Um málheim íslenskra læknanema í Slóvakíu


Undanfarna áratugi hefur færst í vöxt að íslensk ungmenni leggi stund á læknisfræði í útlöndum og oft við evrópska háskóla. Margir Íslendingar hafa á síðustu árum numið við Comenius-háskólann í Slóvakíu en hann býður upp á nám í læknisfræði á ensku. Vorið 2024 fóru tveir starfsmenn Árnastofnunar í vettvangsferð þangað og ræddu við fulltrúa háskólans og nemendur um reynslu þeirra af dvölinni, um samskipti, tungumálanám, félagslíf og aðlögun að slóvakísku samfélagi.  

Alþjóðlegt nám á ensku 

Undanfarin ár hafa um 200 Íslendingar stundað nám við Comenius-háskólann. Læknadeild hans er staðsett í Martin, 54.000 manna bæ í um það bil 230 km fjarlægð frá höfuðborginni Bratislava. Skólinn hefur boðið upp á alþjóðlegt nám frá árinu 1992 en fyrstu íslensku nemarnir innrituðust í skólann árið 2012. Námið tekur samtals sex ár sem þýðir að nemendur hafa töluverðan tíma til að kynnast slóvakísku samfélagi. Nemendur koma víða að en langstærstu hóparnir eru frá Íslandi og Noregi eða um 200 nemendur frá hvoru landi fyrir sig.  

Námið í læknadeildinni fer allt fram á ensku. Námsgögn eru á ensku og sömu sögu er að segja um öll samskipti við samnemendur, kennara og aðra starfsmenn háskólans. Í samtölum við nemendur kom fram að í þessu fælist vissulega áskorun. Íslensku nemarnir eru flestir tiltölulega nýútskrifaðir úr framhaldsskóla og því ekki vanir að lesa þunga, fræðilega texta á ensku sem þar að auki innihalda fjölda latneskra íðorða. Það er stórt stökk að koma úr íslenskum framhaldsskóla og fara beint yfir í að stunda háskólanám á ensku. Nemendur eru sammála um að fyrsta árið sé frekar strembið og að þeir hafi þurft að leggja sig alla fram við að komast yfir námsefnið og skilja það. Þar með er heldur ekki öll sagan sögð því að á fyrsta og öðru ári er lögð mikil áhersla á að kenna öllum erlendum nemendum slóvakísku. En þrátt fyrir fjölda tungumála sem íslenskir nemar þurfa að fást við í læknadeildinni segja aðstæður til náms vera góðar og að vel sé hugsað um nemendur skólans.    

Skyldunám í slóvakísku 

Til að tryggja að læknanemar geti átt í samskiptum við sjúklinga þegar þeir fara í starfsnám á sjúkrahúsi bæjarins á þriðja ári þurfa nemar að leggja talsverða vinnu á sig til að læra slóvakísku. Hóparnir mæta í kennslustund tvisvar í viku og er aðaláherslan lögð á að læra hagnýtan orðaforða. Kennsluefni sem stuðst er við er sérstaklega útbúið fyrir nemendur deildarinnar og orðaforði sniðinn að þörfum þeirra. Í bókunum er til dæmis lögð áhersla á samtöl lækna og sjúklinga þar sem farið er yfir orð yfir sjúkdóma og einkenni þeirra. Nemendur voru almennt ánægðir með námið en töluðu um að slóvakíska væri flókin og að oft væri erfitt að skilja svör sjúklinga ef þau væru ekki stutt, stöðluð og fyrirsjáanleg. Auðvelt væri að þylja upp spurningar sem þau höfðu lært í kennslubókum en oft þyrfti að leysa margvísleg vandamál eða misskilning í samskiptum við sjúklinga og samstarfsfólk.  

Hversdagsleg samskipti 

Í samtali við nemendur kom fram að áhersla skólans á að kenna í slóvakískunáminu eingöngu orðaforða í heilbrigðisfræðum kæmi að einhverju leyti niður á daglegum samskiptum. Lítil áhersla væri lögð á að kenna daglegt mál. Íslensku nemarnir reyna þó flestir að nota slóvakísku í einföldum samskiptum, t.d. í verslunum, veitingastöðum og börum.  

Í samtali við starfsfólk háskólans kom fram að margir nemendur frá Íslandi væru óvenjulegir að því leyti að þeir legðu sig sérstaklega fram við að nota slóvakískar kveðjur og kurteisisfrasa. Þetta kynnu heimamenn vel að meta. Nemendur sögðu einnig frá því að sumt starfsfólk á skrifstofu skólans væri með ensk-íslenskar vasaorðabækur við höndina til að geta spreytt sig á orðum og spurningum á íslensku. Það virðist því ríkja gagnkvæmur áhugi hjá nemendum og starfsfólki á að láta samskiptin ganga vel. Til undantekninga heyrir að íslensku læknanemarnir verði altalandi á slóvakísku en þó eru dæmi þess að einhverjir hafi ílengst í landinu og aðlagast slóvakísku samfélagi. 

Í frítíma sínum sækja íslensku nemendurnir meðal annars bari og veitingastaði þar sem þeir geta hist og talað saman á íslensku. Sums staðar hafa starfsmenn lært einfalda frasa á íslensku og ávarpa gesti með „góðan daginn“! Þegar starfsmenn Árnastofnunar mættu til Martin og pöntuðu sér hádegismat fyrsta daginn voru þeir til dæmis strax spurðir hvort þeir væru frá Íslandi. Greinilegt er að íslensku læknanemarnir hafa sett mark sitt á bæinn.  

Knæpan Kocúr er vinsæl meðal íslenskra læknanema í Martin en í sama húsi er einnig ræðismannsskrifstofa Íslands.

Íslendingar halda hópinn 

Nemendur alþjóðlegu læknadeildarinnar í Martin flokkast almennt í hópa eftir því hvaða tungumál þeir tala og lítil samskipti eru við læknanema frá Slóvakíu sem stunda nám á sínu móðurmáli. Augljóst var að íslensku nemendurnir höfðu mjög sterka tilhneigingu til að halda hópinn alveg eins og þeir norsku og lítil blöndun var á milli Íslendinga og annarra Norðurlandabúa. Þetta er í samræmi við niðurstöður Blake Hendrickson sem hefur skoðað atferli háskólastúdenta. Nemendur sækjast í samlanda sína til að mynda öryggisnet í nýju landi.  

Þótt yfirleitt séu lítil samskipti á milli innlendra og erlendra nema Comenius-háskólans og á milli þeirra sem tala ólík tungumál fundu nemendur sér ýmsar leiðir til að bæta úr því. Nemendafélag skólans skipuleggur árlega stór og vinsæl íþróttamót sem ætluð eru til að hrista saman nemendur úr ólíkum áttum. Margir íslenskir nemendur æfa handbolta, fótbolta, blak eða körfubolta með slóvakískum liðum í og í kringum Martin og komast þannig í tengsl við heimamenn.

Eitt fjölmargra íslenskra liða á árlegu knattspyrnumóti læknadeildar skólans, Meniscus Cup.

Þegar heim er komið 

Nemendur sem við ræddum við höfðu orð á því að þó að námið færi fram á ensku og samskiptin við sjúklingana væru á slóvakísku væru þeir alltaf með það á bak við eyrað að í framtíðinni þyrftu þeir að geta tjáð sig við sjúklinga á íslensku. Einnig er algengt að nemendur í Martin komi á sumrin til Íslands til að vinna á sjúkrastofnunum. Bentu þeir á að mögulega gætu komið upp vandamál í framtíðinni hvað þetta varðar því að ekki væri gert ráð fyrir íslensku í læknisfræðináminu. Þó kom í ljós að íslensku nemarnir hefðu ýmsar leiðir til að bæta úr þessu. Til dæmis virtust þau öll þekkja mjög vel til Íðorðasafns lækna og samkvæmt viðmælendum okkar var málið.is og Íðorðabankinn, sem eru á vegum Árnastofnunar, meðal mest sóttu vefjanna á stúdentagörðunum í Martin.

Þakkir 

Vettvangsrannsóknin var fjármögnuð af evrópska samstarfsverkefninu NoTALaT.  

Heimildir 

Heilbrigðisráðuneytið. Íslenskir læknanemar í Slóvakíu. 18. nóvember 2022.  

Hendrickson, Blake. 2018. Intercultural connectors: Explaining the influence of extra-curricular activities and tutor programs on international student friendship network development. International Journal of Intercultural Relations, 63, 1–16.  

Íðorðasafn í læknisfræði. Íðorðabankinn. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Málið.is. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Höfundar

Branislav Bédi er verkefnisstjóri á íslenskusviði Árnastofnunar. Hann hefur m.a. umsjón með kennslu nútímaíslensku við erlenda háskóla og er fulltrúi Íslands í kennslu og útbreiðslu Norðurlandafræða erlendis. Helga Hilmisdóttir er sviðsstjóri íslenskusviðs Árnastofnunar. Hún hefur áhuga á hversdagslegum samtölum og er sérfræðingur í orðunum 'sko' og 'nú'. Og hananú!

Scroll to Top