Safn er góður staður til að læra íslensku 


Á undanförnum misserum hefur Borgarsögusafn vakið athygli sem góður staður til að læra íslensku. Safnið hefur boðið upp á leiðsögn á einföldu máli sem er sérstaklega lagað að þörfum þeirra sem eru að læra íslensku sem annað mál. Katleen Abbeel hefur tekið á móti hópum sem vilja spreyta sig á tungumálinu og leitt gesti inn í heim borgarsögusafna. Enn sem komið er hefur hún tekið á móti gestum í Aðalstræti, á Sjóminjasafninu og á Ljósmyndasafni Reykjavíkur en vonandi bætast Viðey og Árbæjarsafn brátt við. Viðburðirnir henta byrjendum sem lengra komnum og allir fróðleiksfúsir gestir eru hjartanlega velkomnir. 

Hver er Katleen? 

Mikilvægt er að leiðsögumaðurinn er annarsmálshafi og kennari og þekkir því vel aðstæður þeirra sem eru að læra málið. Katleen Abbeel er flæmskumælandi Belgi sem búið hefur á Íslandi frá 2015. Hún byrjaði að læra íslensku í Belgíu í gegnum vefnámskeiðið Icelandic online en sótti svo framhaldsnámskeið á Vestfjörðum í þrjú sumur. Að því loknu fór hún í íslenskunám við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli. Undanfarin ár hefur Katleen starfað sem leiðsögumaður, kennari og þýðandi, og hún hefur meðal annars þýtt þrjár bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur á hollensku.  

Íslenskukennsla og inngilding eru Katleen hjartans mál og henni finnst mikilvægt að allir sem flytja til Íslands eigi að fá tækifæri til að nota íslensku. Þegar Hlín Gylfadóttir hjá Borgarsögusafninu hafði samband við hana um að vera með leiðsögn fyrir þá sem eru að læra íslensku sá hún strax að hér væri draumastarfið komið.  

Auðskilið mál 

Leiðsögnin um borgarsögusöfnin fer fram á því sem hefur verið kallað auðskilið mál en hvað er átt við með þessu hugtaki? Hvað þarf að hafa í huga þegar við viljum tala auðskilda íslensku?  

Auðskilið mál er alþjóðlegt fyrirbæri og snýst um að laga málnotkun að hópum sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að skilja venjulega texta eða talað mál. Þetta getur meðal annars átt við fólk sem er að læra nýtt tungumál eða er með einhvers konar fötlun sem heftir málskilning. Á Íslandi hefur Ríkisútvarpið verið leiðandi á þessu sviði en stofnunin heldur úti fréttasíðu þar sem lesa má texta á auðskilinni íslensku.  

Katleen segir að það sem hún þurfi helst að hafa í huga þegar hún vill nota auðskilið mál sé að tala hægt, nota stuttar setningar og segja hlutina beint út (þ.e. ekki nota myndmál eða kaldhæðni). Orðaforðinn og textarnir sem hún notast við miðast við grunnskólanema í unglingadeild.  

Öll helstu orð sem Katleen notar í frásögninni þarf hún að útskýra. Gestunum er líka gefinn kostur á að undirbúa sig því í auglýsingunni birtast nokkur lykilorð sem notuð verða á söfnunum.  

Lykilorð sem notuð eru á Borgarsögusafni í Aðalstræti  

- torfhús (turf house)

- rúst (ruins)

- rostungur (walrus)


- iðnvæðing (industrialization) 


- músagildra (mousetrap) 


- latína (Latin)  

Mikilvægt er að gestirnir noti öll skynfæri og ekki síst að þeir nýti það sem þeir sjá á safninu. Á sýningunum eru oft munir eða myndir sem getað hjálpað gestum að skilja það sem fram fer. Þegar Katleen tekur á móti gestum á Sjóminjasafninu notar hún orð á borð við árabátur og kafari og getur bent á muni og myndir á sýningunni til að auðvelda skilning. Þetta gerir það að verkum að viðburðirnir henta jafnvel þeim sem eru að taka sín fyrstu skref í íslensku. 

Katleen tekur líka með sér stílabók þar sem hún hefur límt inn myndir sem nýtast í leiðsögninni. Sem dæmi er hún með mynd af rostungi sem kemur sér oft vel þegar hún tekur á móti fólki á Landnámssetrinu í Aðalstræti.  

Jákvæðir og fróðleiksfúsir gestir 

Viðburðir Borgarsögusafns eru fyrst og fremst auglýstir á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Gestirnir sem mæta til Katleen fá ókeypis inn á safnið. Leiðsögnin tekur um það bil eina klukkustund en gestirnir staldra oft við lengur til að skoða sýninguna betur og spjalla við Katleen.  

Misjafnt er hverjir og hversu margir mæta og fjöldinn hefur verið allt frá þremur og upp í rúmlega tuttugu gestir. Til dæmis eru erlendir nemendur úr Háskóla Íslands duglegir að sækja viðburðina. Í eitt skiptið kom hópur úkraínskra kvenna til að skoða Sjóminjasafnið og fannst Katleen ánægjulegt hversu mikið þær skildu þrátt fyrir að þær hefðu aðeins verið á Íslandi í eitt og hálft ár. Eins voru þær sjálfar ánægðar með að hafa mætt á safnið og talað við Katleen á íslensku.  

Katleen leggur áherslu á að hægt sé að læra ansi mikið í íslensku á stuttum tíma og nemendur komast glettilega langt á því sem þeir kunna ef þeir fá tækifæri til að nota málið. Galdurinn sé að horfa í augun á gestunum og koma á samskiptum, lesa úr svipnum á þeim hvað þeir skilja og kalla fram viðbrögð með því að spyrja einfaldra spurninga á borð við: „Hvaða mynd finnst þér falleg?” 

Það sem hefur komið Katleen helst á óvart er hversu ótrúlega jákvæðir og þakklátir gestirnir eru. Í hópnum er fólk sem kemur úr ýmiss konar aðstæðum og er með ólíkan bakgrunn. Samt virðist þetta alltaf ganga upp. Aðalatriðið sé að gestirnir fái góða tilfinningu gagnvart íslensku og finni að þeir skilji og geti notað tungumálið í samskiptum við aðra. Hún hvetur alla til að láta slag standa og kíkja á borgarsöfnin! 

Næstu viðburðir Borgarsögusafns á auðskildu máli 

12. apríl: Ljósmyndasafn Reykjavíkur, myndir ársins  

10. maí: Árbæjarsafn  

14. júní: Viðey 

Áhugaverðir tenglar 

Vefur Borgarsögusafns: https://borgarsogusafn.is/ 

Vefur Ríkisútvarpsins: https://www.ruv.is/audskilid 

Myndir

Hlín Gylfadóttir

Höfundur

Helga Hilmisdóttir er sviðsstjóri íslenskusviðs. Henni finnst fátt eins mikilvægt og að vel sé staðið að kennslu í íslensku sem öðru máli.

Scroll to Top