Athuganir á mállandslagi á Akureyri 


Mállandslag – hvað er það?

Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvernig og hvers vegna mismunandi tungumál eru notuð á skiltum sem þú rekst á í þínu daglega lífi? Ef svo er, þá hefur þú verið að velta fyrir þér spurningum sem snúa að því sem hefur verið kallað mállandslag eða linguistic landscape á ensku. Mállandslagsfræði er vaxandi fræðasvið á alþjóðavísu. Rannsóknirnar eru í eðli sínu þverfaglegar og beinast að tungumálum eins og þau birtast okkur sjónrænt í umhverfinu, t.d. á upplýsingaskiltum.  

Fræðimenn sem fengist hafa við rannsóknir á mállandslagi hafa velt upp ýmsum spurningum sem snúa að málpólitík og fjöltyngi. Mállandslag í ákveðnu rými getur til dæmis sagt sína sögu um staðinn: hverjir sækja þetta rými og í hvaða tilgangi? Hverjir eru sýnilegir í almenningsrýminu og skilja eftir sig spor í umhverfinu og hverjir ekki? Áhugavert getur verið að velta upp þessum spurningum bæði á fjölsóttum svæðum í þéttbýli og á jaðarsvæðum þar sem færri fara um. Mállandslag á Íslandi hefur lítið verið rannsakað fram að þessu og það vakti áhuga okkar, ekki síst í ljósi opinberrar umræðu um að enska sé að taka yfir í almannarými.  

Skilti á Akureyri rannsökuð 

Í rannsókn okkar beindum við sjónum að mállandslagi í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð sem er í Þorpinu á Akureyri. Staðurinn sem um ræðir er jaðarsettur á ýmsan hátt, meðal annars þar sem hann er staðsettur utan miðbæjarins á Akureyri. Eins og algengt er í rannsóknum á mállandslagi byggðum við okkar greiningu á ljósmyndum. Við tókum myndir af skiltum með nöfnum fyrirtækja eða upplýsingum um opnunartíma og handskrifuðum miðum með upplýsingum fyrir viðskiptavini. Við höfðum áhuga á að komast að því hvaða tungumál sjást í Sunnuhlíð, hvaða hlutverki skiltin gegna og hvers konar tilfinningu þessi sjónræna notkun tungumála skapar.

Niðurstöður frá Akureyri 

Niðurstöður rannsóknarinnar í Sunnuhlíð sýna að íslenska er það tungumál sem mest er notað og flest skiltin eru eingöngu á íslensku. Þetta á við um allar gerðir skilta: skilti sem sýna nafn fyrirtækis, leiðbeiningarskilti (t.d. Lyfta) og skilti með upplýsingum til viðskiptavina.  

Ensku bregður líka fyrir í Sunnuhlíð en dæmin eru fá. Í slíkum tilvikum er aðallega um viðbótarupplýsingar að ræða þar sem upplýsingum á ensku er bætt aftan við texta á íslensku. Sem dæmi má nefna upplýsingar um opnunartíma verslana sem birtast bæði á íslensku og ensku. Eitt dæmi var um skilti á þremur tungumálum en þar var um pólska matvöruverslun að ræða (sjá mynd). Að öðru leyti voru önnur tungumál ekki sjáanleg í mállandslagi Sunnuhlíðar. Í stuttu máli má draga niðurstöðurnar saman á þann veg að skiltunum í verslunarkjarnanum er fyrst og fremst beint að íslenskumælandi gestum.  

Niðurstöðurnar verða enn skýrari þegar þær eru  bornar saman við niðurstöður rannsóknar á öðrum stöðum í bænum. Í nýrri rannsókn sem nú stendur yfir beinum við kastljósinu að skiltum í miðbæ Akureyrar. Í frumniðurstöðum má sjá að þótt íslenska sé mest áberandi tungumálið þar um slóðir er notkun ensku meiri en í Sunnuhlíð. Einnig má sjá að enskunotkunin tengist einkum ferðamannastöðum og fyrirtækjum sem þjónusta ferðamenn.  

Þegar litið er til fyrirtækjaheita má sjá ákveðna tilhneigingu til að nota ensku á skapandi hátt. Íslensk heiti eru hins vegar notuð til að sýna trúverðugleika og ábyrgð. Mállandslagið endurspeglar þannig flókið samspil tungumála og gefur vísbendingar um stöðu þeirra í íslensku samfélagi.

Lokaorð

Þótt skiltin á Akureyri séu bæði á íslensku, ensku og öðrum tungumálum er íslenska enn mest áberandi í almenningsrými. Mállandslagið í Sunnuhlíð og miðbænum er þó að einhverju leyti ólíkt. Munurinn endurspeglar þau tungumál sem notuð eru í þessum rýmum og hverjir eiga þar leið um. 

Þegar litið er til rýmanna sem til skoðunar voru og hugsanlegra lesenda skiltanna koma niðurstöður rannsóknarinnar kannski ekki á óvart. Þó má segja að sterk staða íslensku sýni að enska hafi ekki tekið yfir í mállandslagi bæjarins þrátt fyrir mikla umræðu í þá veru á undanförum árum. Ekki er hægt að greina tilganginn með því að velja viðkomandi tungumál út frá skiltunum einum saman. Í næstu rannsókn munum við því ekki síst beina athyglinni að þeim sem standa á bak við skiltin og sjónarmiðum þeirra.  

Allir geta fylgst með mállandslaginu í sínu umhverfi. Með því að hafa augun opin og velta fyrir sér textum sem verða á vegi okkar getum við lært ýmislegt um tungumál í samfélaginu.

Heimild

Huhtamäki, Martina & Syrjälä, Väinö. 2024. Íslenska til alls – nästan: Det lingvistiska landskapet i ett litet isländskt köpcentrum. Orð og tunga 26: 29–56. https://doi.org/10.33112/ordogtunga.26.3 

Mynd

Martina Huhtamäki 

Þýðing úr ensku

Helga Hilmisdóttir

Höfundar

Väinö Syrjälä, PhD, er háskólakennari í sænsku við Södertörn-háskólann í Stokkhólmi. Rannsóknarsvið hans eru mállandslagsfræði og félagsfræðilegar rannsóknir á nöfnum í borgum. Martina Huhtamäki, PhD, dósent, er háskólakennari við Háskólann í Helsinki. Rannsóknarsvið hennar eru meðal annars tökuorð í norrænum málum, samtalsgreining og mállandslagsfræði.

Scroll to Top