Hvernig leið Frikka árið 2012? – um textatengsl í íslenskum dægurlögum


„Líður eins og Frikka árið 2012“ er viðlag lagsins Frikki Dór 2012 sem tvíeykið ClubDub gaf út árið 2021. En hvernig leið Frikka eiginlega árið 2012? Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu til þess að komast að því að Frikki var í toppmálum árið 2012. Það ár gaf hann út plötuna Vélrænn en hún kom út ári eftir að hann gaf út sína fyrstu plötu, Allt sem þú átt. Vélrænn innihélt slagara á borð við Hata að hafa þig ekki hér og Kveikjum nýjan eld en platan fékk góðar móttökur og mætti því leiða líkur að því að Frikki hafi haft það ansi gott árið 2012. Það er hins vegar ekki víst að fólk hafi hugsað um bakgrunn Friðriks í tónlistarsögunni þegar ClubDub-lagið vinsæla kom út og því gæti verið að merkingin hafi ekki skilað sér til allra hlustenda. Hins vegar munu þeir hlustendur sem skilja tilvitnun lagsins túlka það sem svo að strákarnir í ClubDub séu að gefa til kynna að þeir séu í svipuðum málum og Frikki árið 2012, þ.e.a.s. að þeir njóti mikilla vinsælda og hafi það mjög gott. Þannig skapar tvíeykið, með skemmtilegri tilvitnun sinni í velgengni Frikka árið 2012, það sem mætti skilgreina sem textatengsl

Hvað eru textatengsl? 

Textatengsl er bókmenntahugtak sem var fyrst notað af Juliu Kristevu árið 1967 en hún byggði kenningar sínar á hugmyndum Mikhail Bakhtíns. Textatengsl eru í örstuttu máli mótandi samband tveggja eða fleiri texta sem skapar ákveðna merkingu. Þannig mætti segja að texti innan texta, til dæmis vísanir eða tilvitnanir, séu textatengsl þar sem samband þeirra við textann skapar merkingu sem ætlað er að hafa áhrif á lesandann. Þrátt fyrir að textatengsl hafi að mestu leyti verið notuð til þess að rýna í og greina bókmenntatexta er einnig hægt að færa notkun á hugtakinu yfir á aðra miðla. Hamid Naficy heldur því til dæmis fram að í raun sé hægt að líta á alla sjónvarpsþætti, kvikmyndir eða tónlist sem texta og þannig mætti í raun greina þessa menningarmiðla út frá sömu hugtökum og kenningum sem við notum til þess að greina bókmenntir.  

Textatengsl geta komið fyrir á fjölbreyttan hátt í tónlist en þau eru til dæmis áberandi í íslenskum dægurlögum. Íslenskir tónlistarmenn vitna gjarnan í menningaratburði, kvikmyndir, bækur eða þekkt fólk í lögum sínum. Taka má sem dæmi þegar Ágúst Bent segir í laginu Sönn íslensk sakamál: „Ef sódóma væri Reykjavík væri ég bæði Aggi Pó og Moli og ég er soddan glæpahundur að meira að segja þessi lína er stolin“ en þar vitnar hann í kvikmyndina Sódóma Reykjavík. Algengt er að höfundar nýti sér slík textatengsl í þeim tilgangi að stæra sig af vinsældum sínum en nokkur slík dæmi koma til dæmis fyrir í lagi Herra Hnetusmjörs og Friðrik Dórs Labbilabb. Sá fyrrnefndi vitnar í eigið lag þegar hann segir „Hvern hugsar þú um þegar einhver segir jámarh?“ en það er vísun í lagið vinsæla Jámarh sem hann gaf út ásamt Joe Frazier árið 2015. Með tilvitnuninni gefur Herra Hnetusmjör í skyn að vinsældir lagsins hafi leitt til þess að frasinn „jámarh“ sé ávallt tengdur við lagið Jámarh. Áhugavert er að Friðrik Dór vitnar einnig í sitt eigið lag á Labbilabb þegar hann segir „Viltu lagið þitt númer eitt á lista? Hringd'í mig, hringd'í mig, best að hringja í Frikka“. Með þessari línu gefur Friðrik í skyn að ef tónlistarmenn vilja fá lagið sitt í efsta sæti á vinsældarlista þurfi þeir að hafa hann með sem meðflytjanda. Á sama tíma vitnar hann einnig í lagið sitt Hringd'í mig, sem líkt og Frikki segir sjálfur varð númer eitt á vinsældarlistum Íslands en lagið var til að mynda mest spilaða lag ársins hjá Rás 2 árið 2018. Þannig má sjá hvernig Herra Hnetusmjör og Frikki nota textatengsl með tilvitnunum í sín eigin lög á skemmtilegan hátt í laginu Labbilabb. 

Hver er tilgangur textatengsla í tónlist?

Með því að nota textatengsl sem stílbragð í textasmíði geta tónlistarmenn haft aukin áhrif á hlustandann. Colin Outhwaite hefur til dæms skrifað um textatengsl í lögum Kendricks Lamar og bendir þar á áhrifin sem textatengsl í lagatextum geta haft á hlustendur. Hann bendir á að textatengsl virka bæði sem styttri leið að merkingunni fyrir hlustendur og á sama tíma sem mun áhrifaríkari leið en að segja hlutina með berum orðum. Þannig virkar tilvitnun Frikka til dæmis mun skemmtilegri og meira grípandi heldur en ef hann hefði sagt: „Ef þú vilt að lagið þitt verði númer eitt á vinsældarlistum Íslands þá gæti ég eflaust hjálpað þér því ég hef gefið út lag, Hringd'í mig, sem var númer eitt á vinsældarlista Rásar 2.“ 

Textatengsl geta þannig kjarnað ákveðna stemningu eða skap sem erfitt væri að tjá með berum orðum. Hvort sem þau eru langsótt eða augljós geta textatengsl verið kraftmikið stílbragð í íslenskri lagasmíði nútímans. Með því að notfæra sér textatengsl sem stílbragð geta íslenskir tónlistarmenn leyft sér að vera frumlegir og skapandi með tilvitnunum í íslenskan menningararf. Hægt er að grafa upp minningar um gamlar kvikmyndir, bækur, eldri lög eða menningaratburði allt með einni tilvitnun. Hvort sem gripið er til Íslendingasagnanna eða einfaldlega til vinsælda Friðriks Dórs árið 2012 er ljóst að tónlistarmenn geta nýtt sér textatengsl á skemmtilegan og frumlegan hátt til þess að hafa áhrif á hlustandann.

Heimildir

Naficy, H. (1989). Television Intertextuality and the Discourse of the Nuclear Family. Journal of Film and Video, 41(4), 42-59. 

Outhwaite, C. (2020). “You crossed my mind … before?”: An intertextual analysis of songs from 'To Pimp A Butterfly. Edith Cowan University.  

RÚV. (2018, 2. janúar). „Hringd'í mig“ með Friðriki Dór mest spilað: 50 mest spiluðu lög ársins á Rás 2.

Mynd

Þorgils Völundarson, Wikipedia.

Höfundur

Magnús Már er með BA-gráðu í íslensku og hefur áhuga á bókmenntum, tónlist og íþróttum.

Scroll to Top