Þróun stöðumats í íslensku sem öðru máli


Færniþrepin A1–C2 innan Evrópska tungumálarammans.

Í byrjun árs 2024 gerðu mennta- og barnamálaráðuneytið og Háskóli Íslands samstarfssamning um þróun rafræns hæfnimiðaðs stöðumats í íslensku sem öðru máli. Markmiðið með stöðumatinu er að einfalda og samræma mat á íslenskukunnáttu þeirra sem eru að læra málið og auðvelda þeim að nýta þekkingu sína og færni til að taka virkan þátt í samfélaginu.   

Sérfræðingar á sviði annarsmálsfræða, málvísinda og máltækni, auk kennara í íslensku sem öðru máli við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, hafa náið samstarf við sérfræðinga á sviði máltækni við Háskólann í Reykjavík og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Máltæknisamstarfið er hluti af svokölluðum íslensku- og máltæknikjarna og er styrkt af háskóla-, vísinda- og iðnaðarráðuneyti undir yfirskriftinni Samstarf háskóla.  

Evrópski tungumálaramminn

Stöðumat í íslensku verður byggt á Evrópska tungumálarammanum (e. Common European Framework of Reference for LanguagesCEFR).    

Evrópski tungumálaramminn var fyrst gefinn út árið 2001 til að samræma viðmið og staðla lýsingu á markmiðum og árangri í tungumálanámi milli mismunandi landa í Evrópu. Tungumálaramminn hefur verið notaður víða sem grunnur að námskrá, námsefni og námsmati í tungumálakennslu. Í rammanum er sett fram algild lýsing á tungumálafærni á sex stigum, og endurspegla þrepin stigvaxandi færni til að eiga samskipti á viðkomandi tungumáli, bæði í töluðu og rituðu formi (A1, A2, B1, B2, C1, C2).

Þrepaskipt hæfnilýsing í íslensku  

Þar sem lýsing Evrópska tungumálarammans á að rúma öll tungumál þá er hún almenns eðlis og segir einkum til um hvaða aðstæður og samskipti fólk ræður við á hverju færnistigi. Þar sem lýsingin er þannig samræmd og óháð einstökum málum þarf síðan að útfæra stigin sérstaklega í hverju tungumáli fyrir sig.   

Hér er um að ræða umfangsmikla rannsóknarvinnu við að ákvarða hvaða málsértæka kunnátta og færni í íslensku tilheyri hverju færniþrepi innan rammans (A1–C2), en lögð verður sérstök áhersla á A2–B2. Verkefnið felst í að skilgreina öll einstök atriði sem skipta máli í þessu sambandi, í málfræði, hljóðfræði, stafsetningu og orðaforða, sem og almennri ritmálsfærni í íslensku. Huga verður að fyrri rannsóknum í íslensku á hverju sviði fyrir sig, spá fyrir um þá þróun sem vænta má í máltileinkuninni þegar fólk er að læra íslensku, og raða atriðunum á viðeigandi stig innan Evrópska tungumálarammans. Auk þess er stuðst við rannsóknir á skyldum tungumálum og útfærslu rammans í þeim.

Rannsóknarvinna – gagnasöfnun og greining  

Hingað til hefur í rannsókninni verið lögð áhersla á að safna málsýnum frá annarsmálshöfum í íslensku. Á þriðja hundrað sjálfboðaliða hafa lagt gagnasöfnuninni lið með ritunartextum á mismunandi færnistigum. 

Máltæknihluti verkefnisins felst í þróun hugbúnaðar sem greinir sjálfvirkt texta og ákvarðar hvaða færnistigi hann tilheyrir. Þessi vinna mun gagnast við val á lestextum í prófi og við mat á ritun. Jafnframt fást úr máltæknivinnunni mjög nákvæm gögn um einkenni texta á hverju stigi. Þau munu nýtast við lýsingu færnistiganna og þar með við námskrárgerð. 

Áframhaldandi gagnasöfnun fer fram árið 2025 þegar nemendum í Háskóla Íslands verður boðið að þreyta munnleg próf í rannsóknarskyni. Þá verður kortlögð munnleg færni, þróun hljóðkerfistileinkunar og skilningur á mæltu máli.   

Í byrjun árs 2025 verður hafist handa við prófagerðina sjálfa, þ.e. gerð rafrænna stöðuprófa sem meta færni próftaka á stigum A2, B1 og B2 innan Evrópska tungumálarammans. Áætlað er að prófin verði tilbúin til notkunar í lok árs 2025. 

Ávinningurfyrir samfélagið 

Rannsóknarvinna og aðlögun íslensku að Evrópska tungumálarammanum nýtist ekki aðeins við gerð þessa tiltekna stöðumats heldur er markmið verkefnisins einnig að stuðla að samræmi í námi, námskrárgerð, námsefnisgerð, námsmati og kennslu í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum til að skýra þær kröfur sem gerðar eru til annarsmálshafa og fræðsluaðila. Markmiðið er að skapa hnitmiðaða og skýra kennslufræðilega umgjörð um íslensku sem annað mál. 

Starfshópur 

Starfshópur um rafrænt hæfnimiðað stöðumat í íslensku sem öðru máli hefur aðsetur í Eddu. Hann skipa Gísli Hvanndal Ólafsson, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir, Helga Jónsdóttir, Isidora Glišić, Kári Páll Óskarsson, Kolfinna Jónatansdóttir, Marc Daníel Skipstað Volhardt, María Anna Garðarsdóttir, Mirko Garofalo og Sigríður Þorvaldsdóttir.  Starfshóp um máltæknihluta verkefnisins skipa Caitlin Laura Richter, Hinrik Hafsteinsson og Stefán Ólafsson.

Mynd

Vefsíða Evrópuráðsins.

Höfundar

Höfundar greinarinnar eru allir í starfshópi um rafrænt hæfnimiðað stöðumat í íslensku sem öðru máli.

Scroll to Top