Orð ársins – hingað til


Árnastofnun hefur komið að vali á orði ársins síðan 2015. Fyrstu árin var það gert í samvinnu við RÚV og Mími – Félag stúdenta í íslenskum fræðum en árið 2018 skildu leiðir og Árnastofnun og RÚV völdu orð ársins hvort í sínu lagi. Til þess beita þau mismunandi aðferðum. Rúv hefur farið þá leið að leyfa lesendum Rúv.is að tilnefna tíu orð og kjósa á milli þeirra en Árnastofnun byggir val sitt á gögnum í Risamálheildinni sem gefa vísbendingar um breytta strauma í orðaforðanum. 

Orð ársins er valið víða um lönd, yfirleitt af fjölmiðlum, ritstjórum orðabóka eða málfræðifélögum. Í Þýskalandi hefur Gesellschaft für deutsche Sprache valið orð ársins síðan 1971, en þá var orðið aufmüpfig, sem þýða mætti sem uppreisnargjarn, valið. Í hinum enskumælandi heimi hefur American Dialect Society lengst stundað þessa iðju en þar hefur orð ársins verið valið síðan 1990. Fjölmargir aðrir hafa fylgt í kjölfarið og tekið upp á því að velja enskt orð ársins, t.d. ýmsar orðabókaútgáfur, og þessi árlega hefð hefur auk þess breiðst út í mörgum Evrópulöndum. Alls staðar er markmiðið þó að finna orð sem segja okkur eitthvað um samtímann eða samfélagsumræðuna á árinu. Orð ársins getur verið nýtt í málinu eða gamalt orð sem hefur fengið nýja merkingu eða verið sett í nýtt samhengi. Stundum tekst því að lifa áfram en stundum stendur það aðeins sem minnisvarði um samfélagsumbrot, atburði eða tískustrauma á árinu sem það var valið. 

Aðferðirnar sem notaðar eru við val á orði ársins eru líklega eins misjafnar og þær eru margar. Áður en sjálft orð ársins er valið eru yfirleitt valin nokkur orð sem öll gætu komið til greina. Þá er mikill kostur að orðin séu fjölbreytileg, ekki bara með tilliti til orðmyndunar heldur líka þess að þau séu notuð á ólíkum sviðum samfélagsins. Ný orð sem vekja athygli tengjast oft einstökum málum og eiga það til að gleymast með þeim. Þess vegna er mikilvægt að nota aðferðir sem auðvelda þeim sem velja að fá meiri yfirsýn. Þá er gagnlegt að styðjast við einhvers konar greiningu á nýjum orðaforða eða kanna áhuga á orðum í málsamfélaginu, helst jafnt og þétt yfir árið.  

Oxford-orðabókin byggir val sitt á greiningu á stórum málheildum en tekur auk þess til greina tillögur frá sérfræðingum og almenningi. Cambridge-orðabókin skoðar líka málheildir en greinir þar að auki flettingar í vefútgáfum sínum. Á Árnastofnun byggjum við val okkar á gögnum úr Risamálheildinni eins og áður segir en hún er stórt textasafn sem inniheldur yfir 2,6 milljarða lesmálsorða. Til að orð geti orðið orð ársins þarf það að uppfylla ákveðin skilyrði. Orðið þarf annaðhvort að vera nýtt í málinu eða að hafa verið meira áberandi á árinu en síðustu fimm ár á undan. Þeim orðum sem uppfylla annað þessara skilyrða er safnað saman og þau algengustu skoðuð sérstaklega. Af þeim eru valin tíu orð sem minna á árið með einhverjum hætti. Eftir ítarlega skoðun og greiningu á þessum tíu orðum er svo eitt valið sem þykir standa upp úr. 

Í ár velur Árnastofnun orð ársins í tíunda sinn. Dæmi um orð sem hafa verið valin hingað til eru fössari (2015), hrútskýring (2016), plokka (2018), sóttkví (2020) og gervigreind (2023). Eins og sést af þessum lista er stundum um að ræða nýyrði (hrútskýring) eða nýmerkingu (plokka) en stundum er einfaldlega um að ræða eldri orð (sóttkví, gervigreind) sem eru mikið í umræðunni á árinu. En hvers vegna er verið að velja orð ársins? Það má færa rök fyrir því að val á orði ársins sé lítið meira en samkvæmisleikur, uppgjör í lok árs í anda vals á íþróttamanni eða tónlistarmanni ársins. En að baki liggur einnig áhugi á tungumálinu og það hversu stóran hluta tungumálið spilar í menningu okkar. Orð ársins endurspeglar ekki aðeins sköpunarmátt tungumálsins heldur einnig samfélagið og varpar ljósi á þau málefni sem mest ber á á hverju ári. Til að mynda hafa þau orð sem helst hafa komið til greina á seinustu árum tíðum tengst áhyggjum okkar af náttúrunni (hamfarahlýnun, vistmorð, hraðtíska), eldsumbrotum (gosmóða, óróapúls, kvikuinnskot), COVID (sóttkví, bólusetning, fjarlægðarmörk, kófið, kóviti), stríðsbrölti (innrás, mannúðarhlé) og menningarátökum ýmiss konar (kúltúrbörn, dyggðaskreyting, menningarnám, slaufunarmenning). 

Mörg þeirra nýju orða sem hafa verið tilnefnd seinustu ár lifa enn góðu lífi í tungumálinu. Margir tala um fössara þegar föstudagurinn rennur loksins upp, aðrir sameina íþróttir og umhverfisvernd og fara út að plokka á meðan enn aðrir (en vonandi færri) sjá ástæðu til að hrútskýra hlutina. En það að komast á lista yfir orð ársins er ekki endilega ávísun á framtíðarsess í tungumálinu. Þyrilsnælda er dæmi um orð sem búið var til í tengslum við markaðssetningu á nýju leikfangi og komst á lista yfir möguleg orðs ársins 2017. En flug þyrilsnældunnar stóð stutt yfir, önnur leikföng unnu hug og hjörtu ungra neytenda og þar með hvarf orðið af vörum landans. Það náði þó inn í orðabækur og orðasöfn, ólíkt til að mynda orðinu kúltúrbörn. Undir lok árs 2022 var töluvert rætt um rithöfunda og listafólk sem hafa notið góðs af fjölskyldutengslum sínum við að koma sér á framfæri. Á ensku er talað um nepo babies en hér á landi var talað um kúltúrbörn. Orðið kemur aðeins þrisvar sinnum fyrir í gögnum liðins árs, en þó er aldrei að vita nema rykið verði dustað af því næst þegar umræðan um menningarklíkuskap fær vængi á ný. 

Tilkynnt verður um val á orði ársins 2024 þann 19. desember, hér í veftímaritinu Mannamál. 

Orð ársins á Árnastofnun: 

2015

2016

2017

2018

2019

2020

2021

2022

2023

fössari

hrútskýring

epalhommi

plokka

hamfarahlýnun

sóttkví

bólusetning

innrás

gervigreind

Höfundar

Ágústa Þorbergsdóttir, Starkaður Barkarson og Steinþór Steingrímsson starfa á íslenskusviði Árnastofnunar. Þau hafa haft umsjón með vali á orði ársins undanfarin ár.

Scroll to Top