Orðaheimurinn á Íslandi 


Breytingar á menningarlegu og mállegu umhverfi á Íslandi hafa verið miklar á síðastliðnum tuttugu árum. Innflytjendum á Íslandi hefur fjölgað ört á þessum tíma. Hugtakið innflytjendur vísar til þeirra einstaklinga sem fæddir eru erlendis og eiga jafnframt foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er ekki talað um innflytjendur ef annað foreldrið er erlent eða ef einstaklingurinn fæddist erlendis og báðir foreldrar eru fæddir á Íslandi heldur er þá talað um að einstaklingurinn hafi erlendan bakgrunn. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aukist úr 3% árið 2000 í 18% árið 2024. Innflytjendum af annarri kynslóð hefur einnig fjölgað og samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 20,1% árið 2024. Algengustu tungumál foreldris sem talar annað tungumál en íslensku heima eru pólska, enska og arabíska.  

Á fyrstu árum ævinnar eru fjöltyngd börn lengur að tileinka sér sömu færni í tveimur eða fleiri  tungumálum en eintyngdir jafnaldrar sem geta einbeitt sér að því að tileinka sér eitt tungumál. Þetta skýrist að miklu leyti af því að sá tími sem fjöltyngd börn fá í málumhverfi hvers tungumáls fyrir sig skiptist á milli tungumála. Þarf af leiðandi fá þau minna máláreiti í hverju tungumáli og um leið færri tækifæri til að læra og öðlast færni í báðum eða öllum tungumálunum. Fjöltyngd börn ættu að geta staðið jafnfætis eintyngdum jafnöldrum ef gætt er að magni og gæðum máláreitis í hverju tungumáli fyrir sig. Vísbendingar eru hins vegar um að þetta sé ekki raunin hjá fjöltyngdum börnum á Íslandi. Fjölmargar rannsóknir á íslenskukunnáttu barna og unglinga sem tala annað tungumál en íslensku heima fyrir benda til áberandi munar milli íslenskukunnáttu fjöltyngdra barna og eintyngdra íslenskra jafnaldra. 

Með þessar áskoranir í huga, ásamt þeirri staðreynd að flest börn á Íslandi verja meirihluta af vökutíma sínum í leikskóla, er mikilvægt að leikskólar hafi aðgang að gagnreyndum, réttmætum og áreiðanlegum verkfærum til að styðja við íslenskutileinkun fjöltyngdra barna. World of Words nefnist íhlutunarleið sem þróuð var af Susan Neuman í Bandaríkjunum og upphaflega notuð í Head Start-leikskólum þar í landi. Markmið hennar er að styðja við enskutileinkun barna sem skortir viðunandi máláreiti og talið er að hafi seinkaðan málþroska vegna þess að foreldrar hafa litla menntun eða eru með bága félagslega stöðu. Sýnt hefur verið fram á að það séu einkum þrír þættir sem orsaka seinkun eða frávik í málþroska: þroskatengdir þættir barns, menntun og félagsleg staða foreldra og fjöltyngi. Með World of Words er einblínt á að efla málþroska 4-7 ára barna og auka orðaforða þeirra, auk þess sem þekking á vísindalegum eða skólatengdum orðaforða og hugtökum er efld í skipulagðri þemavinnu. Kennsluefnið hefur verið vandlega rannsakað og er nú að finna á lista yfir áreiðanlegar gagnreyndar aðferðir hjá Menntavísindastofnun Bandaríkjanna (Institute of Education Sciences). Sú útgáfa World of Words sem ætluð er 4 ára börnum var þýdd á íslensku og aðlöguð að íslenskri leikskólamenningu undir heitinu Orðaheimurinn á Íslandi

Kennsluefni Orðaheimsins byggir á sjö þemum eða lotum: sjávardýr, húsdýr, plöntur, hreyfing, hollur matur, mannslíkaminn og villt dýr. Á Íslandi var það fyrst skoðað með fýsileikarannsókn í tengslum við tvær meistararannsóknir við námsleið í talmeinafræði. Á árunum 2022 til 2024 fór síðan fram klasaslembuð samanburðarrannsókn (e. cluster randomised controlled trial) til að kanna áhrif og árangur kennsluefnisins í fimmtán leikskólum í Reykjavík og nágrenni, með 207 börnum og 87 leikskólakennurum eða öðru leikskólastarfsfólki. Hver leikskóli gekkst handahófskennt undir eitt af þremur rannsóknarskilyrðum: (1) íhlutun með Orðaheiminum, (2) íhlutun með kennslu í gegnum leik, (3) engin íhlutun. Bæði eintyngd íslenskumælandi börn og fjöltyngd börn tóku þátt í rannsókninni. Á þremur tímapunktum, þ.e. fyrir íhlutun, beint í kjölfar íhlutunar og sex mánuðum eftir íhlutun, voru öll börn metin með MELB-málþroskaprófi og orðaforðaprófi sem var sérhannað í þessu skyni. Leikskólastarfsmenn og foreldrar fylltu út spurningalista. Þeir fyrrnefndu greindu frá íslenskufærni viðkomandi barns og þeir síðarnefndu svöruðu til um færni barna sinna í íslensku og öðrum tungumálum. Sem stendur (í haustbyrjun 2025) er verið að greina gögnin og bráðlega verða birtar niðurstöður um hvaða áhrif Orðaheimurinn hafði á málþroska barnanna í rannsókninni. Bráðabirgðaniðurstöður úr smærri hlutum rannsóknarinnar eru þegar aðgengilegar en nemar í talmeinafræði skoðuðu afmarkaða hluta hennar í meistaraverkefnum sínum. 

  • Bryndís Bergþórsdóttir kannaði árangur 110 eintyngdra og tvítyngdra barna, en börnin höfðu ýmist hlotið íhlutun með Orðaheiminum eða enga íhlutun. Marktækar framfarir mældust á Orðaheimstengdum orðaforða hjá þeim börnum sem höfðu fengið íhlutun samanborið við börn sem fengu enga íhlutun. Aftur á móti var ekki hægt að sýna fram á að íhlutunin hefði aukið marktækt Orðaheimstengdan hugtakaskilning eða þegar frammistaða var mæld með stöðluðu mati. Árangur eintyngdra, íslenskumælandi barna mældist meiri eftir íhlutun með Orðaheiminum samanborið við fjöltyngda jafnaldra.  
  • Björg Einarsdóttir rannsakaði fastheldni (e. fidelity) í framkvæmd íhlutunar með Orðaheiminum meðal leikskólastarfsfólks. Með fastheldni er vísað til þess hversu nákvæmlega var farið eftir leiðbeiningum sem fylgir íhlutun eða kennsluaðferð. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að skera úr um hvort niðurstöður mælinga á börnunum í rannsókninni megi rekja til íhlutunarinnar eða hvort aðrir þættir hafa hugsanlega áhrif á framfarir á þáttum íhlutunar eða skorti þar á. Fastheldni var metin út frá nokkrum þáttum, m.a. hversu oft börnin voru viðstödd í málörvunarstundum og hversu nákvæmlega starfsfólkið fylgdi kennsluleiðbeiningum Orðaheimsefnisins. Þegar horft var til allra málörvunarstundanna kom í ljós kom í 80% tilvika voru börnin viðstödd þegar íhlutun fór fram. Misræmis gætti á milli þess hvernig starfsmenn mátu að þeim hefði tekist að koma aðalatriðum til skila í málörvunarstundunum og þess hvernig rannsakendur mátu hvernig tekist hafði til. 
  • Hanna Einarsdóttir rannsakaði félagslegt réttmæti (e. social validity) Orðaheimsins með því að taka viðtöl við skólastjórnendur og einnig leikskólastarfsfólk sem þátt tók í að innleiða kennsluaðferðina. Félagslegt réttmæti lýsir því að hve miklu leyti notendur samþykki viðkomandi íhlutun og vísar því beint til þess hversu líklegt er að íhlutunin verði notuð þegar tiltekinnar rannsóknar nýtur ekki lengur við. Niðurstöður bentu til að þátttakendur meðal starfsfólks og stjórnendurnir teldu Orðaheiminn vera mikilvægt verkfæri til að efla íslenskufærni og að aðferðin væri viðeigandi og fýsileg í íslenskum leikskólum.  
  • Auður Ragnarsdóttir kannaði hvort munur væri á lestrarhegðun leikskólastarfsfólks sem fékk markvissa þjálfun í samræðulestri og þess sem ekki fékk sérstaka tilsögn eða þjálfun á því sviði. Hún skoðaði jafnframt hvort SABR-2.2-matslistinn (Systematic Assessment of Book Reading 2.2.) henti  til að meta lestrarhegðun í samræðulestri. Rýnt var í fjörutíu og eitt myndband af 22 starfsmönnum að lesa þrjár þematengdar bækur Orðaheimsins og bentu niðurstöður til að SABR-2.2 nýtist vel til að meta gæði samræðulesturs meðal starfsfólks leikskólanna.  

Efniviður Orðaheimsins 

Hægt er að hlaða niður efnivið Orðaheimsins í gegnum þessa Google möppu eða með QR-kóðanum. 

Þakkir 

Eftirfarandi aðilar styrktu þróun og rannsóknir á Orðaheiminum: Menntarannsóknarsjóður, Nýsköpunarsjóður námsmanna, Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur og Þróunarsjóður námsgagna. 

Eftirfarandi nemendur og talmeinafræðingar aðstoðuðu höfunda á marga lund, m.a. við að aðlaga efnivið Orðaheimsins að íslenskri tungu og menningu og með þátttöku í rannsóknum á kennsluefninu: Ása Birna Einarsdóttir, Auður Ragnarsdóttir, Björg Einarsdóttir, Bryndís Bergþórsdóttir, Hanna Einarsdóttir, Iðunn Kristínardóttir, Jane Petra Gunnarsdóttir, Lísa Mikaela Gunnarsdóttir, Rebekka Rán Magnúsdóttir, Sædís Dúadóttir Landmark, Svava Heiðarsdóttir og Ösp Vilberg Baldursdóttir.

Susan Neuman, Þorlákur Karlsson og Þóra Sæunn Úlfsdóttir veittu góð ráð og voru nánir samstarfsfélagar höfunda.  

Að lokum þakka höfundar öllum þeim sem þátt tóku í rannsókninni á vettvangi, leikskólastjórnendum, starfsfólki leikskólanna, börnum og foreldrum. 

Heimildir 

Auður Ragnarsdóttir. (2024). Preschool teacher shared-reading behaviours: A pilot study of the effect of explicit training in the Orðaheimurinn study [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands.  

Bialystok, E. &  F.I.M. Craik. (2010). Cognitive and linguistic processing in the bilingual mind. Current Directions in Psychological Science 19(1), 19–23. 

Björg Einarsdóttir. (2024). Orðaheimurinn: The fidelity of a soft-structured intervention evaluated in Icelandic preschools [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands.   

Bryndís Bergþórsdóttir. (2024). The impact of Orðaheimurinn language intervention on the vocabulary of monolingual and multilingual Icelandic-speaking preschoolers: Findings of a CRCT [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands.

Crowe, K., J.T. Einarsdóttir, Þ. Másdóttir & Þ. Karlsson. (2025). An evidence-based vocabulary intervention for multilingual children in Iceland: A cluster randomized-control trial of Orðaheimurinn [handrit í undirbúningi]. 

Hagstofa Íslands. (2024a). Börn í leikskólum með erlent móðurmál eftir aldri og kyni 1998–2023.  

Hagstofa Íslands. (2024b). Íbúar fæddir erlendis eftir bakgrunni, kyni og fæðingarlandi 1996–2024

Hagstofa Íslands. (2024c). Innflytjendur 18,2% íbúa landsins.  

Hagstofa Íslands. (2025). Lykiltölur mannfjöldans 1703–2025

Hanna Einarsdóttir. (2024). The social validity of Orðaheimurinn for supporting multilingual children’s Icelandic vocabulary development: Perspectives from teachers and directors. „This is just a language stimulant on a silver platter. You don’t need anything more, just off you go.“ [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands.    

Head Start. (2025). Head Start Approach

Hjördís Hafsteinsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Iris Edda Nowenstein. (2022). Íslenskukunnátta tvítyngdra barna: Tengsl staðlaðra málþroskaprófa og málsýna. Netla.   

Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Netla.  

Sigríður Ólafsdóttir og Hrafnhildur Ragnarsdóttir. (2010). Íslenskur orðaforði íslenskra grunnskólanema sem eiga annað móðurmál en íslensku. Netla.   

Svava Heiðarsdóttir. (2022). Málörvun fjöltyngdra leikskólabarna með kennslustýrðri nálgun [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands.  

Sædís Dúadóttir Landmark. (2022). Orðaheimurinn: Málörvun fjöltyngdra leikskólabarna í gegnum leik [óútgefin MS ritgerð]. Háskóli Íslands. http://hdl.handle.net/1946/43377 

Sædís Dúadóttir Landmark, Svava Heiðarsdóttir, Jóhanna Thelma Einarsdóttir og Þóra Másdóttir. (2025). Orðaheimurinn – Fýsileikarannsókn á málörvunarefni fyrir fjöltyngd leikskólabörn. Netla [handrit hjá ritrýnum]. 

Thordardottir, E. (2020). Are background variables good predictors of need for L2 assistance in school? Effects of age, L1, amount, and timing of exposure on Icelandic language and nonword repetition scores. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 23(4), 400–422.   

Thordardottir, E. (2021). Adolescent language outcomes in a complex trilingual context: When typical does not mean unproblematic. Journal of Communication Disorders, 89, 1–16.  

Thordardottir, E.T. & A.G. Juliusdottir. (2013). Icelandic as a second language: A longitudinal study of language knowledge and processing by school-age children. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 16(4), 411–435.  

Walker, D., S.J. Sepulveda, E. Hoff, M.L. Rowe, I.S. Schwartz, P.S. Dale, C.A. Peterson, K. Diamond, S. Goldin-Meadow, S.C. Levine, B.H. Wasik, D.M. Horm & K.M. Bigelow. (2020). Language intervention research in early childhood care and education: A systematic survey of the literature. Early Childhood Research Quarterly, 50, 68–85. 

Institute of Education Sciences. (2023). What Works Clearinghouse: World of Words.  

World of Words. (2025). A research-based shared reading program that integrates rich vocabulary instruction in science-based topics. 

Þóra Másdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2021). Málfærni eldri leikskólabarna (MELB). Staðlað málþroskapróf fyrir börn á aldrinum 4–6 ára. Útgefandi: Háskóli Íslands og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. ISBN: 978-9935-9071-3-4 

Höfundar

Kathryn Crowe, PhD, er dósent í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði. Hún rannsakar m.a. fjöltyngi barna og heyrnar- og sjónskerðingu barna og fullorðinna.


Þóra Másdóttir, PhD, er dósent í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði. Rannsóknarsvið hennar er hljóðþróun og framburðarerfiðleikar barna, auk mælinga á framburði og málþroska.
Jóhanna Thelma Einarsdóttir, PhD, er prófessor í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði og á Menntavísindasviði. Rannsóknarsvið hennar er máltaka barna, málþroskafrávik og mælingar á málþroska auk rannsókna á stami og flausturmæli.

Scroll to Top