Blótsyrði í alþjóðlegum heimi


Nýlega var haldið málþing í Helsinki þar sem helstu sérfræðingar Norður-Evrópu í blótsyrðum hittust og kynntu nýjustu rannsóknir á þessu sviði. Meðal umræðuefna á þinginu var mikil notkun enskra blótsyrða á borð við fuck og shit í ýmsum evrópskum tungumálum. Hér verður tæpt á því helsta sem um var rætt.

Hvað eru blótsyrði? 

Ekki eru allir á einu máli hvernig skilgreina skuli blótsyrði en í blótsyrðarannsóknum er oft stuðst við eftirfarandi skilgreiningu sem rekja má til félagsmálfræðinganna Anderson og Trudgill. Samkvæmt þeim eru blótsyrði orð sem a) samfélagið bannar eða telur vera óæskilegt, b) eru ekki notuð í bókstaflegri merkingu, og c) eru notuð til að tjá sterkar tilfinningar. Stundum eru mörkin á milli blótsyrða og skammaryrða óljós eins og t.d. þegar notuð eru orð og frasar á borð við helvítið þitt eða tussa!

Orðaforðinn sem notaður er sem blótsyrði tengist ákveðnum merkingarsviðum, sérstaklega trú, líkamsstarfsemi, kynlífi, sjúkdómum og fötlun. Sum tungumál sækja meira í ákveðin merkingarsvið fremur en önnur. Til dæmis eru hefðbundin íslensk blótsyrði yfirleitt sótt í trú og trúarlíf. Þar má nefna upphrópanir á borð við andskotans, helvítis og Guð minn almáttugur.  

Nú á dögum eru ekki allir sammála um að upphrópanir á borð við Guð minn góður eða Jesús Kristur teljist til blótsyrða. Áður fyrr höfðu slík orð meiri áhrif enda stangast notkun þeirra á við annað boðorðið þar sem kveðið er á um að ekki skuli leggja nafn Drottins við hégóma.  

Blótsyrði eru miskraftmikil auk þess sem munur getur verið á því hvernig hver og einn upplifir ákveðin orð eða frasa. Þegar við blótum á íslensku getum við gripið til kraftmikilla blótsyrða á borð við djöfulsins en einnig eru til vægari orð á borð við fjárinn og skrambinn. Svo eru til enn vægari orð á borð við ansans og ansi sem samkvæmt Orðsifjabók er stytting á orðinu andskoti. Nú á dögum telja sennilega fæstir Íslendingar að þeir séu að blóta þegar þeir segja að veðrið hafi verið „ansi gott“. Á undanförnum áratugum hefur svo verulega færst í aukana að Íslendingar noti blótsyrði sem fengin eru að láni úr ensku, sérstaklega fokk og sjitt.

Af hverju blótum við?

Í fræðilegri umfjöllun um blótsyrði hafa eftirfarandi ástæður verið nefndar sem ástæður fyrir því að við blótum:

Við notum blótsyrði til að ... 

  • fá tilfinningalega útrás
  • auðvelda okkur við að takast á við verki
  • sækja aukinn styrk við áreynslu
  • tjá sterkar tilfinningar
  • fá útrás fyrir reiði gagnvart sjálfum okkur og öðrum
  • móðga og særa aðra
  • slá á létta strengi
  • leggja áherslu á orð okkar
  • styrkja tengsl innan hópa
  • sýna samstöðu og samkennd
  • byggja upp og móta sjálfsmynd okkar

Eins og þessi upptalning sýnir geta blótsyrði endurspeglað bæði jákvætt og neikvætt viðhorf. Við getum til dæmis notað blótsyrði til að tjá vonbrigði þegar við brjótum glas en við getum líka gripið til blótsyrða þegar við erum mjög ánægð með eitthvað. Við getum til dæmis sagt að lagið sem við erum að hlusta á sé „andskoti gott“ og að það hafi verið svo „helvíti gaman“ í gær. 

Rannsóknir hafa sýnt að fjöltyngdir einstaklingar blóti meira þegar þeir nota móðurmálið, eða á því tungumáli sem þeir lærðu fyrst, fremur en þegar þeir tala önnur tungumál sem þeir læra síðar á lífsleiðinni. Þegar þeir eru beðnir um að raða blótsyrðum í styrkleikaröð er einnig áberandi að blótsyrði móðurmálsins lenda þar ofan en önnur. Þetta á ekki síður við þegar viðkomandi er mjög fær í hinum tungumálunum.

Notkun blótsyrða úr öðrum tungumálum

Á tímum alþjóðavæðingar er algengt að grípa til blótsyrða úr öðrum tungumálum, ekki síst ensku. Orðið fokk heyrist til dæmis mikið í íslensku talmáli og virðist vera mun algengara en hefðbundin íslensk blótsyrði meðal íslenskra ungmenna. Íslendingar virðast því vera mun frjálslyndari gagnvart blótsyrðum á ensku heldur en á okkar eigin móðurmáli.  

Þótt styrkleiki blótsyrða sem notuð eru í íslensku hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega má draga þá ályktun út frá gögnum að mörgum Íslendingum finnist orð á borð við fokk og sjitt hafa minni kraft en helvítis og djöfulsins. Kristi Beers Fägersten, prófessor í ensku í Svíþjóð, hefur í sínum rannsóknum fjallað mikið um ensk blótsyrði í Skandinavíu. Hún hefur ítrekað bent  á að fjölmiðlar á Norðurlöndunum séu mun frjálslyndari gagnvart orðum á borð við fuck, fucking og shit heldur en fjölmiðlar í enskumælandi löndum. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum ávörpuðu kynnarnir í sænsku undankeppni Eurovision þjóðina með orðunum „Välkommen til Melo-fucking-di-festivalen!“ sem þýða mætti sem „Velkomin í undan-fokking-keppni Eurovision“. Ósennilegt verður að teljast að slíkt hefði verið leyft í svo stórum fjölskylduskemmtiþætti í enskumælandi landi.   

En þótt málhafar upplifi blótsyrði móðurmálsins kraftmeiri en blótsyrði sem fengin eru að láni úr öðrum tungumálum eru niðurstöður sálfræðitilrauna ekki eins afgerandi hvað þetta varðar. Gerðar hafa verið rannsóknir með ósjálfráðum viðbrögðum, til dæmis með rafleiðnimælingum á húð og prófum sem reyna á athygli og viðbrögð þátttakanda. Niðurstöður þessara mælinga hafa verið misvísandi og því ekki hægt að draga miklar ályktarnir út frá gögnum. Hins vegar kom fram skýr munur á viðbrögðum þátttakenda þegar þeir lásu blótsyrði og venjuleg orð sem ekki voru gildishlaðin, burtséð frá því á hvaða tungumáli þau voru.

Fuck you Putin!

Þótt alþjóðavæðing og vinsældir fuck hafi dregið töluvert úr slagkrafti blótsyrðisins má enn skynja ákveðin áhrif. Á blótsyrðaþinginu í Helsinki rýndu Kristy Beers Fägersten og Iryna Pinich í auglýsingaherferð úkraínska tískuhússins Emmelie Delage. Þar notfærðu hönnuðir sér tísku, samfélagsmiðla og blótsyrði til að koma kjarnmiklum skilaboðum á framfæri. Myndir úr herferðinni sýndu fólk í gleðskap sem klætt var í peysu með áletrunni Fuck you Putin! Herferðin sló í gegn og fór sem eldur í sinu um hinn vestræna heim. Græni og bleiki litur peysunnar urðu brátt tákn um ákveðið viðhorf Úkraínubúa og alls heimsins gagnvart árásarstríði Rússa. Velgengni herferðarinnar á alþjóðavísu var ekki síst því að þakka að áletrunin var einmitt á ensku.

Lesa má meira um íslensk blótsyrði í 25. hefti Orðs og tungu

Heimildir 

Anderson, Lars og Peter Trudgill. 1990. Bad Language. Oxford: Basil Blackwell. 

Ásta Svavarsdóttir. 2023. Að blóta á íslensku. Orð og tunga 25:13–41. 

Dewaele, Jean-Mark. 2010. „Christ fucking shit merde!“: Language preferences for swearing among maximally proficient multilinguals. Sociolinguistic Studies 4:595–614. 

Fägersten, Kristy Beers og Karyn Stapleton. 2022. Swearing. Handbook of Pragmatics. Online 25:129–155. doi.org/10.1075/hop.25.swe1. 

Stapleton, Karyn, Kristy Beers Fägersten, Richard Stephens, Catherine Loveday. 2022. The power of swearing: What we know and what we don‘t. Lingua 277. doi.org/10.1016/j.lingua.2022.103406.

Mynd

Kiroileva siili eða broddgölturinn blótandi. Teikning finnska listamannsins Milla Paloniemi.

Höfundur

Helga Hilmisdóttir er sviðsstjóri íslenskusviðs Árnastofnunar. Hún blótar eiginlega aldrei en þegar það kemur fyrir meinar hún það virkilega.

Scroll to Top