Risaeðlurnar eru komnar!


Orðasafn í steingervingafræðum 

Nýlega bættist í Íðorðabanka Árnastofnunar nýtt orðasafn í steingervingafræðum. Í orðasafninu má finna íslensk heiti risaeðla sem birst hafa á prenti eða 230 orð. Ritstjórar safnsins eru Rafn Sigurðsson og Viktor Árnason, meistaranemar og stundakennarar í líffræði við Háskóla Íslands. Í háskólanum hafa þeir aðallega verið að sinna verkefnum á sviði skordýrafræði, grasafræði og vistfræði en risaeðlur og steingervingar heilla þá ekki síður.

Af hverju orðasafn um risaeðlur? 

Rafn og Viktor hafa lengi haft áhuga á risaeðlum enda eru þær merkileg fyrirbæri sem heilla stóra jafnt sem smáa. Á fyrstu námsárum þeirra við Háskóla Íslands spannst mikil umræða um þessar forsögulegu verur og eftir því sem leið á námið tóku þeir sífellt eftir meira ósamræmi í orðanotkun í íslenskum textum. Þegar þeir kvörtuðu undan þessu í tíma benti kennarinn þeim á að gera eitthvað í málinu. Rafn og Viktor fóru því að safna risaeðluheitum í skjal sem stækkaði smám saman. Að lokum var skjalið orðið það stórt að þeir ákváðu að stíga næsta skref og búa til opið orðasafn. Fengu þeir til þess framlag úr styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur en hann er einmitt ætlaður til eflingar íslenskrar tungu. 

Markmið Rafns og Viktors var ekki að þýða öll risaeðluheiti á íslensku heldur að greiða úr þeim hugtökum sem þegar voru til staðar í bókum, greinum og á vefnum. Þeir settust því niður á lestrarsal Landsbókasafnsins þar sem þeir fóru í gegnum allar greinar og bækur sem skrifaðar hafa verið um risaeðlur á íslensku. Meðal annars flettu þeir 45 barnabókum sem sumar voru með flipum eða hljóði. Eftir því sem þeir skoðuðu meira efni óx orðaruglingurinn. 

Orðaruglingur 

Þótt risaeðlur séu löngu útdauðar er fræðasviðið mjög kvikt. Vísindunum fleygir fram og ný tækni gerir fræðimönnum kleift að greina betur atriði eins og hvað risaeðlurnar borðuðu, hvar þær héldu til og hvert þær fóru. Ný þekking hefur áhrif á flokkun risaeðla í tegundir sem hefur svo bein áhrif á heitin.  

Hvað íslensku orðin varðar var áberandi að sumar risaeðlur áttu sér fleiri en eitt heiti. Einnig voru dæmi þess að sama orðið var notað yfir margar tegundir. Sem dæmi má nefna að orðið krónusareðla var notað yfir fjórar óskyldar tegundir. Orðið var þó sjaldnast notað um það sem á latínu ber heitið kronosaurus sem auk þess er eðla en ekki risaeðla.  

Við skoðun kom líka í ljós að ekki var alltaf gerður skýr greinarmunur á ættkvíslum og tegundum. Það leiddi til þess að Rafn og Viktor þurftu stundum að mynda ný orð. Sem dæmi um þetta hefur orðið þríhyrna verið notað yfir tvær tegundir af sömu ættkvísl, það er það sem á latínu heitir triceratop prorsus og triceratop horridus. Til að greiða úr orðaruglingnum gáfu Rafn og Viktor síðarnefndu tegundinni nýtt heiti, nashyrningseðla, en hin tegundin hélt gamla heitinu þríhyrna. 

Hvernig eru orðin mynduð? 

Þótt verkefni Rafns og Viktors hafi ekki snúist um að nefna allar risaeðlutegundir sem til eru, það er þýða öll latnesk heiti, var stundum óhjákvæmilegt að lagfæra eða jafnvel mynda ný orð. Við gerð orðasafnsins nutu þeir leiðsagnar Ágústu Þorbergsdóttur, ritstjóra Íðorðabanka Árnastofnunar.  

Þegar þeir settu sér  verklagsreglur höfðu þeir í huga að orðin þyrftu að fylgja munstri sem aðrir gætu fylgt í framtíðinni. Því var ákveðið að heitin skyldu mynduð úr samsettum orðum þar sem seinni liðurinn gefur til kynna af hvaða ættkvísl risaeðlan er. Risaeðlur sem hafa seinni liðinn kambur eru af ættkvísl kambseðla og þær sem hafa seinni liðinn gramur eru af grameðluætt. Þetta var meðal annars gert til að forðast ofnotkun á orðinu eðla sem Rafn og Viktor töldu vera of almennt og ekki nægilega lýsandi 

Reynt var að finna orð sem voru einkennandi fyrir viðkomandi tegund en það reyndist þó oft hægara sagt en gert. Latneska heitið var oft „eitthvað bull“, eins og Rafn og Viktor orða það, og þýðingin kom illa út á íslensku. Ekki er heldur gott ef seinni liðurinn kemur fyrir í öðrum heitum í dýraríkinu eins og til dæmis er raunin með risaeðlutegundina stórfeta (lat. barapasaurus tagorei). Seinni liðurinn feti er einnig notaður yfir fiðrildi, til dæmis haustfeta sem margir þekkja á Íslandi. 

Þegar finna átti fyrri lið var litið til þess að ekki mætti nefna eftir stöðum enda geta nýjar rannsóknir kollvarpað þekkingu okkar á útbreiðslu tegunda. Einnig var haft í huga að nota heldur orð sem sótt eru í eldra mál og geta skapað ákveðin hugrenningatengsl. Sem dæmi má nefna heitið geirkambur (lat. kentrosaurus) þar sem forliðurinn geir er notaður í stað þess að nota spjót sem er þekktara í nútímamáli. Geirkambur er með spjót eða gadda sem standa út úr hliðunum og baki og orðið því mjög lýsandi. Annað dæmi er stirðbusi (lat. riojasaurus incertus) sem Rafn og Viktor rákust á í prentuðum heimildum. Í nútímaíslensku er nafnorðið stirðbusi notað til að lýsa fólki: sá eða sú sem er stirður í hreyfingum eða í samskiptum. Þegar risaeðlan er skoðuð nánar hentar orðið þó einstaklega vel fyrir þessa tegund. Stirðbusi er nefnilega með samvaxinn hrygg og hefur mjög einkennilegan gang. 

Orðasafnið aðgengilegt 

Orðasafn yfir risaeðluheiti er nú aðgengilegt í Íðorðabanka Árnastofnunar. Rafn og Viktor eru þó hvergi nærri hættir. Næstu skref hjá þeim er að undirbúa orðasafn yfir spendýr og ljóst er að það verður gríðarstórt verkefni. 

Mynd

Sigurður Stefán Jónsson

Viðtalið tók

Helga Hilmisdóttir er sviðsstjóri íslenskusviðs Árnastofnunar. Hún á eftir að sjá Júragarðinn.

Scroll to Top