Á undanförnum árum hefur framboð á námskeiðum í íslensku sem öðru máli aukist verulega. Sú aukning er í samræmi við hlutfall erlendra landsmanna sem í dag er komið yfir 18% miðað við tölur frá síðasta ári. Gera má ráð fyrir enn frekari aukningu erlendra ríkisborgara á komandi árum til að viðhalda sterkri efnahagsstöðu Íslands. En þeir einstaklingar og fjölskyldur sem sækja hingað til lands bæði til að vinna og búa þurfa á námskeiðum í íslensku sem öðru máli að halda til að geta tekið virkan þátt í daglegu lífi, starfi og frekara námi. Það er öllum til hagsbóta að framboð á slíkum námskeiðum aukist enn frekar til að gera hópi erlendra landsmanna kleift að auka færni sína í íslensku máli sem og menningu. Í tengslum við kennslu íslensku sem annars máls hefur samt lítið sem ekkert verið fjallað um faglegan undirbúning kennara. Í þessari grein verður leitast við að svara mikilvægum spurningum um hlutverk og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál og skorað er á íslensk stjórnvöld til að taka nauðsynleg skref til að viðurkenna kennslu íslensku sem annars máls sem sérstakt fag í íslensku menntakerfi.
Hvert er hlutverk kennara?
Í stuttu máli má segja að kennarar í íslensku sem öðru máli eigi að veita nemendum sínum fyrst og fremst greiðan aðgang að öruggu námsumhverfi. Á sama tíma er hlutverk þeirra að leiða nemendur til að nota íslensku í samskiptum við aðra og bæta færni sína í rituðu og töluðu máli sem og í menningu. Til eru ýmsar aðferðir sem kennarar nota til að auka tungumálafærni hjá nemendum sínum, en það eru margar breytur, eins og aldur, hæfnistig, menningarlegur bakgrunnur og persónulegar aðstæður nemenda sem hafa áhrif bæði á kennsluna og hvernig nemendur læra. Því er mikilvægt fyrir kennara á þessu sviði að búa yfir ýmiss konar faglegri hæfni til að geta kennt nemendum með ólíkan bakgrunn.
Hver er faglegur undirbúningur kennara í íslensku sem öðru máli?
Hér á landi hefur lengi vantað þróun og samstarf á opinberum vettvangi til að bjóða upp á faglegan undirbúning kennara í íslensku sem öðru máli á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu. Þegar litið er til annarra þjóða á Norðurlöndunum þá er til dæmis hægt að sækja sérhæfða menntun annars máls kennara í Svíþjóð fyrir öll skólastig og fullorðinsfræðslu. Þar í landi varð sænska sem annað mál sérstök grein þegar á sjöunda áratug síðustu aldar og formlega viðurkennd aðeins nokkrum árum síðar. Miðstöð sænsku sem annars máls var stofnuð 1998 einmitt til að styðja, þróa og rannsaka kennslu og hæfni kennara. Sérfræðingar ásamt stjórnvöldum þar í landi unnu saman að innleiðingu þessarar akademísku faggreinar til að veita öllum greiðan aðgang að menntun á þessu fagsviði. En hér á landi hafa sambærilegar aðgerðir látið bíða eftir sér, sérstaklega á sviði fullorðinsfræðslu, þrátt fyrir fjölda erlendra einstaklinga. Þó er óhætt að segja að ýmiss konar námskeið í íslensku sem öðru máli hafa lengi verið í boði, meðal annars á vegum Háskóla Íslands (sjá námskeið og námsleiðir í kennsluskrá HÍ). Það sem vantar er að bjóða upp á heildstæða akademíska menntun fyrir starfandi kennara sem nú þegar kenna á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu og einnig fyrir þá sem vilja sérhæfa sig í þessari kennslu til framtíðar. Fjöldi kennara sem þegar kenna íslensku sem annað mál hér á landi er þegar mikill en nákvæmar tölur liggja ekki fyrir. Sumir þeirra eru með sérhæfða menntun og aðrir komnir með góða reynslu af kennslu á þessu sviði, en enn eru margir aðrir sem e.t.v. myndu gjarna þiggja frekari menntun til að bæta kennsluhæfni sína á þessu sérsviði.
Hvaða hæfni eiga kennarar að búa yfir?
Hér er um að ræða bæði fjölþætta fagtengda hæfni, sem tengist fyrst og fremst skilningi á málfræðilegri uppbyggingu og máltileinkun íslensku sem annars máls, og hæfni í almennri kennslufræði barna, ungmenna og fullorðinna. Enn fremur er nauðsynlegt að kennarar búi yfir skilningi á félagslegum og einstaklingsbundnum þörfum nemenda sinna sem oft flytja til Íslands úr misjafnlega flóknum aðstæðum. Fagleg hæfni kennara felst einnig í því að hafa góðan skilning á sögu og menningu landsins, sem og áhuga og þekkingu á hinum fjölbreyttu menningum og tungumálum nemendanna. Þannig er hægt að þróa ákveðna millimenningarfærni til að geta betur sinnt nemendum með ólíkan mála- og menningarbakgrunn. Opinber lýsing á fagtengdri hæfni og samsvarandi viðmiðum kennara í íslensku sem öðru máli er þó enn ekki til hérlendis. Til að tryggja faglega gæðamenntun kennara íslensku sem annars máls, sem og til að bjóða upp á nauðsynlegan stuðning handa öllum þeim sem læra íslensku sem annað tungumál, þarf m.a. að móta skýran hæfniramma fyrir sérhæfða menntun nýrra kennara annars vegar og endurmenntun starfandi kennara hins vegar.
Rannsókn um hæfni kennara
Á undanförnum árum hafa þónokkrar ráðstefnur, málþing og málstofur í þágu kennslu íslensku sem annars máls verið skipulagðar hér á landi. Sameiginlegt markmið þeirra var að bregðast við ákalli samfélagsins um mikilvægi kennslu í íslensku sem öðru máli annars vegar og að skapa vettvang til umræðu og stefnumótunar á því sviði hins vegar. Í sambandi við það hafa höfundar greinarinnar hafið rannsókn sem varðar kennsluhætti og hæfni kennara í íslensku sem öðru máli sem nú stendur yfir. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt: (a) að kortleggja stöðu og þarfir starfandi kennara; (b) að kanna þau úrræði eða þann stuðning sem kennarar þurfa á að halda til að geta þróað sig áfram í starfi sínu. Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast við undirbúning námskeiða í kennaranámi í íslensku sem öðru máli á háskólastigi og við skipulagningu endurmenntunar starfandi kennara. Einnig verður hægt að nota niðurstöðurnar til að leggja grunn að stefnumótun um kennaranám og rannsóknir á þessu sviði, sem og að móta gæðaviðmið og stuðla að frekari viðurkenningu á starfi kennara í íslensku sem öðru máli hér á landi.
Opinbera stefnu vantar
Eins og fram kemur hér að ofan er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að gera íslensku sem annað mál að viðurkenndri námsgrein og tryggja um leið heildstæða menntun kennara. Þannig má stuðla að sem öruggustu námsumhverfi fyrir fjölbreytta hópa. Um viðurkenningu kennslu íslensku sem annars máls sem sérstaks fags í íslensku menntakerfi er einnig fjallað í ályktun um íslensku sem annað mál sem gefin var út eftir málþingið Íslenska sem annað mál – inngilding og fjölmenning í framhaldsskólum, sem haldið var í Menntaskólanum á Ísafirði í júní síðastliðnum.
Heimildir
Eiríkur Rögnvaldsson. (2025). Hækkun fjárveitinga til kennslu í íslensku sem öðru máli.
Hagstofa Íslands. (2024). Mannfjöldi.
Háskóli Íslands. (e.d.). Kennsluskrá.
Kennarasamband Íslands. (2025). Ályktun málþings um íslensku sem annað mál, inngildingu og framhaldsskólann Menntaskólann á Ísafirði 2.–3. júní 2025.
NAFO (2025). Information on Iceland – Nordic languages as second languages. OsloMet.
Tingbjörn, G. (2004). Svenska som andraspråk i ett utbildningspolitiskt perspektiv – en tillbakablick. Í Kenneth Hyltenstam og Inger Lindberg (ritstj.), Svenska som andraspråk – i forskning, undervisning och samhälle. Lund: Studentlitteratur.
Viðskiptaráð Íslands. (2024). Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf – H1 2024.
Mynd
Taylor Flowe. Unsplash.



