aðallega um orðabil. Það eru lárétt auð bil á milli stafa, tákna eða orða. Línubil er eins og felst í orðinu lóðrétt bil á milli lína í texta.

Síða úr billausu latnesku handriti, Vergilius Augusteus, frá 4. öld e.Kr. Wikimedia.
Stundum hafa bilahefðir breyst. Það á til að mynda við um skammstafanir. Um miðja síðustu öld var ritað t. a. m. en nú t.a.m. án bils. Sífellt verður einnig algengara í ritun að sundurrita einstaka orðhluta samsettra orða og er hugsanlegt að það muni á endanum hafa áhrif á opinbera ritun. Dæmi um þetta eru rithættir eins og afsláttar kóði, jóla dress og Bónus deildin. Þarna hefur ensk stafsetning haft áhrif. Kristín Ólafsdóttir fjallaði um þetta 2018 í BA-ritgerð sinni.
Hér á eftir tilgreini ég helstu reglur og hefðir um notkun bila og vísa í opinberar ritreglur þar sem það á við. Í sumum tilvikum eru óskráðar hefðir eða jafnvel engin skýr venja og þar hef ég reynt að setja fram viðmiðunarreglur.
Orðabil
Orðabil nefnast einnig stafabil, biltákn, eyða og orðaskil. Eins og áður er nefnt eru engar sjálfstæðar reglur um notkun þeirra en víða vikið að þeim í framhjáhlaupi í ritreglum, til dæmis í tengslum við reglur um punkta og skammstafanir eins og fjallað verður um hér á eftir. Bil eru svo vitaskuld einnig mikilvægur þáttur í reglum um það hvort á að rita eitt orð eða fleiri. Fínni tilbrigði í notkun bila falla þó frekar undir svokallaða týpógrafíu eða prentlag en ritreglur. Það á við um ólíkar orðabilastærðir eða venjur um heppilegt línubil í texta.
Mislöng bil
Í hefðbundnum forritum er almennt aðeins notuð ein tegund orðabils sem kölluð er fram með því að ýta á bilstöng hnappaborðs. Slíkt grunnbil er aðeins mismunandi eftir letri og jöfnun texta. Í hefðbundnu prenti og umbroti hafa hins vegar verið notaðar fleiri ólíkar gerðir bila, til dæmis heilbil (e. em space), hálfbil (e. en space), þriðjungsbil (e. 1/3-em space, M/3), fjórðungsbil (e. 1/4-space, M/4), mjóbil (e. thin space) og hársbil (e. hair space). Sjá má myndir af ólíkum bilum í Íslenskum táknaheitum og í Íslenskri réttritun.

Ólíkar bilastærðir. Úr kafla 12.20 í Íslenskri réttritun.
Bil og greinarmerki
Orðabil koma víða fyrir í greinarmerkjasetningu.
Á eftir punkti í lok málsgreinar er einfalt bil en ekki tvöfalt. Áður fyrr, sérstaklega þegar ritvélar voru enn notaðar, var algengt að hafa tvöfalt bil („tvöfalda ritvélarbilið“) en ekki er mælt með því lengur.
Ekkert bil er á eftir punktum sem greina að mánaðardag, mánuð og ár í dagsetningu, til dæmis 12.1.2024.
Almennt er hvorki haft bil á undan né eftir skástriki, til dæmis og/eða. Undantekning frá þessu er ef öðru hvoru megin við skástrik er fleiri en eitt orð en þá eru höfð bil báðu megin við það, til dæmis Chicago / New York.
Hvorki er bil á undan né eftir bandstrikum og tilstrikum en hins vegar á undan og eftir þankastrikum (—) og stuttum þankastrikum (–).
Bil er á milli sviga sem standa saman, til dæmis (50) (60).
Ekki er bil á milli tvöfaldra tvöfaldra tilvitnunarmerkja í tilvitnun inni í annarri í lok setningar, til dæmis Ásgeir mælti: „Afi sagði við mig: „Hertu þig nú.““ Vel fer á því að hafa hársbil á milli tveggja samstæðra tvöfaldra gæsalappa en það hefur ekki tíðkast hér á landi.
Ef tvípunktur er notaður sem greinarmerki í setningu er bil haft á eftir honum. Ef hann er hins vegar notaður til að tákna tíma, úrslit, hlutföll eða í öðrum tilgangi sem aðgreiningarmerki með tölum er ekki bil.
Á undan úrfellingarpunktum er bil ef heilt orð er næst fyrir framan þá. Ef felldur er niður hluti orðs er hins vegar ekkert bil á undan þeim, til dæmis helv… Ekki er bil á eftir úrfellingarpunktum ef önnur greinarmerki fara á eftir þeim, til dæmis Er hann nokkuð …?
Bil og tákn
Ekki er bil á milli tölu og prósentumerkis (%), prómillumerkis (þúsundarhlutarmerkis) (‰), bogamínútu ('), bogasekúndu (") eða gráðu (°). Sums staðar, til dæmis í ensku og sænsku, tíðkast að hafa bil á milli tölu og prósentumerkis eins og á milli talna og alþjóðlegra mælieiningatákna, til dæmis 15 m. Hefð er hins vegar fyrir því í íslensku að hafa ekki bil á eftir prósentu- og prómillumerkjum. Athugið að gráðumerkið stendur með hitakvarðamerki en ekki tölu (°C, °F).
Bil er á eftir kaflamerkjum (§), efnisgreinarmerkjum/greinaskilamerkjum (¶), doppum/bólum (•) en hvorki tvíkrossi (#) né stjörnu (*).
Bil er á milli tölu og eftirfarandi bókstafs í götuheitum og kafla- og greinanúmerum, til dæmis Útíbalagata 17 A. Ekki fer vel á því að tölustafir og bókstafir fari saman án bils.
Bil er á undan og eftir stærðfræðitáknum ef þau eiga bæði við tölur, orð eða tákn á undan og eftir en ekki ef táknið á eingöngu við undanfarandi eða eftirfarandi tölu, orð eða tákn.
Skýrleikabil?
Hefð er fyrir því í íslensku að setja punkt framan við þriðja hvern tölustaf til að auðvelda lestur hárra talna (til dæmis 500.000). Minnst er á þetta í opinberum ritreglum og Handbók um íslensku.
Ekki hefur verið almenn venja hér á landi að nota bil til að auðvelda lestur hárra talna (til dæmis 500 000), kennitalna, reikningsnúmera og símanúmera eins og víða er gert, til dæmis í ensku og sænsku, en þó mætti vel hugsa sér að taka upp þann sið. Allalgengt hefur verið að nota bandstrik til skýrleika í kennitölum, reiknings- og símanúmerum (kt. 010102-2277, s. 563-6244) en hugsanlega væri betra að nota frekar skýrleikabil.
Bil og skammstafanir
Áður fyrr tíðkaðist að hafa bil á eftir hverjum punkti í fleiryrtum skammstöfunum: a. m. k., o. s. frv., t. d. Á síðustu áratugum hefur sú hefð hins vegar látið undan síga. Slíkar skammstafanir eru heild í huga fólks og eðlilegt að láta alla liði þeirra standa saman án bila og þannig er það í núverandi greinarmerkjareglum. Þar er þó kveðið á um að á milli tveggja skammstafana sem hvor um sig er sjálfstæð eining sé bil, til dæmis o.s.frv. o.s.frv.
Skammstöfuð nöfn
Óljós ritvenja hefur verið í íslensku um það hvort bil er haft á milli tveggja skammstafaðra nafna en þó er líklega oftast haft bil.
Jóhannes L.L. Jóhannsson / Jóhannes L. L. Jóhannsson
Ekki er fjallað um þetta í ritreglum en mörgum þykir fara vel á að hafa ekkert bil eða hársbil.
W. B. Yeats (venjulegt orðabil)
W. B. Yeats (hársbil)
W.B. Yeats (ekkert bil)
Bundin stafbil
Bundið stafbil eða fastabil (e. no break (required) space, non-breaking space, hard space) er bil sem hindrar línuskiptingu. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir að skipt sé um línu á milli stafa, orðhluta eða orða sem má ekki kljúfa í sundur eða æskilegt er að standi saman. Lítið hefur verið fjallað um þetta í íslenskum reglum um orðskiptingu. Í Íslenskri réttritun er gerð tilraun til að setja reglur til viðmiðunar um þetta og mælt með því að skipta ekki á milli lína tölum og skammstöfunum í metrakerfinu, frumheitum, ýmsum öðrum mælieiningum og styttri gjaldmiðlaheitum, til dæmis 100 cm.
Skáletrun bila?
Meginregla um auðkenningu og áherslumerkingu texta er að greinarmerki fylgja aðaltexta um skáletrun eða feitletrun, til dæmis Hann las Brekkukotsannál, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna. (Komma og punktur ekki skáletruð.). Af þessu leiðir að bil á undan og eftir skáletruðum orðum eða táknum eru ekki skáletruð nema þau séu hluti af lengri áherslumerktum texta.
Hann las Brekkukotsannál, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna. (Bil á undan og eftir og skáletruð.)
Hann las Brekkukotsannál, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna. (Bil á undan og eftir og ekki skáletruð. Það sem mælt er með!)
Reikulritun
Sumt í sambandi við orðabilun texta eða bilahefðir er einnig á reiki. Það á til að mynda við um það hvort bil er haft á milli tölu og eftirfarandi bókstafs í götuheitum, kafla- og greinanúmerum o.s.frv.? Útíbalagata 17 A eða Útíbalagata 17A? Reikulritun er einnig um það hvort bil er haft á milli skammstafaðra nafna eins og nefnt var að framan, til dæmis Jón L. L. eða Jón L.L.
Línubil
Grunnmerking orðsins línubil er bil á milli tveggja lína. Stærð þess fer eftir stærð leturs og leturtegund og er oft mæld í punktum.
Línubil geta einnig stundum þjónað hlutverki greinarmerkis eins og í undirskriftum.
Ein helsta bilabreyting síðustu áratuga er notkun auðrar línu í stað inndráttar til að auðkenna nýja efnisgrein. Þessi aðferð hefur sérstaklega tíðkast í veftextum eða í tölvuskeytum. Það skýrist meðal annars af því að erfiðara er að stýra inndrætti á vef en prenti. Sífellt algengara er einnig orðið að afmarka efnisgreinar með auðum línum í prentuðu efni en brýtur gegn hefð þar.
Samantekt
Reglur um notkun bila gætu við fyrstu sýn virst fánýtar eða óþarfar. Bil gera þó texta læsilegri og skýrari. Ég hef reynt að nefna það helsta sem tengist reglum og venjum um notkun þeirra en þó eru líklega ekki öll kurl komin til grafar.
Bilareglur og -viðmið hafa stundum breyst. Áður var haft bil á milli skammstafaðra orða en nú almennt ekki og einnig tvöfalt bil á eftir lokapunkti setningar („tvöfalda ritvélarbilið“) á ritvélaskeiði síðustu aldar en nú eingöngu eitt. Bilareglur og -hefðir eru því ekki klappaðar í stein heldur breytast með tímanum á sama hátt og stafsetningar- og greinarmerkjareglur.
Heimildir
Bringhurst, Robert. 1996. The Elements of Typographic Style. USA / Canada: Hartley & Marks.
Handbók um íslensku. 2011. Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.). Reykjavík: JPV útgáfa.
Hochuli, Jost. 2022. Fínir drættir leturfræðinnar. Birna Geirfinnsdóttir, Gunnar Þór Vilhjálmsson og Marteinn Sindri Jónsson (þýð.). Angústúra: Reykjavík.
Íðorðabankinn. Árnastofnun. https://idord.arnastofnun.is/.
Íslensk táknaheiti. 2003. Smárit Íslenskrar málnefndar 2. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Íslensk málnefnd.
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2020. Yfirlit yfir bil. Orð og tunga 22:101–110.
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021. Íslensk réttritun. 1. útg. Reykjavík. Einnig á Rafhlöðunni.
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2023. „Tólin taka völdin – sjálfvirkar leiðréttingar og óheppilegar stillingar “ Árnastofnun, 5. júní 2023. https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/tolin-taka-voldin-sjalfvirkar-leidrettingar-og-oheppilegar-stillingar.
Jóhannes B. Sigtryggsson. 2025. Ósýnileg greinarmerki? Erindi haldið á Safnanótt í Eddu 7. febrúar 2025.
Kristín Ólafsdóttir. 2018. Sítrónu Sódavatn að Blekkingar Vori: Um ensk áhrif á íslenskar ritunarreglur um eitt orð og tvö, lítinn og stóran staf. BA-ritgerð við Háskóla Íslands.
Tschichold, Jan. 1991. Consistent Correlation Between Book Page and Type Area. Hajo Hadeler (þýð.). Í: The Form of the Book. Essays on the Morality of good Design, bls. 36–64. Hartley & Marks. [Upprunalegur titill: Ausgewählte Aufsätze über Fragen der Gestalt des Buches und der Typographie. 1975.]
Wikimedia. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Vergilius_Augusteus,_Georgica_141.jpg.