Íslensk félagsmálvísindi í þemahefti Sociolinguistica


Um miðjan nóvember kom út sérhefti tímaritsins Sociolinguistica: Current trends in Icelandic sociolinguistics, sem seinna tölublað árgangsins 2024. Þetta þemahefti fjallar um íslenskar málaðstæður í dag. Það hefur að geyma 7 rannsóknargreinar eftir 10 fræðimenn, auk inngangs, ritdóms og tveggja viðtalsgreina.   

Markmiðið með þessu þemahefti er að kynna fyrir alþjóðlega fræðasamfélaginu áhugaverð sýnishorn af nýjum eða mjög nýlegum rannsóknum í íslenskum félagsmálvísindum þar sem viðfangsefnið er fyrst og fremst bundið við málaðstæður og samfélag eins og það birtist í dag. Eins og ég geri grein fyrir í inngangi gestaritstjóra er hér um ákveðið úrval að ræða. Umtalsverðar rannsóknir hafa verið gerðar og eru í gangi á mismunandi hliðum þess sem kalla má félagsmálvísindalegar afleiðingar hinna geysihröðu félagslegu, lýðfræðilegu og menningarlegu breytinga hérlendis undanfarið, eins og kom t.d. í ljós á tveggja daga ráðstefnu um félagsmálvísindi sem fram fór í Eddu 18.–19. september sl. Í innganginum gef ég jafnframt örstutt yfirlit yfir ýmsar eldri rannsóknir og útgáfur sem falla undir íslensk félagsmálvísindi.

Sjö rannsóknargreinar

Í þessu þemahefti var lagt upp með að sameiginlegur útgangspunktur í efni allra greinanna yrðu málaðstæður á Íslandi í dag; hvað hafi verið að gerast mjög nýlega. Í greinunum er ýmist að finna nálgun sem miðast við hinar stærri málsamfélagslegu einingar (sbr. á ensku macro-sociolinguistics) eða hinar minni (sbr. á ensku micro-sociolinguistics) sem geta varðað einstaka málnotendur eða hópa. Fremsta og aftasta greinin, sem lúta meðal annars að málstefnu og orðræðu um tungumálið, falla mikið til undir fyrri tegundina, en hinar fimm fjalla um ólíkar rannsóknir sem teljast til seinni tegundarinnar að meira eða minna leyti, en allir höfundarnir ræða og túlka niðurstöður sínar í víðara samhengi íslenskra málaðstæðna og samfélagsþróunar.  

Í fyrstu greininni, „Perceived threats to the future of Icelandic and the importance of language acquisition research“, varpa Iris Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir ljósi á ákveðnar breytingar sem eiga sér stað á almennri umræðu um hina meintu ógn sem steðji að íslensku. Fólk hefur haft miklar áhyggjur af því að málsambýli íslensku og ensku hafi óæskileg áhrif á íslenska málnotkun, en núna virðist sem aukin áhersla sé lögð á þá þróun að enska sé áberandi í samskiptum fólks með íslensku að móðurmáli við þá sem hafa lært íslensku sem annað mál. Í greininni rekja þær einnig niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem var gerð á árunum 2016–2019 á mögulegum málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis íslensku og ensku en þær afleiðingar virðast ekki vega þungt, a.m.k. ekki enn sem komið er.  

Í greininni „Folk perceptions and evaluations of L2-accented Icelandic with regard to pleasantness and correctness“ segir Stefanie Bade frá rannsókn sinni á því hvaða mat fólk sem talar íslensku sem móðurmál leggur á erlendan hreim í íslensku.  

Greinin „Icelandic on Facebook: Linguistic practices in an informal communication space“ eftir Vanessu M. Isenmann er byggð á nýlegri doktorsrannsókn hennar á málnotkun í stafrænum miðlum, einkum Facebook eins og titillinn bendir til. Greining hennar á efniviðnum sýnir meðal annars hvernig fólk beitir kunnáttu sinni í ólíkum málum og málsniðum eftir efni og aðstæðum, en íslenska er algengasta og mikilvægasta samskiptatækið og jafnframt mikilvæg til að tjá sjálfsmynd og það að tilheyra vissu samfélagi.  

Í greininni „Young Icelanders and popular culture: An empirical study of Anglicisms in conversation“ sýnir Helga Hilmisdóttir meðal annars hvernig íslenskir málnotendur nýta sér ensk orð og orðatiltæki í samtölum í óformlegum aðstæðum. Annars vegar eru þetta samtöl tveggja unglingspilta í tölvuleik og hins vegar tveggja ungra kvenna sem stýra hlaðvarpsþáttum. Í greiningu Helgu kemur meðal annars fram hvernig það þjónar ákveðnu hlutverki í samskiptum málnotendanna þegar gripið er til enskra orða, og að það er ekki endilega tilviljunarkennt eða vegna fákunnáttu.  

Grein Margrétar Guðmundsdóttur, „Language change across the lifespan: The changing status of a local variant“, er byggð á nýlegri doktorsrannsókn hennar sem rekur þróun landshlutabundinna framburðarafbrigða og breytingar á framburði tiltekinna einstaklinga á lífsleiðinni. Gögnin ná yfir allt að 70 ára tímabil. Margrét beinir hér sjónum fyrst og fremst að harðmæli en einnig svolítið að rödduðum framburði, til samanburðar. Rannsókn Margrétar sýnir hvernig framburður fullorðinna breytist eða getur breyst, og þá helst fyrstu 2–3 áratugi fullorðinsáranna. Þá rekur hún hvernig þróun harðmælis virðist standa í sérstöku sambandi við jákvæð viðhorf og virðingu sem harðmæli njóti almennt.  

Finnur Friðriksson, Ásgrímur Angantýsson og Stefanie Bade segja í grein sinni, „Icelandic regional pronunciation, attitudes and real-time change: Latest developments“, frá nokkrum af fyrstu niðurstöðum úr hinu nýja og viðamikla rannsóknarverkefni „Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma“ sem styrkt er af Rannís 2023–2025. Nú er hv-framburður nærri horfinn og raddaður framburður á mjög í vök að verjast, en skaftfellskur einhljóðaframburður virðist heldur lífseigari, og harðmæli stendur nokkuð sterkt á sínu kjarnasvæði. Þá benti athugun á viðhorfum málnotenda til þess að fólk almennt teldi norðlenskan framburð skýrari en annan íslenskan framburð.  

Í öftustu greininni, „Icelandic in late modernity: On language policy discourses, stylistic variation, and the fate of purism and standard language ideology“, fjalla Ari Páll Kristinsson og Kristján Árnason um áhrif félagslegra og hugmyndafræðilegra breytinga á málstefnu og málstýringarskjöl á Íslandi undanfarið, og á þær hugmyndir sem fólk gerir sér um staðalmál og hlutverk þess og það hvernig málnotkun er metin.  

Ritdómur og viðtöl

Auk rannsóknargreinanna sem hér voru nefndar er stuttur ritdómur í heftinu um bókina Icelandic Heritage in North America, sem Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason gáfu út 2023, en bókin hefur að geyma 15 kafla um rannsóknir á vesturíslensku máli, sögu og menningu.  

Loks eru birt í þessu tölublaði Sociolinguistica tvö ýtarleg viðtöl, annað við Ernst-Håkon Jahr í Kristiansand, og hitt við Leenu Huss í Uppsölum. Bæði eru komin á eftirlaun eftir langan og farsælan feril og umfangsmikið framlag til rannsókna og kennslu í félagsmálvísindum.

Heimildir

An interview with Ernst Håkon Jahr. 2024. Sociolinguistica 38(2):311–318. doi.org/10.1515/soci-2024-0035 

An interview with Leena Huss. 2024. Sociolinguistica 38(2):319–325. doi/10.1515/soci-2024-0033/html 

Ari Páll Kristinsson. 2024. Current trends in Icelandic sociolinguistics: An introduction.  Sociolinguistica 38(2):135–142. doi/10.1515/soci-2024-0041/html  

Ari Páll Kristinsson. 2024. Arnbjörnsdóttir, Birna, Höskuldur Thráinsson & Úlfar Bragason (eds.), 2023, Icelandic heritage in North America. Winnipeg: University of Manitoba Press. Sociolinguistica 38(2):327–329. doi.org/10.1515/soci-2024-0036 

Changes, beliefs, practices. Current research intothe contemporary sociolinguistic situation in Iceland. Ráðstefna í Eddu, 18. –19. september 2024. https://arnastofnun.is/is/CBP2024 

Sociolinguistica. European Journal of Sociolinguistics 38:2, 2024. https://www.degruyter.com/journal/key/soci/38/2/html 

Höfundur

Dr. Ari Páll Kristinsson er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann hefur m.a. rannsakað málstefnu, breytileg málsnið og eðli og áhrif málstýringar og vísandi málfræði.

Scroll to Top