Opnun Íslenskrar nútíma­málsorða­bókar 15. nóvember 2024 


Undanfarin fimm ár hef ég verið stórnotandi Íslenskrar nútímamálsorðabókar vegna pistlaskrifa minna um íslenskt mál. Þessar línur eru auðvitað enginn heildstæður dómur um verkið, aðeins ábendingar um fáein atriði sem ég hef rekið mig á og finnst gagnlegt að velta upp. Einn kosturinn við veforðabók er vitanlega sá að auðvelt er að bæta við, leiðrétta og lagfæra ef athugasemdir eru gerðar. Í pistlum mínum vitna ég oftar í Íslenska nútímamálsorðabók en nokkurt annað verk – langoftast til að tilfæra merkingarskýringu orðsins sem ég var að fjalla um og þá skýringu sem ég var sammála. Stundum hef ég þó eitthvað við skýringuna að athuga – sjaldnast vegna þess að hún sé beinlínis röng, heldur vegna þess að einhver merkingartilbrigði vantar. Stöku sinnum vantar líka orð sem mér finnst að ættu að vera.  

En ég fletti líka yfirleitt upp í Íslenskri orðabók á Snöru, og í Blöndal. Það er mjög gagnlegt því að þar fæ ég samanburð á orðaforða og skýringum þessara bóka, og get oft séð breytingu á merkingu og notkun orða. Þótt Íslensk orðabók hafi fyrst komið út fyrir rúmum sextíu árum byggist hún mjög mikið á Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal sem kom út á árunum 1920-1924. Merkingarskýringar eru mjög oft þýddar eftir Blöndal, og þar sem orð hafa fleiri en eina merkingu eða merkingartilbrigði er röðin iðulega sú sama og hjá Blöndal jafnvel þótt notkunin hafi breyst á þeim fjörutíu árum sem liðu milli útgáfnanna. Íslensk orðabók hefur vissulega verið gefin út tvisvar síðan og þriðja útgáfan frá 2002 var endurskoðuð talsvert, en hún ber samt enn mikil merki uppruna síns. Íslensk nútímamálsorðabók er því í raun fyrsta íslensk-íslenska orðabókin sem er samin frá grunni, þótt hún eigi sér vitanlega rætur í eldri verkefnum. 

Eitt vandasamasta verkefnið við orðabókagerð er vitanlega val flettiorða og engin von til þess að gera öllum til hæfis í því. Heiti verksins, Íslensk nútímamálsorðabók, afmarkar vitanlega að einhverju leyti þann orðaforða sem er undir þótt vissulega sé hægt að hafa mismunandi skoðanir á því hvað sé nútímamál. Á sínum tíma var Íslenskri orðabók ætlað að taka að einhverju marki til orðaforða fyrri alda og mörgum orðum sem þar er að finna en sjaldan eða aldrei koma fyrir í nútímamáli hefur verið sleppt í Íslenskri nútímamálsorðabók – sem er gott. Ég hef ekki skoðað þetta skipulega en meðal orða sem ég hef séð að hefur verið sleppt eru allareiðu, milliskyrta, réttstundis, sakka, snoðlíkur og víðförli. Allt eru þetta orð sem tíðkuðust á fyrri hluta 20. aldar en eru horfin nú og það er því eðlilegt að þau séu ekki tekin með. Ég hef ekki rekist á mörg orð sem mér finnst ofaukið í Íslenskri nútímamálsorðabók

En vissulega finnst mér ýmis orð vanta – það er alveg eðlilegt og fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Oft koma upp orð sem eru áberandi í umræðunni í stuttan tíma en hverfa svo – á að taka þau inn strax, eða bíða og sjá hvort þau lifa? Meðal orða af þessu tagi eru búsetuúrræði og inngilding sem eru komin inn, gaslýsing og skólaforðun sem ekki eru í bókinni, og ný merking eða viðbótarmerking orðanna innviðir og sviðsmynd sem er komin. Þetta eru allt óumdeilanlega íslensk orð en svo er álitamál hvenær erlend orð sem fólk bregður fyrir sig eru komin með þá stöðu að rétt sé að taka þau með. Þar má nefna lýsingarorðin næs, kósí og kúl sem öll eru í bókinni en merkt ‚óformlegt, ekki fullviðurkennt mál‘ og ótal önnur sem ekki eru með, svo sem sögnin tana og sambandið fasa út

Einnig má nefna orð sem eru óneitanlega íslensk en ekki eru tekin með, kannski vegna þess að þau eru talin einhvers konar afbökun orða sem fyrir eru í málinu – orð eins og hringlótt sem þó er gamalt í málinu og eiginlega gagnsærra en kringlótt, eða kössótt í stað kassalaga. Mér finnst þetta hvort tveggja ágæt orð en kannski eru þau of sjaldgæf til að taka þau með. Svo má nefna orð sem ekki virðast samræmast venjulegum orðmyndunarreglum eins og lágvöruverðsverslun og utankjörfundur – það fyrrnefnda er í Íslenskri nútímamálsorðabók en það síðarnefnda ekki. Við þetta má bæta styttingum sem sumar eru með og merktar ‚óformlegt‘ eins og hjúkka og lögga en aðrar ekki þótt þær séu algengar, eins og kjúlli. Sum orð eru hugsanlega ekki með vegna þess að það er talið óþarft – merking þeirra liggi í augum uppi. Þar má nefna orð með frjóum viðskeytum eins og -un – ég hef fengið spurningar um orðin heiðrun og hópun sem hvorugt er í bókinni. Í slíkum tilvikum getur verið álitamál hvort merkingin sé algerlega fyrirsegjanleg út frá sögninni, eða hvort orðin víki eitthvað þar frá og þarfnist því sérstakrar skýringar. 

Annað vandasamt atriði eru athugasemdir eða leiðbeiningar um málsnið. Í Íslenskri orðabók var spurningarmerki sem merkti ‚vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku‘ notað óspart í fyrri útgáfum þótt talsvert hafi verið dregið úr notkun þess í þriðju útgáfu. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru þessar athugasemdir mildilegri, svo sem ‚óformlegt‘, ‚ekki fullviðurkennt mál‘ ‚gamalt‘, ‚óstaðfest nýyrði‘, ‚barnamál‘ og e.t.v. fleira, og sumt sem þótti athugavert í Íslenskri orðabók er nú gefið athugasemdalaust, t.d. sögnin dingla í merkingunni ‚hringja bjöllu, einkum dyrabjöllu‘.  

Leiðbeiningar af þessu tagi eru sjálfsögð og eðlileg þjónusta við notendur en þær eru vandmeðfarnar – bæði vegna þess að þær byggjast á huglægu mati og vegna hættu á að þær verði stýrandi í stað þess að vera leiðbeinandi. Mér finnst leiðbeiningarnar oftast eðlilegar en hef helst fyrirvara á notkun athugasemdarinnar ‚barnamál‘. Þótt vissulega sé flest af því sem ég hef rekist á með þeirri merkingu sennilega upprunnið í máli barna er það komið inn í almennt mál fullorðinna, a.m.k. óformlegt. Þar má nefna orðið ristavél sem reyndar er athugasemdalaust í Íslenskri orðabók.  

Merkingarskýringar finnst mér oftast eðlilegar og orðalag þeirra skýrt. Vitanlega eru þær oft svipaðar því sem er í Íslenskri orðabók en víkja þó venjulega frá þeim á einhvern hátt og eru þá oftast betri þótt það sé ekki alltaf. En stundum kemur í ljós að orð hafa breytt um merkingu og eru skýrð á allt annan hátt en í Íslenskri orðabók. Þar má nefna orð eins og aukinheldur sem er skýrt ‚auk heldur, hvað þá‘ í Íslenskri orðabók en ‚þar að auki, auk þess‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók enda virðist það vera aðalmerking orðsins í nútímamáli. Sögnin knúsa hefur merkinguna ‚knosa, mylja‘ í Íslenskri orðabók – í síðustu útgáfu hennar hefur merkingunni ‚faðma e-n‘ verið bætt við og það er eina merking orðsins í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Íslenskri orðabók er fyrsta merking sagnarinnar byrla ‚hella á bikar‘ og önnur merking ‚blanda‘ með notkunardæminu byrla e-m eitur. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er bara gefin merkingin ‚gefa (e-m) (eitur)‘. 

Stundum hafa orð bætt við sig merkingu án þess að eldri merking sé horfin, eins og innviðir og sviðsmynd sem ég nefndi áður. Orðið metfé er skýrt ‚verðmikill hlutur, úrvalsgripur‘ í Íslenskri orðabók en í Íslenskri nútímamálsorðabók hefur skýringunni ‚fjárupphæð sem slær met‘ verið bætt við. Orðið hugarfóstur er skýrt ‚e-ð sem e-r ímyndar sér og styðst ekki við veruleikann, ímyndun‘ í Íslenskri orðabók en í Íslenskri nútímamálsorðabók er auk þess gefin merkingin ‚sem hefur orðið til í huga e-s, ný hugmynd‘ sem virðist vera yngri. 

Svo getur verið spurning hvort orð bætir við sig merkingu eða hvort nýtt orð verður til. Í Íslenskri orðabók er nafnorðið grunnfærni skýrt ‚það að vera grunnfær‘ sem aftur merkir ‚yfirborðskenndur‘ eða ‚grunnhygginn‘. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru aftur á móti gefnar tvær merkingar orðsins grunnfærni: ‚það að vera grunnfærinn‘ og ‚lágmarksfærni, lágmarkskunnátta‘. En strangt tekið er hér ekki um að ræða eitt orð sem hafi tvær mismunandi merkingar, heldur tvö orð, mynduð á mismunandi hátt. Orðið grunnfærni í merkingunni ‚það að vera grunnfærinn‘ er væntanlega myndað af grunnfær(inn), og þar er fyrri liðurinn stofn lýsingarorðsins grunnur. Orðið grunnfærni í merkingunni ‚grundvallarfærni‘ er hins vegar myndað með því að bæta stofni nafnorðsins grunnur framan við færni. Hér hefði ég talið eðlilegra að hafa tvær flettur. 

Vitanlega má oft deila um það að hversu miklu leyti þurfi að endurskoða merkingarskýringar vegna þjóðfélags- eða tæknibreytinga. Um það mætti taka ýmis dæmi en ég ætla aðeins að nefna eitt. Sögnin skrúfa er skýrð ‚festa eða losa (e-ð) með hringhreyfingu‘ með dæmunum skrúfa frá vatninu og skrúfa fyrir kranann. Þetta er eðlileg skýring miðað við það hvernig þessi athöfn var framkvæmd áður fyrr, en nú á tímum eru skrúfaðir kranar frekar sjaldséðir og í staðinn hafa komið blöndunartæki sem stjórnað er með stöngum, hnöppum eða á annan hátt, jafnvel með hreyfiskynjurum. Samt höldum við áfram að skrúfa frá og fyrir – en kallar þetta á endurskoðun merkingarskýringarinnar? 

Eins og ég sagði í upphafi er þetta auðvitað engin heildarúttekt á því mikla verki sem Íslensk nútímamálsorðabók er, heldur laustengdar hugleiðingar sem hafa kviknað við notkun verksins. Þótt alltaf sé hægt að finna að og leggja til breytingar er ljóst að Íslensk nútímamálsorðabók er stórmerklegt verk sem stendur vel undir nafni og nýtist sérlega vel. Ég óska ritstjórunum Halldóru og Þórdísi, Árnastofnun, og öllum Íslendingum til hamingju með þetta verk. 

Höfundur

Eiríkur er uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðasinni

Scroll to Top