Fyrir sléttu ári, þann 12. desember 2024, setti íslenskusvið Árnastofnunar í loftið vefritið Mannamál, sem fagnar því eins árs afmæli í dag.
Markmið Mannamáls er að vekja áhuga fólks á íslensku og öðrum tungumálum sem töluð eru hér á landi. Markhópurinn er stór, það er allir sem áhuga hafa á íslensku, en við viljum ekki síst reyna að höfða til ungs fólks. Á fyrsta útgáfuári vefritsins hafa verið birtar 42 greinar eftir 28 höfunda sem koma úr ýmsum áttum. Fjórar greinar voru á ensku.
Greinarnar sem birtast í vefritinu skiptast í eftirfarandi flokka: málfar, orð, rannsóknir á mannamáli, ritfregnir og gagnrýni, sjónarmið, viðtöl og umfjallanir. Meðal umfjöllunarefna síðastliðið ár má nefna:
- Gervigreind og gervigreindarlæsi
- Þýðingarvélar
- Uppruni og notkun tiltekinna orða, til dæmis leðurblaka, skynsemi og gaur
- Orð ársins
- Alþjóðasamstarf á sviði örnefna í ljósi deilna um Ameríkuflóa
- Notkun íslenskra orða meðal afkomenda Vesturfaranna
- Tungumálaval á skiltum í verslunarmiðstöð á Akureyri
Greinar í Mannamáli birtast reglulega og einu sinni í mánuði er sent út fréttabréf til að vekja athygli á nýju efni. Lesendur sem vilja vera á póstlista vefritsins geta skráð sig hér að neðan.
Við í ritstjórn Mannamáls þökkum samfylgdina þetta fyrsta útgáfuár vefritsins og við hlökkum til þeirra næstu.
Póstlisti
Í hverjum mánuði sendir Mannamál út fréttabréf þar sem farið er yfir það efni sem birst hefur í ritinu frá síðasta bréfi. Til þess að skrá þig á póstlistann þarftu einungis að setja inn netfang þitt hér að neðan, smella á Skrá mig og staðfesta skráninguna í tölvupóstinum sem þú færð.




