Starfsheiti og kyn – hver er þróunin í Skandinavíu?


Umræðan um kynjað eða kynhlutlaust mál hefur farið hátt í íslensku samfélagi undanfarin misseri. Ísland sker sig að því leyti ekki frá öðrum löndum því sambærileg skoðanaskipti hafa átt sér stað um alla Evrópu og víðar. Þessi umræða hefur alls staðar verið erfið og skapað djúpt ósætti meðal ólíkra samfélagshópa eins og glögglega kom fram í nýafstöðnu samstarfsverkefni Evrópuþjóða sem fræðimenn Árnastofnunar tóku þátt í. Og þótt álitaefnin séu að einhverju leyti frábrugðin í hverju tungumáli fyrir sig eru mörg samfélög að kljást við svipuð úrlausnarefni. Hér verður stiklað á stóru í nýlegri umræðu um kynjað eða kynhlutlaust mál í Danmörku og Svíþjóð.

Sýnilegar konur

Jafnréttisbarátta kvenna í lok síðustu aldar fólst ekki síst í því að gefa konum tækifæri til þess að vinna störf sem áður hafði verið sinnt einungis af karlmönnum. Á áttunda áratugnum var því litið svo á að mikilvægt væri að gera konur sýnilegar á vinnumarkaði. Liður í baráttu kvenna á Norðurlöndum og í Evrópu almennt var að koma í gegn breytingum á starfsheitum sem þóttu útilokandi fyrir konur, til dæmis þau sem enduðu á -man(d) ʽmaður’.

Í löndum eins og Þýskalandi og Frakklandi voru öll starfsheiti kynjuð með ákveðnum beygingarendingum fyrir konur og seinna kynsegin fólk en sú leið var ekki farin á Norðurlöndum. Í Skandinavíu höfðu lengi vel verið til kvenmyndir af ýmsum starfsheitum, til dæmis lærerinde/lärarinna ʽkennslukona’ og skuespillerinde/skådespelerska ʽleikkona’, en þegar aðlaga átti karllæg starfs- og embættisheiti nýjum veruleika kom upp ákveðin fyrirstaða. Ekki voru gerðar neinar kerfisbreytingar í átt að tvískiptingu starfsheita eins og gert var í Þýskalandi en þó sáust stundum kvenmyndir starfsheita bæði í dönsku og sænsku. Danir tóku til dæmis starfsheitið forkvinde ʽforkona’ inn í stafsetningarorðabók árið 1986 en formand ʽformaður’ hafði verið þar fyrir.

Á Íslandi hafa heldur ekki verið gerðar kerfisbundnar breytingar á starfsheitum en umræður hafi blossað upp með reglulegu millibili, sér í lagi hvað varðar orð á borð við ráðherra og sendiherra. Undanfarin ár hafa sum fyrirtæki og félagasamtök tekið upp kvenmyndir af gamalgrónum starfsheitum. Þetta á einkum við um störf sem eru ofarlega í skipuritum fyrirtækja, það er forstýrur, framkvæmdastýrur og talskonur

Fjarar undan kynjuðum starfsheitum 

Í seinni tíð hafa gömlu kynjuðu starfsheitin fengið á sig neikvæðan blæ. Þetta á ekki bara við á Norðurlöndum heldur einnig í ensku. Nægir þar að nefna orð á borð við lærerinde/lärarinna í dönsku og sænsku sem þykja gamaldags og jafnvel niðrandi og hið sama gildir sjálfsagt um íslenska orðið kennslukona sem kemur sjaldan fyrir í nútímamáli. Meðal enskumælandi fólks þykir orðið poetesse ʽskáldkona’ og actress ’leikkona’ vera heldur gildishlaðið eða í það minnsta ekki ráðlegt að nota þau án umhugsunar.

Nýleg viðhorfskönnun dönsku málnefndarinnar sýnir þó að Danir eru alls ekki á einu máli hvað kynjuð starfsheiti varðar. Þar skiptir aldur, viðhorf til samfélagsins og jafnvel pólitískar skoðanir miklu máli. Í könnuninni sem fór fram á vefnum voru eftirfarandi athugasemdir gerðar við orðið lærerinde ʽkennslukona’ og sangerinde ʽsöngkona’. 

Það er kurteisara gagnvart viðkomandi en að segja bara kennari (lærerinde) 

Ég er á móti [lærerinde].  Þetta verður til þess að heitið lærer (sem er standard og norm) nái aðeins yfir menn. Þ.e.a.s. að karlinn er aftur (!!!!!) sá rétti/venjulegi, og konan fellur utan við normið”(lærerinde) 

Það er gamaldags og óþarfi að merkja kyn í starfsheitum. (sangerinde)  

Eins og sjá má á þessum athugasemdum eru skoðanir skiptar en í Den Danske Ordbog er lærerinde merkt sem niðrandi í hugum sumra og bent er á að það eigi einkum við í sögulegu samhengi. 

En það eru ekki aðeins gömlu orðin sem eiga undir högg að sækja. Samkvæmt sömu viðhorfskönnun virðast nefnilega kynhlutlaus starfsheiti sækja í sig veðrið gagnvart kynjuðum orðum, það er starfsheitunum sem enda á -mand eða -kvinde, t.d. formand og forkvinde

Í átt að kynhlutleysi 

Undanfarin ár hefur þróunin í Skandinavíu verið í átt að kynhlutleysi, það er að segja sama starf kallar á sama starfsheiti fyrir alla. Í Svíþjóð hafa sumar stofnanir og stjórnsýslueiningar farið í kerfisbundna vinnu við að breyta sínum starfsheitum eins og fjallað er um í nýlegri bók eftir Lenu Lind Palicki. Í stað þess að tala til dæmis um brandman ʽslökkviliðsmaður’ hafa þau tekið upp starfsheitið brandperson ʽslökkviliðsmanneskja’ og í stað talesman ʽtalsmaður’ er lagt til að nota skuli talesperson ʽtalsmanneskja’. Slíkar breytingar hafa víða vakið hörð viðbrögð og mikla umræðu meðal almennings en stofnanirnar hafa staðið fastar á sínu. Málfarsráðgjafar hjá sænsku málnefndinni hafa haldið því fram að nýju orðin venjist fljótt. 

En hvað finnst málnotendum sjálfum um þessar breytingar? Vilja þeir nota kynjuð starfsheiti, kynhlutlaus eða halda sig við gömlu orðin? Konur er líka menn eins og oft hefur verið bent á í íslensku samhengi. Þegar spurt var um viðhorf Dana til starfsheitanna formand ’formaður’, forkvinde ʽforkona’ og forperson ʽformanneskja’ þegar vísað er til konu kom í ljós að 42% fólks þrjátíu ára og yngri taldi að best væri að nota orðið formand. Hlutfallið var ívið hærra meðal fólks sem var komið yfir þrítugt eða 61%. Næst vinsælast var að nota orðið forperson, eða um 29% í yngri hópnum og 20% í þeim eldri. Fæstir vildu nota orðið forkvinde eða 12% yngra fólks og 9% eldra.

Mynd 1: Hvernig á að vísa til konu? (Rathje og Isen 2024) 

Viðhorfskönnun dönsku málnefndarinnar bendir eindregið til þess að þróunin sé í átt að kynhlutleysi. Athyglisvert er að í Danmörku kvarta margir af yngri kynslóðinni undan „ofkynjun“ hvað varðar notkun orðanna ven ʽvinur’ og veninde ʽvinkona’. Óþarfi sé að tilgreina kyn vina. 

Hlutverk málnefnda  

En hvert er hlutverk dönsku málnefndarinnar er varðar kynjað og kynhlutlaust mál í Danmörku? Í umræddri viðhorfskönnun voru svarendur beðnir um að velja á milli þriggja staðhæfinga: a) Málnotendur eiga sjálfir að stýra þróuninni án allra afskipta stjórnvalda, b) Málnefndin eða stjórnvöld eiga að beita sér fyrir breytingum á tungumálinu í átt að kynhlutlausu máli, og c) Málnefndin eða stjórnvöld eiga að koma í veg fyrir alla þróun í átt að kynhlutleysi. 

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vill 52% Dana undir þrítugu að þróunin eigi að fá að hafa sinn gang án allra afskipta ríkisvaldsins. 29% svarenda vilja hins vegar að málnefndin eða aðrir fulltrúar stjórnvalda stýri notkuninni í átt að kynhlutleysi. Það er mun stærri hópur en sá sem vill að málnefndin sporni við notkun kynhlutlauss máls en hann er um 18%.  

Áhugavert er að töluverður kynslóðarmunur er á tölunum. Þegar litið er á svör þeirra sem komnir eru yfir þrítugt vilja 44% engin afskipti, 18% meira kynhlutleysi og 38% að spornað sé við breytingum. Ljóst er að yngri kynslóðin er því mun jákvæðari gagnvart breytingum en sú eldri og jafnframt að hún treysti frekar málnotendum til að stýra för.     

Ekki er vitað hvert viðhorf almennings er á Íslandi enda hafa ekki verið gerðar viðhorfskannanir sem snúa að þessum málum enn sem komið er.  

Heimildir 

Palicki, Lena Lind. 2024. Inkluderande språk – att välja sina ord. Stockholm: Natur & kultur. 

Rahtje, Marianne og Lea Elias Isen. 2024. Sangerinde, bedemand og forperson. Holdninger til kønnede endelser i dansk: 2–21. Nyt fra Sprognævnet, oktober 2024.

Den danske Ordbog.

Mynd

Sigurður Stefán Jónsson

Höfundar

Helga Hilmisdóttir og Ágústa Þorbergsdóttir starfa á íslenskusviði Árnastofnunar. Þær tóku þátt í evrópsku netverki um mál og kyn og sitja í samfstarfsnefnd norrænna málstöðva.

Scroll to Top