Skýrt lagamál


Haft er eftir bandaríska djasstónlistarmanninum Charles Mingus (1922–1979) að það sé ósköp hversdagslegt að flækja einfalda hluti, en hins vegar kalli það á frumleika og sköpun að gera hið flókna ofureinfalt. Hér er reyndar ekki ætlunin að ræða um skýrleika í djasslögum, heldur í annars konar lögum.

Charles Mingus, 4. júlí 1976.

Allir jafnir fyrir lögum 

Í 65. grein íslensku stjórnarskrárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Þá hlýtur að vera keppikefli í heilbrigðu lýðræðissamfélagi að borgararnir geti án mikillar fyrirhafnar skilið opinbera texta á borð við lögin, sem geyma ákvæði um réttindi og skyldur fólks. Samt getur verið allur gangur á því hve vel almenningi gengur að skilja tungutak laganna og innihald þeirra, og fólk hefur jafnvel upplifað að það geti verið talsverð gjá milli hversdagslegs málfars og lagamálsins. 

Alþjóðleg samtök sem kallast Clarity bera skýrleika í lagamáli sérstaklega fyrir brjósti. Það gera einnig önnur stór alþjóðasamtök, PLAIN (Plain Language Association International) sem jafnframt vinna að því að vekja athygli á mikilvægi skýrs og skiljanlegs málfars í opinberum textum af öllu tagi. Þar á bæ hefur hugtakið skýrt mál verið útskýrt á þá leið að texti geti talist skýr ef orðalag, setningaform og framsetning er nægilega ljós til að auðvelt sé að finna í honum þær upplýsingar sem lesandinn er á höttunum eftir, og þannig að hann geti skilið þær og notað þær. Árið 2023 gaf alþjóðlega staðlastofnunin ISO í fyrsta sinn út sérstakan staðal um skýrt mál, og þar er einmitt byggt á þessum sömu meginatriðum: finna, skilja, nota.

Íslensk rannsókn á skilningi almennings á lagaákvæðum 

Hérlendis var gerð athugun 2016–2017 sem miðaði að því að kanna skilning íslenskra borgara á dæmigerðum íslenskum lögum, sem og viðhorf þeirra og upplifun af lestri laga. Fram að því höfðu litlar sem engar rannsóknir verið gerðar á því hvernig fólki gengi að skilja íslensk lagaákvæði.  

Athugunin skiptist í forrannsókn 2016 með 17 þátttakendum og framhaldsrannsókn árið eftir með 29 þátttakendum. Rannsóknirnar nutu styrkja úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Rannsóknasjóði HÍ. Í forrannsókninni komu þátttakendur úr röðum háskólanema (engir laganemar þó), en í framhaldsrannsókninni voru þátttakendur fæddir á árunum 1948–2000, og áttu þeir að baki mjög mislanga skólagöngu. Allir höfðu íslensku að móðurmáli.  

Rætt var við þátttakendurna einn í einu, lagðar fyrir þá spurningar og kannaður skilningur þeirra á efni tiltekinna lagatexta. Þar var annars vegar um að ræða hluta úr erfðalögum nr. 8/1962 og hins vegar úr barnalögum nr. 76/2003. Sem dæmi má taka eftirfarandi textabrot: 

„Nú á sá maki, sem lengur lifir, enga erfingja á lífi, er hann andast, og ganga eigur hans þá til erfingja skammlífara makans.“  

„Dómsmál um faðerni barns er unnt að höfða hér á landi ef:  

a. aðili er búsettur hér á landi,   

b. dánarbú stefnda er eða hefur verið til skipta hér á landi,  

c. barn er búsett hér á landi.“ 

Í viðtölunum voru þátttakendur spurðir efnislegra spurninga úr viðkomandi lagagreinum en einnig var ýmislegt annað athugað. Meðal annars var fólk spurt út í fyrstu viðbrögð sín og upplifun af lestri textans, og hvernig það teldi sér hafa gengið að skilja hann. Þá var líka meðal annars spurt út í hvort einhver setning, orð eða málsgrein væri sérlega torskilin, og hvernig væri hægt að bæta úr, og hvert fólk myndi leita ef það væri í vafa um merkingu lagatexta.  

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að fullorðið fólk með íslensku að móðurmáli ætti ekki í neinum verulegum vandræðum með að skilja megininntak lagagreinanna. Það vakti þó vissa athygli að nokkuð bar á því að þátttakendur virtist skorta sjálfstraust eða fullvissu, þ.e. að fólk átti til að vantreysta eigin (yfirleitt hárrétta) skilningi á því sem það las svart á hvítu.  

Setningaskipan virtist ekki valda miklum vanda á heildina litið en þó komu fram dæmi um að framsetningu lagaákvæðanna hefði mátt bæta að mati viðmælenda, t.d. með fleiri punktum til að aðgreina setningar og þá færri kommum og samtengingum. Það sem annars virtist helst geta truflað skilning á textunum voru tiltekin orðasambönd, fágæt orð og ákveðin sérfræðihugtök. Dæmi: vefenging, niðji, varnarþing, yfirlögráðandi. Þar var gjarna um að ræða leifar eldri orðaforða og íðorð, sem yfirleitt má nálgast skýringar á í aðgengilegum orðabókum og gagnasöfnum á netinu, t.d. Lögfræðiorðasafninu í Íðorðabanka Árnastofnunar.   

Sem dæmi um viðbrögð við lagatextunum má nefna eftirfarandi brot úr einu viðtalanna: 

„Sko hérna, til dæmis hérna: Láti stefnandi það undir höfuð leggjast skal málinu vísað frá dómi. Það þýðir bara basically að hann gerir það ekki, skilurðu? En ég skil það, en ég skil hvað það þýðir að segja  undir höfuð leggjast. En það er varla hægt að gera ráð fyrir því að allir viti hvað undir höfuð leggjast þýðir. Því að þetta er bara hérna eitthvað orðatiltæki.“ 

Norræn ráðstefna um lagamál 27. –28. mars 2025 

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar umræðu og athuganir á skýrleika í lagamáli má benda á að dagana 27.–28. mars næstkomandi verður haldin á netinu (Zoom) ókeypis norræn ráðstefna um efnið „Þegar við rekumst á lagamálið í daglegu lífi“ (När vi möter juridiskt språk i vardagen). Ráðstefnunni er streymt frá Finnlandi. Hún er hluti ráðstefnuraðar á vegum norræns samstarfshóps um skýrt og skiljanlegt málfar sem Árnastofnun á aðild að.  

Sjá nánar hér: https://sprakinstitutet.fi/klarsprak-2025/ 

Skráning fer fram hér: https://www.lyyti.fi/reg/Klarsprakskonferens_2025_2677

Heimildir 

Ari Páll Kristinsson, Birgitta Guðmundsdóttir, Olga M. Cilia og Sigrún Steingrímsdóttir. 2022. Skilur almenningur íslenskt lagamál? Orð og tunga 24: 57–86.  

Clarity International. Án árs. https://clarity-international.net/about.html 

ISO 24495-1 Plain Language – governing principles and guidelines. Fyrsta útgáfa, júní 2023.  

Lögfræðiorðabók: Vefútgáfa 2019 endurbætt og aukin frá 1. útgáfu. Höfundaréttur 1. útgáfu sem birtist í prentuðu formi er Bókaútgáfa Codex og Lagastofnun. Ritstjóri Páll Sigurðsson prófessor. 

 PLAIN. Án árs. https://plainlanguagenetwork.org/ 

Mynd

Tom Marcello.  Wikipedia.

Höfundur

Dr. Ari Páll Kristinsson er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann hefur m.a. rannsakað málstefnu, breytileg málsnið og eðli og áhrif málstýringar og vísandi málfræði.

Scroll to Top