P-mál – hvapað eper núpú þapað? 


Þepegapar épeg vapar lípítipill töpölupuðupum vipið strápákaparnipir stupundupum sapamapan ápá pépémápálipi epef vipið vipildupum fepelapa þapað fypyripir öpöðrupum upum hvapað vipið væpærupum apað tapalapa.

Dæmi um framburð p-máls

Eflaust kannast lesendur við að hafa einhvern tíma látið romsu í líkingu við þessa út úr sér, nú eða þá að hafa ærst yfir því að skilja ekki hrognamálið sem krakkahópur á leikvellinum talaði sín á milli. 

Hvað er p-mál?

P-mál er gervimál, eða leynimál, sem hefur þekkst á Íslandi síðan a.m.k. seint á 19. öld. Slík mál, sem eru t.d. kölluð ludlings eða language games á ensku, þekkjast í málsamfélögum víðs vegar um heiminn. Málið er langt frá því að vera séríslensk uppfinning en í Danmörku nefnist áþekkt mál p-sprog eða p-maal, í Eistlandi piikeel og í ýmsum portúgölskumælandi löndum, t.a.m. Brasilíu og Saó Tóme og Prinsípe, þekkist lingua do pê. Víða má svo finna býsna svipuð mál, t.d. g-mál í tagalog á Filippseyjum og f-mál í ítölsku, auk þess sem mýmörg og umtalsvert flóknari leynimál fyrirfinnast annars staðar. 

Í ritinu Íslenzkar skemtanir sem Ólafur Davíðsson tók saman á árunum 1888–1892 nefnir hann nokkur gervimál og lýsir þeim svo: 

Á níunda áratug síðustu aldar kenndi Brynja Benediktsdóttir íslenskum börnum p-mál í gegnum söguna af Gosa.

Hvernig virkar p-mál? 

Eitt málanna sem Ólafur fjallar um er umrætt p-mál, eða pémál, sem hann útskýrir svo fyrir lesendum: 

Sem einfalt dæmi mætti taka orðið kona, sem á p-máli verður koponapa. Aftan við fyrra atkvæðið, ko, er péi bætt og sérhljóðið, o, endurtekið: kopo. Síðara atkvæðið fær sömu meðferð, sem getur af sér napa, og þannig verður konakoponapa

Kona á p-máli. Rauðu stafirnir tákna viðbætt hljóð.

Epen eper mapálipið svopo epeinfapalt? 

Lýsing Ólafs á myndun p-máls rímar ágætlega við tilfinningu mína fyrir málinu og við fyrstu sýn virðist málið fylgja einni einfaldri reglu, þ.e. að sérhvert sérhljóð (V) sé endurtekið og péi skotið inn á milli. 

Málið er þó ögn flóknara og í málkerfi p-máls virðast vera a.m.k. tvær reglur til viðbótar við þær sem Ólafur nefnir. Í íslensku gildir það almennt að áhersla er á fyrsta atkvæði orðs (og aukaáhersla á hið þriðja, fimmta o.s.frv.) en í p-máli er áherslan á viðbótaratkvæðin, þ.e. þau sem skotið er inn á eftir péinu (númer tvö, fjögur o.s.frv.). Í hefðbundnum íslenskum framburði á orðinu maður [ˈmaːðʏr] er áherslan á aið, þ.e. fyrsta atkvæði orðsins, en í p-máli er hún á seinna aið og seinna uið: mapaðupur [maˈpʰaːðʏˈpʰʏr]. Það er því ekki einungis innskot pés sem greinir íslensku frá p-máli heldur einnig áherslureglurnar, sem eru ekkert í líkingu við hinar íslensku. 

Seinni reglan ætti að vera þeim ljós sem lært hafa hljóðritun (og gátu ráðið fram úr þessum skrítnu táknum hér að framan) en hún er sú að „upprunalegu“ sérhljóðin eru ávallt stutt í p-máli en lengd viðbótarsérhljóðanna, þ.e. þeirra sem koma á eftir péinu viðbætta, ræðst af lengd sérhljóðanna í hefðbundnum íslenskum framburði. Í íslensku gildir sú meginregla að sérhljóð eru löng ef á eftir þeim fer eitt stutt (eða ekkert) samhljóð. Þannig er aið t.d. langt í afi því að á eftir því er stutt eff (vaff í framburði) en í orðinu pabbi er það stutt þar sem því fylgir langt bé. Auk þess eru sérhljóð einungis löng í áhersluatkvæðum en í áherslulitlum atkvæðum (t.d. i-hljóðið í lok afi og pabbi) eru þau jafnan talin stutt. 

Þetta ferli, þ.e. stytting sérhljóðanna við myndun p-máls, á sér hliðarverkun sem þekkist vel í íslensku máli: einhljóðun stuttra tvíhljóða, sem, samkvæmt Kristjáni Árnasyni, birtist fyrst og fremst í „óformlegu og hröðu tali“. Þegar tvíhljóð einhljóðast renna þau annaðhvort saman í eitt hljóð, einhvers staðar á milli hljóðanna tveggja, eða fremra hljóðið verður ofan á í framburði. Þannig getur orðið sjór orðið að sjor (o + ú = ó) í hröðu og óformlegu tali og baun (ö + i = au) bön. Í p-máli, sem seint verður talið formlegt og getur svo sannarlega verið talað hratt af þeim sem hafa tileinkað sér það, er orðið ólán því borið fram opólapán [ɔˈpʰouːlaˈpʰauːn], frekar en ópólápán [ouˈpʰouːlauˈpʰauːn]. 

Ólán á p-máli. Hér má sjá hvernig tvíhljóðin einfaldast í áherslulitlu oddatöluatkvæðunum.

Þrátt fyrir að p-mál sé e.t.v. bara eitthvað sem „únglíngar gjöra sér til gamans“ – og að ýmis atriði þess sé ekki að finna í hefðbundinni íslensku – er nokkuð ljóst að málkerfi þess stendur á eigin fótum og endurspeglar íslenskt hljóðkerfi eins og því þykir við hæfi. Því velti ég því fyrir mér hvort við séum ekki að leika okkur að málinu – heldur það að okkur. 

Heimildir

Agostinho, Ana Lívia, og Gabriel Antunes De Araujo. 2021. Playing with language: three language games in the Gulf of Guinea." Language Documentation & Conservation (2021). 

Bell, Nancy, ed. 2016. Multiple perspectives on language play 1.  

Kristján Árnason. 2005. Íslensk tunga: I. bindi. Hljóð. Handbók um hljóðfræði og hljóðkerfisfræði: 135, 256. 

Lehiste, Ilse. 1985. An Estonian word game and the phonematic status of long vowels. Linguistic Inquiry 16 (3). 

Nagaya, Naonori, og Hiroto Uchihara. 2021. Ludlings and phonology in Tagalog. Doktorsritgerð., Tokyo University of Foreign Studies. 

Ordbog over det danske Sprog, 16. bindi. 1936. 

Ólafur Davíðsson. 1888–92. Íslenzkar skemtanir. Hið íslenzka bókmentafélag. Bls. 201–202. 

Mynd

Brynja Benediktsdóttir. 1982. Gosi: leikverk byggt á sögunni um Gosa eftir C. Collodi. Bls. 52–53.

Höfundur

Apatlipi eper mápálfræpæðipingupur opog foporripitaparipi mepeð meipeistaparapagrápáðupu ípí mápáltæpæknipi.

Scroll to Top