Örnefnamál voru í brennidepli á fyrsta degi síðara tímabils Donalds Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Hann lýsti því yfir í ræðu við innsetninguna að hann ætlaði að breyta nafni Mexíkóflóa í Ameríkuflóa (e. Gulf of America) og undirritaði daginn eftir tilskipun þess efnis.

Alþjóðasamstarf í örnefnamálum
Á alþjóðavísu vinna ýmsar stofnanir að því að stuðla að samræmi og stöðugleika í örnefnum. Í mörgum tilvikum er um flókin mál að ræða þar sem taka þarf mið af ýmsum sjónarmiðum. Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar sérfræðingahópur um örnefni (United Nations Group of Experts on Geographical Names, skammstafað UNGEGN). Meðal annars styður hópurinn við samræmingarstarf í einstökum ríkjum með upplýsingum og ráðgjöf og hvetur til þess að farið sé eftir ákvörðunum ríkja um örnefni á svæði þeirra. Hafsvæði liggja auðvitað oftar en ekki að fleiri en einu ríki og því verða gjarnan deilur um nafngiftir þeirra. Ein þekktasta deila af þessu tagi snýr að hafinu á milli Kóreuskaga og Japans sem Japanir nefna Japanshaf en Suður-Kóreumenn kalla Austurhaf.
Innan Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (e. International Hydrographic Organization) í Mónakó hefur lengi verið unnið að því að samræma heiti á höfum og stuðla að því að sem flestir noti sömu nöfn. Allt frá fyrstu útgáfu leiðbeiningakorts þeirra frá 1928 hefur Mexíkóflói heitið svo og er ólíklegt að það breytist. Engin skynsamleg rök eru fyrir breytingunni í Ameríkuflóa, gerningurinn sprettur af drambi stórveldis. Víst er að viðleitni ríkja til að vinna saman að úrlausn örnefnamála yrði sett í uppnám ef nafngift eins og Ameríkuflói yrði tekin upp í alþjóðleg viðmið á grundvelli yfirgangssemi eins ríkis. Líklegast er því að nafnið Ameríkuflói verði einungis notað í Bandaríkjunum.
Nöfn á höfunum umhverfis Ísland
Ísland er reyndar dæmi um ríki sem nefnir aðliggjandi höf öðrum nöfnum en flestir aðrir og kynnu sumir að skýra það með vísun til yfirgangssemi annarra gagnvart Íslandi. Hér er hafið vestur af Íslandi nefnt Grænlandshaf og hafið austur landinu, á milli Íslands og Noregs, nefnt Íslandshaf. Hvorug nafngiftin er viðurkennd alþjóðlega þrátt fyrir að nöfnin eigi sér langa sögu sem skjalfest er í fornritum og hafa örugglega tíðkast almennt meðal norrænna manna til forna. Danir nefndu Grænlandshaf á 19. öld Irmingerhaf eftir danska sjóliðsforingjanum Carl Ludvig Christian Irminger (1802–1888). Tilefnið var rannsóknir hans á hafstraumum, en meðal annarra afreka sem rakin eru í æviskrá hans er að kveða niður þrælauppreisnir í nýlendum Dana. Fyrir það heiðruðu plantekru- og þrælaeigendur í dönsku Vestur-Indíum hann með „en værdiful Guldæressabel“ (DBL VIII, 318). Nafnið Grænlandshaf hefur nú fest við hafsvæðið austur af Grænlandi og norður af Íslandi. Íslandshaf er nú almennt nefnt Noregshaf, en það nafn vildu Norðmenn festa við allt svæðið á milli Noregs og Grænlands.
Þriðja nafngiftin sem hér er um að ræða er heitið á svæðinu á milli Grænlands og Vestfjarða, Grænlandssundi, sem á alþjóðavísu er nefnt Danmerkursund (da. Danmarksstrædet, e. Denmark strait, fr. Dédroite de Danemark). Ekki er vitað til þess að Grænaldssund sé nefnt í íslenskum fornritum en það er áreiðanlega gamalt. Elsta dæmi sem höfundi er kunnugt um er í riti á frönsku frá 18. öld („Dédroit de Groenland“) (dæmið fundið á frönsku Wikipedia-síðunni).

Á kortinu sjást hin nýju nöfn á höfunum í kring um Ísland.
Líkt og greint verður frá hér rétt á eftir gerðu íslensk stjórnvöld tilraun árið 1935 til að fá nöfnunum breytt og liggja gögn um þá málaleitan í skjalasafni örnefnanefndar í Árnastofnun. Áður en sú saga verður rakin stuttlega er við hæfi að vitna í afrit af bréfi eða skýrslu frá 1951 eftir Jón (Norðmann) Dúason sem lét sig málefni Grænlands mjög varða. Skjalið liggur með fyrrnefndum gögnum í skjalasafninu en er ritað löngu síðar. Í skýrslunni færir Jón rök fyrir íslensku nöfnunum:
Það er almenn íslenzk og fornnorræn regla, að kenna haf við landið, sem siglt er til, t.d. Íslandshaf (gefið frá Noregi), Jótlandshaf, Englandshaf, Írlandshaf. Þótt undantekningar kunni að finnast, mun það þó óþekkt, að kenna haf við sitt eigið land.
Hann bendir einnig á þá íslensku venju að kenna „sund við eyna eða landið hinum megin: Málmeyjarsund, Drangeyjarsund, Flateyjarsund, Grímseyjarsund, Lambeyjarsund.“ Eins og ráða má af þessu hefur haf eða sund verið kennt „við land það, sem siglt er til frá meginlandi, fjölbýlla landi eða eldri byggð“ (Þórhallur Vilmundarson 1980:32), sbr. nafnið Grænlandshaf gefið frá Íslandi. Á hinn bóginn bera þá nöfn á borð við Noregshaf og Danmerkursund vott um stórlæti nafngjafans (sbr. Ameríkuflóa).
Íslensk stjórnvöld reyna að fá nöfnum á höfunum breytt
Síðla árs 1935 atvikaðist svo að Alþjóðaflugmálastofnunin (fr. Commission Internationale de Navigation Aérienne sem heitir nú, á ensku, International Civil Aviation Organization) sendi dönskum stjórnvöldum flugkort til rannsóknar og leiðréttingar. Í utanríkisráðuneyti Danmerkur hefur verið afráðið að senda kortið einnig til Íslands til að óska eftir athugasemdum héðan um það sem við kom Íslandi. Skrifstofa utanríkismála hér á landi fól Geir G. Zoëga vegamálastjóra að skoða málið og í bréfi hans 26. nóvember 1935 segir:
Ég hef athugað uppdrátt þenna, gert á honum nokkrar leiðréttingar og viðbætur. Á uppdrættinum var hafið milli Íslands og Grænlands nefnt „Detroit de Danemark“. Nafn þetta mun vera nýlega tekið upp af Dönum og að þeirra tilhlutun tekið upp á sjókort, en nafn þetta er ekki rétt. Hafið hefir heitið Grænlandshaf frá landnámstíð, og sundið milli Vestfjarða og Grænlands Grænlandssund. Þessu til staðfestingar hefi ég útvegað álit nokkurra kunnugustu manna, er ég hefi náð til...
Í samræmi við þá sögulegu staðreynd sem staðfest er með áliti þessara manna, hefi ég því breytt nafninu „Detroit de Danemark“ í „Detroit de Grönland“ og bætt við „Mer de Grönland“. Er það sameiginlegt álit mitt og manna þeirra er mál þetta hefir verið borið undir, að sjálfsagt sé að fá nafninu breytt þannig.
Hinir fróðu menn voru Árni Friðriksson fiskifræðingur, dr. Bjarni Sæmundsson, Pálmi Hannesson rektor, Sveinbjörn Egilsson ritstjóri sjómannablaðsins Ægis, Jón Eyþórsson veðurfræðingur, Geir Sigurðsson skipstjóri, Friðrik V. Ólafsson skipherra og Hallgrímur Hallgrímsson magister. Álit Geirs og hinna kunnugustu manna hér á landi var sent til Danmerkur og var því svarað á þá leið í febrúar 1936 að álitið yrði sent Alþjóðaflugmálastofnuninni – ásamt andmælum danskra stjórnvalda.

Brot úr áliti nokkurra manna um nöfn á höfum umhverfis Ísland (Skjalasafn örnefnanefndar).
Í bréfi danska utanríkisráðuneytisins er fullyrt, líklega með nokkrum rétti, að „Danmarksstrædet“ sé orðið almennt viðurkennt nafn á sundinu milli Íslands og Grænlands og að danska ríkisstjórnin verði að ráða frá því að því sé breytt í alþjóðlegum útgáfum. Þá er bent á að ekki gangi að nefna hafið fyrir vestan Ísland Grænlandshaf þar sem það nafn sé þegar í notkun um hafið austur af Grænlandi, frá Scoresbysund og þar fyrir norðan. Í bréfinu er einnig minnt á að þegar Danir og Norðmenn tókust á um eignarhald á Austur-Grænlandi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag hefðu Danir mótmælt því sérstaklega er Norðmenn notuðu nöfnin „Norske Havet“ (Noregshaf) og „Grönlandsstrædet“ (Grænlandssund).
Á leiðbeiningakorti Alþjóðasjómælingastofnunarinnar frá 1928 (sjá að ofan) er hafsvæðið á milli Grænlands og Noregs nefnt Grænlandshaf eða Noregshaf og virðist sem Norðmenn hafi viljað festa síðara nafnið við allt svæðið í viðleitni sinni til yfirráða á Austur-Grænlandi. Í 3. útgáfu leiðbeininga stofnunarinnar frá 1953 hefur svæðinu verið deilt í tvennt og nöfnin aðgreind í samræmi við það (IHO, 6–7).
Þáverandi ráðherra utanríkismála, Haraldur Guðmundsson, tilkynnti vegamálastjóra lyktir mála og klykkti út með eftirfarandi orðum sem reyndust sannspá: „Eftir atvikum mun því mega gera ráð fyrir að ekki muni takast að fá þeim nafnabreytingum framgengt.“
Þótt sjónarmið Íslendinga hafi ekki hlotið hljómgrunn má segja dönskum stjórnvöldum til hróss að þau komu þessum sjónarmiðum á framfæri við Alþjóðaflugmálastofnunina. En að vísu hafa Danir mátt telja nokkuð öruggt að stofnunin myndi ekki fallast á tillögur Íslendinga fyrst þeir sjálfir réðu henni frá þeim. Sá sem ritaði fyrrnefnt bréf til Íslands fyrir hönd danska utanríkisráðuneytisins var hinn dansk-íslenski Jón (Haraldsen) Krabbe (1874–1964), trúnaðarmaður Íslands í danska utanríkisráðuneytinu frá 1918–1940.
Örnefni geyma minningar
Nafngiftirnar Grænlandssund, Grænlandshaf og Íslandshaf eru minnisvarði um siglingaafrek norrænna manna (Íslendinga og Norðmanna) til forna og er leitt að þær hafi fallið í skuggan á yngri nöfnum. Borin von er að nöfnin Grænlandshaf (um hafið vestur af Íslandi) og Íslandshaf (nú Noregshaf) hljóti alþjóðlega viðurkenningu héðan af og þar sem ekki tókst að fá ónefnið Danmarksstrædet niðurfellt fyrir 90 árum gerist það tæplega úr þessu enda hefur það öðlast ríka hefð alþjóðlega.
Nafngiftirnar Noregshaf og Danmerkursund eru að sínu leyti einnig sögulegar minjar. Hið fyrra minnir á tilraunir Norðmanna til að öðlast áhrif á Austur-Grænlandi á fyrri hluta 20. aldar, þótt það eigi nú aðeins við svæði nær Noregi, afmarkað af Íslandi og Jan Mayen. Nafnið Danmerkursund (da. Danmarksstrædet) vísar í veldi Dana á norðurslóðum en það hefur einmitt verið í deiglunni undanfarið síðan áðurnefndur Donald Trump tók að krefjast þess að Danir seldu Bandaríkjamönnum Grænland. Alls óvíst er hvernig þau mál þróast, en vera kann að í ekki svo fjarlægri framtíð verði Danmarksstrædet og Irmingerhavet ásamt öðrum örnefnum á Grænlandi minjar um horfin yfirráð Dana á þessum slóðum.
Heimildir
DBL = Dansk biografisk Lexikon I–XIX. Kjøbenhavn: Gyldendalske Boghandels Forlag, 1887–1905.
IHO = International Hydrographic Organization. Limits of Oceans and Seas. 3. útg. Monte Carlo, 1953.
Skjalasafn örnefnanefndar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Þórhallur Vilmundarson. 1980. Nýnefni og örnefnavernd á Íslandi. Grímnir 1:24–36.
Myndir
Kortabók handa grunnskólum, 2. útg. 1996, bls. 22–23.
NormanEnstein, Wikipedia Commons, https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Norwegian_Sea_map.png.