Nichole Leigh Mosty, sem fædd er í Bandaríkjunum, er menntuð sem leikskólakennari og hefur í störfum sínum sem leikskólastjóri, þingmaður og forstöðumaður Fjölmenningarseturs barist fyrir réttindum barna og fullorðinna sem eru að læra íslensku sem annað mál. Nichole sat á Alþingi í tvö ár þar sem hún var fyrsti annarsmálshafinn til að gegna þingmannsstörfum og braut þar með blað í sögu landsins. Hún stundar nú doktorsnám við deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands.
1. Hvaða tungumál kanntu og hvar og hvernig notar þú þau í þínu daglega amstri?
Ég tala íslensku, ensku og smá þýsku. Daglega nota ég íslensku og ensku til skiptis. Íslensku í vinnunni, í samskiptum við fólk víða t.d. í búðinni, í útvarps- og sjónvarpsviðtölum, samskiptum við aðra foreldra eða kennara svo sem í tengslum við foreldrahlutverk. Ég les og skrifa íslensku í vinnunni, á samfélagsmiðlum eða almennt á vefnum, t.d. þegar ég les fréttir og annað. Svo er ég í doktorsnámi þar sem ég les, skrifa og tala á íslensku.
Ég nota ensku til að tala við börnin mín sem eru tvítyngd. Við tölum ensku og lengi var það hefð hjá okkur að við læsum saman á ensku en nú eru þau orðin unglingar og með fulla dagskrá og heimavinnu sem þau þurfa að sinna á íslensku. Hægt er að segja að ég noti þessi tvö tungumál til skiptis gegnumgangandi alla daga.
2. Hvenær fórstu að læra önnur tungumál og hver voru þín fyrstu viðbrögð?
Þegar ég var 13 lærði ég fyrst frönsku í 9. bekk í bandarískum „high school“. Mér fannst það geggjað og vildi læra fleiri tungumál! Þó að mér fyndist frönskunámið ganga vel glímdi ég aðeins við framburðinn og frönskukennarinn sagði að kannski væri best að ég lærði önnur tungumál. Ég skipti svo yfir í þýsku. Þýski kennarinn, Fräulein Barb, var einstaklega hvetjandi og hress. Þegar ég útskrifaðist úr High School fór ég til Þýskalands í heilt sumar þar sem ég naut þess í botn að kynnast fólki og menningu með því að lesa, skrifa og tala þýsku alla daga. Við heimkomu og inngöngu í háskóla fór ég beint á þriðja ár í þýsku. Ég held að ég hafi lært íslensku við flutning til Íslands vegna þess að ég náði að læra önnur tungumál þegar ég var yngri.
3. Hvað varð til þess að þú fórst að blanda þér í opinbera umræðu um málefni annarsmálshafa?
Þegar ég fór hvað mest að ræða annarsmálskennslu og máltöku var það í tengslum við börn. Ég starfaði á leikskóla og ég var heltekin af fjöltyngi og hvernig væri best að styðja við börn sem voru að alast upp með fleiri en eitt tungumál. Í leikskólakennaranámi lagði ég alltaf áherslu á málþroska. Lokaverkefni á síðasta ári var handbók fyrir foreldra til að styðja við máltöku bæði á móðurmáli og íslensku. Svo skrifaði ég M.Ed.-rannsókn um viðhorf foreldra til fjöltyngis. Þar sem ég var sjálf oft að lenda í ákveðinni gagnrýni vegna minnar íslensku byrjaði ég að leggja meiri áherslu á fullorðna innflytjendur sem læra íslensku sem annað mál. Ég var svo heppin að fá styrk til að keyra íslenskunámskeið fyrir foreldra og starfsfólk af erlendum uppruna þar sem ég var leikskólastjóri og síðan þá hef ég alltaf verið mjög upptekin af mikilvægi þess að fullorðnir innflytjendur fái stuðning og að þeim sé gert kleift að læra íslensku þannig að það gagnist þeim til þátttöku í samfélaginu.
4. Hvað finnst þér um tungumálalandslagið á Íslandi og umræðuna í samfélaginu? Hefur eitthvað breyst frá því þú fluttir til landsins?
Mér finnst að umræðan hafi ekki breyst mikið heldur frekar aukist, þ.e. að fleiri tali um þessi mál. Innflytjendur eru enn þá að tala um gæði kennslunnar og aðgengi að íslensku, og Íslendingar tala enn þá um mikilvægi þess að fólk hafi aðgang að og læri íslensku. Það sem mér finnst hafa breyst er fjöldi innflytjenda og hversu mikið enska hefur tekið yfirhöndina. Enska er miklu meira töluð í dag en þegar ég flutti til Íslands fyrir meira en 20 árum. Annað er kannski það að mér finnst tónninn öðruvísi núna en hann var þá, sem sagt fólk er orðið hrætt. Sum meira en önnur og það tengist beint auknum fjölda fólks sem talar ensku. Eitt sem er öðruvísi er það að loksins var gerð aðgerðaáætlun sem tekur mið af rannsóknum og erlendum fyrirmyndum en það vantar samt mikið meira fjármagn í málaflokkinn.
5. Hvað finnst þér áhugaverðast við íslensku eða tungumál almennt? Áttu þér t.d. uppáhaldsorð eða orðasamband?
Mér finnst nákvæmni í lýsingarorðum vera mjög áhugaverð á íslensku. Það eru til svo mörg orð á íslensku sem lýsa hlutum sem ég myndi þýða með fimm eða sex orða setningu, stundum til að ná samhenginu. Svo eru sum orð á íslensku mjög táknræn, til dæmis orðið „íhaldssamur“. Á ensku er orðið „conservative“ sem ég tel kveikja aðra tilfinningu. Ég hef oft sagt að íslenska orðið „íhald“, þ.e. að halda í, sé svo táknrænt fyrir öfgahægripólitík heima í Bandaríkjunum. Sumt fólk rígheldur í gömul gildi eða venjur frekar en að sækja fram. Svo eru það formlegheit í kringum íslensku sem þarf að bera virðingu fyrir óháð því hvað mér finnst um þær ákvarðanir, eins og til dæmis störf Íslenskrar málnefndar og Mannanafnanefndar. Þennan metnað ber að virða.
6. Þú skrifaðir áhugaverða grein um daginn þar sem þú talar m.a. um það að „skrifa með hreim“. Gætirðu útskýrt fyrir okkur hvað þú átt við með því og af hverju þér finnst þetta mikilvægt?
Mér finnst að íslenska sem töluð er með hreim beri merkingu um sátt: Það að Íslendingar viðurkenni það að fólk hafi lagt mikið í að læra íslensku en það er í lagi að allt sé ekki upp á tíu. Því að ef innflytjendur upplifa að þau þurfi að tala fullkomna íslensku eða muni alltaf vera gagnrýnd fyrir hreim hvort sem hann er talaður eða skrifaður þá muni fólk halda áfram að hætta að vilja læra íslensku.
Ég ólst upp við að heyra ensku talaða með hreim, meira að segja fólk innan míns eigin lands talaði með sérstökum hreim og ég las bækur með tilliti til þess. Til dæmis þegar ég las bókina Misery eftir Steven King á unglingsárum las ég bókina með þessum sérstaka hreim sem er talaður í Maine og hann mallaði inni í hausnum á mér. Og ef ég man rétt þá skrifaði herra King bókina með sér málhljóm í texta og sér orð sem notuð eru í Maine.
Ef Ísland á að vera samfélag margbreytileikans þar sem alls konar fólk er virkir þátttakendur í samfélaginu og fá tækifæri til að tala, skrifa og lesa íslensku að jöfnu, þá þurfum við að taka tillit til þess að það að tala og skrifa með hreim er mikilvægur hluti. Við sem erum að læra förum að missa hreim bæði í rituðu og töluðu máli með þjálfun og tíma. Minn hreimur er að skána! Og sömuleiðis fara Íslendingar að taka minna og minna eftir svona smá hreim.
Í fyrsta skipti sem ég talaði í ræðustól á Alþingi fékk ég sendan tölvupóst: „FRÁBÆRT NICHOLE LEIGH MOSTY!! NÚ ÞURFUM VIÐ AÐ TEXTA ALÞINGISÚTSENDINGU!“ Ég var miður mín, því að ræðan sem ég flutti var yfirfarin ekki einu sinni heldur tvisvar til að tryggja að ég gerði mig ekki að fífli. Ég meira að segja æfði að lesa upp þetta litla ávarp sem var innan við 2 mínútur. Það var ekki orðalag ... það var hreimur. Eins og ég sagði ... að tala með hreim og fá minni gagnrýni fyrir það kemur til að færa okkur sátt í kringum íslensku.
7. Viltu koma einhverju öðru á framfæri?
Kannski bara það að mér finnst þið gera frábæra hluti hjá Árnastofun. Ég er sjálf áskrifandi að Málfregnum og nota reglulega Íslenska nútímamálsorðabók. Ég hef sömuleiðis kennt börnunum mínum sem eru komin á unglingsár að nota vefinn í þeirri viðleitni að finna bestu leiðina til að nota íslensku og finna menningar- og sögutengd íslenskurit. Síðast en ekki síst, því meira sem þið á Árnastofnun hugsið um hlutverk ykkar við að varðveita og þróa íslenskt tungumál í tengslum við okkur sem erum að læra íslensku sem annað mál, og þar að auki á fullorðinsárum, því áreiðanlegri og betri árangri munum við saman ná.