Að vanda hefur Árnastofnun valið orð ársins á grundvelli gagna sem stofnunin safnar um málnotkun árið um kring. Undanfarin ár hafa þau orð sem valin hafa verið sem orð ársins tengst stórum málum eins og COVID, innrás Rússa í Úkraínu, eldsumbrotum á Reykjanesskaga og uppgangi gervigreindar. Í ár var ekkert eitt orð sem stóð upp úr þegar litið var bæði til tölfræðinnar og þess sem einkum hefur einkennt árið. Útlendingamál voru mikið í umræðunni og tengjast fjögur orð af þeim tíu sem tilnefnd voru að þessu sinni þeim málaflokki: inngilding, búsetuúrræði, móttökuskóli og fjölskyldusameining. Heilsan fékk einnig sitt rúm í þjóðfélagsumræðunni og var bæði rætt um fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og að borða ekki gjörunnin matvæli, og meðferðarúrræði eins og þyngdarstjórnunarlyf. Orð ársins tengist hins vegar eldsumbrotunum á Reykjanesskaga. Á liðnu ári gaus sex sinnum á Reykjanesi og var mikil vinna lögð í að vernda innviði á svæðinu. Meðal annars var rykið dustað af fjörutíu ára gamalli séríslenskri aðferð til að hægja á eða stöðva hraunflæðið með hraunkælingu - en hraunkæling er orð ársins 2024.
Hér að neðan er sagt frá þeim tíu orðum sem komu til greina sem orð ársins en nánar er fjallað um hvernig orð ársins er valið í pistlinum Orð ársins - hingað til hér á Mannamáli.is.
Hraunkæling (no. kvk.)
Seinustu ár hafa einkennst af eldsumbrotum á Reykjanesskaga sem hófust með gosi í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars 2021. Orð af meiði eldfjallafræða voru plássfrek þetta fyrsta ár en þá voru orðin óróapúls, gosmóða og kvikugangur tilnefnd sem orð ársins hjá Árnastofnun. Næstu tvö ár héldu eldsumbrot áfram án þess að ný eða gömul orð vektu mikla athygli. Á liðnu ári færðist hins vegar fjör í leikinn, alls sex eldgos á einu ári. Ýmis orð gerðu sig gildandi, eins og varnargarður, sprunguhreyfingar og kvikusöfnunarsvæði en mest bar þó á orðinu hraunkæling. Um sumarið 2024 var byrjað að beita hraunkælingu þegar óvíst var um að varnargarðarnir einir myndu duga en hraunkæling er alíslensk uppfinning sem virkaði vel í gosinu á Heimaey árið 1973. Strax árið 2023 var byrjað að viðra þá hugmynd að nota hraunkælingu til að bjarga innviðum á Reykjanesskaga og kemur orðið 161 sinnum fyrir í gögnum Risamálheildar það árið. Á fyrstu tíu mánuðum þess árs kemur það hins vegar 1.530 sinnum fyrir. Orðið vakti einnig sérstaka athygli í nýja starfsheitinu hraunkælingarstjóri, sem Helgi Hjörleifsson ber, alltént um sinn.
Inngilding (no. kvk.)
Hugtakið inngilding kemur fyrst fyrir árið 2018 í gögnum Risamálheildarinnar og kemur rúmlega 40 sinnum fyrir fyrstu fjögur árin. Vægi þess eykst hins vegar töluvert árið 2022 og rýkur svo upp á liðnu ári. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skilgreint sem „stefna eða aðgerð sem stuðlar að því að allir fái notið sín, óháð uppruna, kyni, fötlun og fleiri þáttum“.
Orðið var búið til af Berglindi Rós Magnúsdóttur, prófessor á menntavísindasviði, til að fjalla um það sem á ensku hefur verið kallað ‘inclusive education’ og hefur löngum verið þýtt sem skóli/menntun án aðgreiningar. Ef marka má gögn Risamálheildarinnar var orðið fljótt einnig notað í umræðu um inngildingu jaðarhópa í listum, kynseginleika og kynjað tungumál. Seinustu þrjú ár hefur orðið hins vegar fengið aukið vægi í umræðunni um fólk af erlendum uppruna, hvort sem verið er að ræða um inngildingu þess í skóla, vinnumarkað, listir eða í samfélagið almennt.
Þyngdarstjórnunarlyf (no. hk.)
Árið 1984 birtist lítil frétt í hinu skammlífa dagblaði NT sem bar fyrirsögnina „Er offitulyf væntanlegt?“. Þar er greint frá því að bandarískir vísindamenn hefðu sprautað í mýs tveimur efnum sem svipa til kynhormóna með þeim afleiðingum að mýsnar léttust án nokkurra sjáanlegra aukaverkana. Auk þess komu efnin í veg fyrir sykursýki.
Nú, fjörutíu árum seinna, er draumur músanna orðinn okkar – við getum sprautað í okkur efni sem líkir eftir hormóni sem sendir þau skilaboð til heilans að við séum södd. Það veldur því að við borðum minna án þess þó að líkaminn bregðist við og virki árþúsundagamalt varnarkerfi líkamans sem spornar við þyngdartapi.
Þessi lyf voru mikið rædd á liðnu ári og var til að byrja með oftar rætt um megrunarlyf. Síðasta ár hefur hins vegar notkun manna á hinu nýja orði þyngdarstjórnunarlyf margfaldast á meðan notkun á orðinu megrunarlyf stendur í stað. Sumir líta svo á að þyngdarstjórnunarlyf sé lítið meira en skrautyrði fyrir megrunarlyf eða offitulyf og að það sé í hag söluaðila að losa sig við neikvæð hugrenningatengsl sem orðin megrun og offita vekja. Aðrir vilja hins vegar meina að þyngdarstjórnun og megrun sé alls ekki einn og sami hluturinn.
Gjörunninn (lo.)
Lýsingarorðið gjörunninn hefur undanfarið ár verið áberandi í tengslum við umræðu um það sem við látum ofan í okkur. Gjörunnin matvæli eru matvæli sem hafa verið unnin þannig að þau líkjast lítið upprunalegum innihaldsefnum sínum sem oft eru æðimörg. Þegar matvæli hafa verið gjörunnin hafa innihaldsefnin yfirleitt verið möluð, maukuð eða mulin og efnum sem gera matvælin girnilegri, gefa þeim skemmtilega áferð, gott bragð og aukinn líftíma bætt saman við áður en grauturinn er mótaður upp á nýtt í eitthvað ómótstæðilega girnilegt. Sá böggull fylgir þó skammrifi að af þessum matvælum geta menn fengið alls konar kvilla: háan blóðþrýsting, offitu, sykursýki, krabbamein, þunglyndi og þrengingu æða – og líftími þess sem nýtur skerðist!
Umræðan um gjörunnin matvæli var áberandi strax í janúar eftir að fjallað hafði verið um þau á læknadögum og í kjölfarið í fjölmiðlum. Merkingu orðsins í þessu samhengi var bætt við Íslenska nútímamálsorðabók í lok maí en þá hafði umræða um þessa gerð matvæla skotið ítrekað upp kollinum. Hún fór kannski aldrei ýkja hátt, en víða.
Lengi hefur verið talað um unnin matvæli og þau ekki alltaf þótt það fínasta. Gjörunnin matvæli eru hins vegar íslenskun á ‘ultra-processed’, sem mörgum þykir enn ófínna en unnin matvæli. Í stað þess að búa til nýtt orð á borð við ofurunninn, sem fáein dæmi finnast um að hafi fyrst verið notað um þessa gerð matvæla, hefur eldra orð náð fótfestu í þessu samhengi og því gefin aukin merking. Orðið gjörunninn á sér nokkuð langa sögu og merkingin er gagnsæ: einhver er sigraður með afgerandi hætti eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið hefur þó fyrst og fremst verið notað á tilteknu sviði, nefnilega í skák. Í langstærstum hluta þeirra dæma sem finnast um orðið í Risamálheildinni fyrir árið 2024 er verið að lýsa stöðu í tafli. Það sama má sjá á Tímarit.is, langstærstur hluti dæma er úr umfjöllun um skák, en þó finnst einnig slæðingur af dæmum þar sem fjallað er um aðrar íþróttir og dómsmál.
Fjölskyldusameining (no. kvk.)
Innflytjendamál hafa verið ofarlega á baugi allt þetta ár. Flóttamenn hafa komið hingað til lands frá stríðshrjáðum og hættulegum svæðum. Þeir sem fá dvalarleyfi hér á landi geta óskað eftir því að nákomnir fjölskyldumeðlimir fái einnig leyfi til að dveljast hér á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í fjölmiðlum hefur umræðan um þetta úrræði helst verið í tengslum við flóttamenn frá Palestínu. Snemma á árinu fóru þrjár konur til Egyptalands til að freista þess að finna fjölskyldumeðlimi Palestínumanna sem dveljast á Íslandi og höfðu fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í sumar var útlendingalögum breytt og forsætisráðherra sagði að með þeim væri brugðist við miklum þrýstingi um fjölskyldusameiningar. Þrátt fyrir að orðið hafi verið mest áberandi í umræðu um málefni flóttamanna og hælisleitenda var langstærstur hluti leyfa vegna fjölskyldusameiningar veittur öðrum innflytjendum. Á tímabilinu 2013-2023 voru aðeins um fimm prósent af veittum leyfum vegna fjölskyldusameiningar veitt hælisleitendum og fólki sem nýtur alþjóðlegrar verndar.
Móttökuskóli (no. kk.)
Móttökuskólar eru sérhæfðir í því að taka á móti börnum af erlendum uppruna sem eru að hefja nám á Íslandi. Í þeim er lögð áhersla á tungumálakennslu og aukna aðstoð til að reyna að tryggja að nemendurnir geti sinnt náminu. Sumir hafa talað um að þeir geti verið góð leið til inngildingar en með því er átt við að auðvelda börnunum að taka þátt í og verða hluti af íslensku samfélagi. Orðið móttökuskóli hafði sáralítið sést fyrr en á þessu ári en í haust voru þeir nokkuð áberandi í umræðunni. Meðal annars var talað um að nokkur munur væri á lesskilningi á milli nemenda án erlends bakgrunns og innflytjenda og að nemendur með erlendan bakgrunn upplifi síður að þeir tilheyri í skólanum. Þá var því líka velt upp hvort móttökuskólar falli að hugmyndum um skóla án aðgreiningar eða hvort betra væri að setja upp móttökudeildir í skólum sem þegar eru starfandi.
Brottfararúrræði (no. hk.)
Þegar umsóknum um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað eða umsækjendum vísað annað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er þeim gert að yfirgefa landið. Ef þeir fara ekki að þeim tilmælum grípa stjórnvöld til sinna ráða og fulltrúar frá Heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra fylgja fólkinu úr landi. Það vill þó henda að erfitt sé að hafa uppi á fólki þegar til brottfarar frá landinu á að koma. Til að tryggja að allir séu þá á vísum stað hefur fráfarandi dómsmálaráðherra talað fyrir því að komið verði upp brottfararúrræði, húsnæði sem fólk dvelur í frá brottvísun og að brottför. Gestir hafa ekki heimild til að yfirgefa úrræðið. Brottfararúrræði kemur í fyrsta skipti fyrir í Risamálheildinni á þessu ári en fjölmörg önnur úrræðisorð koma líka fyrir þar. Þau eiga það flest sameiginlegt að vera notuð yfir erfiðar lausnir á erfiðum málum. Algengustu úrræðin í málheildinni eru meðferðarúrræði og neyðarúrræði, sem við þekkjum flest, en næst á eftir koma búsetuúrræði, sem hafa einmitt talsvert verið í umræðunni í sambandi við útlendingamál. Búsetuúrræði og brottfararúrræði eru hvort tveggja orð yfir einhvers konar dvalarstaði, en búsetuúrræðin eru frábrugðin að því leyti að þau eru yfirleitt heimili þeirra sem þar dvelja til lengri eða skemmri tíma. Nýverið hefur reyndar verið talað um lokuð búsetuúrræði. Lokuð búsetuúrræði eru dvalarstaðir sem fólki er óheimilt að yfirgefa, en eru samkvæmt stjórnvöldum samt ekki fangelsi eða fangabúðir. Lagt hefur verið til að sett séu upp slík úrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar sem þeir geta dvalið þar til ákvarðað hefur verið í máli þeirra eða ef ákveðið hefur verið að þeir eigi að yfirgefa landið. Lokuð búsetuúrræði og brottfararúrræði eru þannig náskyld úrræði.
Skjáhætta (no. kvk.)
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að farsímanotkun við akstur sé einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa í heiminum. Í ár stóðu Samgöngustofa og tryggingafélagið Sjóvá fyrir herferðinni EKKI TAKA SKJÁHÆTTUNA sem miðaði að því að hvetja ökumenn til að setja snjalltæki á akstursstillingu.
Orðið skjáhætta er blendingur af orðunum skjár og áhætta. Þessi tegund orðmyndunar er ekki algeng í íslensku en dæmi um sambærilega orðmyndun er hrútskýring, myndað úr orðunum hrútur og útskýring. Það sem einkennir þessa orðmyndun er að hluti af orðinu eða orðunum sem sameinast er felldur brott: skjár+[á]hætta –> skjáhætta og hrút[ur]+[út]skýring.
Auglýsingastofa vann að herferðinni og nýtti óvenjulega orðmyndun sem leið til að vekja athygli. Annað dæmi um nýyrði sem birtist í auglýsingaherferð í ár er sögnin að rafræna sem notuð var í átaki gegn netsvindli: EKKI LÁTA RAFRÆNA ÞIG. Þó að orð eins og skjáhætta og að rafræna hafi verið áberandi á þessu ári er ekki víst að þau festi rætur í almennu máli utan auglýsingaherferða.
Tómthússkattur (no. kk.)
Elsta heimild um orðið tómthússkattur er frá 2019 í umræðu um jarðir í Þingeyjarsveit. Þá kom í ljós að engin búseta var á um tíundu hverri jörð og í sveitarstjórninni var rætt um að leggja sérstök fasteignagjöld á þær eignir. Orðið tómthússkattur vakti aftur athygli á þessu ári. Í húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, sem kynnt var fyrir Alþingiskosningarnar, var lagt til að heimila sveitarfélögum að leggja á svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir til að bregðast við húsnæðisvandanum. Tómthússkattur á að vera þýðing á ‘vacant home tax’ og felur í sér fasteignaskattsálag á búsetulausar fasteignir, svo sem AirBnB-íbúðir.
Ekki eru allir sáttir við orðið tómthússkattur og telja það misheppnaða þýðingu enda er orðið tómthús enn notað í sögulegu samhengi í merkingunni ‘bú án jarðar og skepna’. Orðin tómthús og tómthússkattur eru auk þess ekki mjög gagnsæ. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er tómthús talið hálfgildings tökuorð úr dönsku tomt (sbr. tóft) og hefur með tímanum tengst lýsingarorðinu tómur í málvitund fólks. Þetta er óheppilegt þar sem fasteignirnar sem skatturinn beinist að eru sjaldnast tómar í raun.
Vindorkuréttindi (no. hk. ft.)
Orðið vindorkuréttindi var áberandi í umræðunni en í ágústmánuði var undirritaður samningur milli íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur samningur er gerður en Búrfellslundur liggur innan þjóðlendu og gert er ráð fyrir að 28 vindmyllur rísi þar.
Vindmylluþyrping á afmörkuðu svæði er nýlunda hérlendis og hafa ýmis orð verið notuð um þetta fyrirbæri. Í matsskýrslu á umhverfisáhrifum Búrfellslundar notaði Landsvirkjun orðið vindlundur en það þótti ekki öllum heppilegt í þessu samhengi þar sem lundir tengjast trjágróðri en ekki raforkuframleiðslu. Þeir töldu orðið ekki vera lýsandi og fannst þeim eins og verið væri að fegra fyrirbærið með því að nota það. Í Raftækniorðasafninu er íslenska orðið vindorkuver notað fyrir enska heitið ‘wind power station’. Önnur íslensk orð sem hafa verið notuð eru vindorkubú, vindbú og vindorkugarður.