
Erlend orð sem notuð eru í íslenskum textum og tali eru oft kölluð „slettur“, samanber eftirfarandi skilgreiningu í Íðorðabankanum: SLETTA er orð af erlendum uppruna sem hefur ekki aðlagast hljóðkerfi málsins eða beygingum eða nýtur ekki almennrar viðurkenningar af öðrum ástæðum.
Flestir kannast við orðalagið „svo ég leyfi mér að sletta“, sem oft fylgir með þegar notuð eru erlend orð í aðstæðum þar sem slettur þykja ekki viðeigandi. Sletta er íslenskt hugtak sem á ekki beina samsvörun í nágrannamálum. Orðið er gildishlaðið og ber neikvæðan blæ þar sem það gefur til kynna að það sem um er rætt sé á einhvern hátt óæskilegt. Sletta í máli er eins og óhreinindi á annars hreinum fleti.
Rannsókn á afsökunum í Risamálheildinni
Mörkin á milli slettna og tökuorða eru ekki alltaf augljós. Í athugun, sem við gerðum nýlega, skoðuðum við þær „slettur“ sem fólk notaði þegar það afsakaði sig eða sagði „svo ég sletti“. Stuðst var við gögn úr Risamálheildinni. Risamálheildin er safn texta úr fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og stjórnsýslu þar sem hægt er að leita að dæmum til að nota við málfræðilegar athuganir. Leitað var að nokkrum orðasamböndum sem tengjast slettum, eins og „svo ég sletti“, „ef ég má sletta“ og „leyfi mér að sletta“. Eftir leitina var farið yfir dæmin og tekin út dæmi sem ekki innihéldu „slettu“, s.s. dæmi um að sletta málningu og skyri, og umræðu um það að sletta. Eftir stóðu samtals 408 dæmi sem skiptast á eftirfarandi hátt:
svo ég sletti | 150 |
ef ég má sletta | 90 |
leyfi mér að sletta | 66 |
afsakið slettuna | 48 |
að ég sletti | 39 |
maður sletti nú | 15 |
Tafla 1: Fjöldi dæma í Risamálheildinni.
Við athuguðum þannig hvaða orð það væru sem fólk afsakaði sig fyrir að nota eða kallaði slettu, flokkuðum þau eftir tungumáli og athugðum hvort orðin væru aðlöguð að íslenskum beygingum. Auk þess athuguðum við í hvers konar textum dæmin kæmu fyrir og skiptust dæmin í flokkana alþingisræður, fjölmiðlar og samfélagsmiðlar. Um helmingur dæmanna reyndist vera úr alþingisræðum, fjórðungur af samfélagsmiðlum og fjórðungur úr fréttaefni. Skipting milli flokka og tungumála er sýnd á töflu 2.

Tafla 2: Dreifing á milli flokka og tungumála.
Þegar litið var nánar á sletturnar kom í ljós að þær skiptust á milli nokkurra tungumála en flestar sletturnar voru úr ensku eða dönsku.
Nokkuð var um að aðlöguð orð væru afsökuð og oft voru þau orð þannig að ekki er augljóst hvort veitimálið sé enska eða danska; orðin eru til í báðum tungumálum og hafa verið notuð í langan tíma í íslensku. Þetta gerir flokkunina snúna þar sem ekki er alltaf ljóst hvernig sá sem notar orðið og afsakar það metur uppruna þess. Þótt orðið kunni að hafa borist upphaflega inn í íslensku gegnum dönsku líkist það gjarnan enska orðinu og notandinn þekkir þá jafnvel betur ensku myndina.
Flestar sletturnar í dæmasafninu eru þó greinilega upprunnar úr ensku. Þær eru misaðlagaðar, stök orð, styttri og lengri orðsambönd sem þá eru þekktir frasar frekar en nýjar, sjálfsprottnar setningar.
Dönskusletturnar eru flestar úr alþingisræðum og eru stök orð og orðsambönd. Oftast virðast dönskusletturnar vera eins konar stílbragð eða skraut frekar en að verið sé að lýsa fyrirbæri sem ekki er til íslenskt orð yfir. Dönskusletturnar eru oft afsakaðar (eða kannski ekki afsakaðar) á annan hátt, tekið fram að verið sé að sletta dönsku.
Ég sé í sjálfu sér ekkert, svo ég sletti nú dönsku sem samstarfsráðherra, „på stående fod“ á móti því að mál eins og hv. þingmaður færir hér fram verði leyst með þessum hætti.
Þegar leitinni er snúið við, sem sagt t.d. leitað að öllum dæmum í Risamálheildinni um „på stående fod“, sést að dæmin eru oft römmuð inn á svipaðan hátt en með annars konar orðalagi, t.d. „eins og Danir segja“ eða „eins og danskurinn segir“.
Tengsl nýyrða og slettna
Nokkuð mörg aðlöguð tökuorð eru hér kölluð slettur en þekkt er að fólk reynir frekar að finna orð „af íslenskum stofni“. Tökuorðin sem hér eru afsökuð hafa yfir sér erlendan blæ njóta ekki fullrar viðurkenningar í málinu þrátt fyrir að sum þeirra séu mjög algeng og hafi í raun lengi verið hluti af íslenskum orðaforða. Dæmi um það er að orðið ballans í merkingunni ‚jafnvægi‘ er afsakað sem sletta.
Rétt eins og „sletta“ er séríslenskt hugtak er íslenska hugtakið „nýyrði“ almennt notað í þrengri merkingu en samsvarandi hugtök í nágrannamálum. Íslendingar líta yfirleitt svo á að nýyrði verði alltaf að vera mynduð af íslenskum stofni og viðurkenna tökuorð almennt ekki sem nýyrði. Þessi dæmi um aðlöguð tökuorð sem hér eru kölluð slettur sýna hversu tregir Íslendingar geta verið til þess að viðurkenna tökuorð sem vandað mál sem hæfir í formlegum aðstæðum.
Það er misauðvelt að finna beinar samsvaranir á íslensku en þó blasir sjaldnast við að það vanti nýyrði fyrir fyrirbærið. Yfirleitt eru til íslensk orð svipaðrar merkingar eða hægt að umorða en þau orð koma kannski ekki jafn fljótt upp í hugann. Allar sletturnar í þessu dæmasafni voru um óhlutbundin fyrirbæri, frasar og orðtök. Ekki var um tækninýjungar eða ný fyrirbæri að ræða.
Af hverju biðst fólk afsökunar?
Notkun afsökunarorðanna fer eftir aðstæðum. Dæmin eru öll úr eins konar ritstýrðu eða hálfritstýrðu talmáli í misformlegum aðstæðum; ræðum fluttum á Alþingi, viðtölum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.
Ekki er víst að afsökunarorðin þjóni alltaf sama tilgangi, t.d. er ekki víst að þeir gegni sama hlutverki í alþingisræðum og á samfélagsmiðlum eða spjallsvæðum eins og Bland.is.
ég hef ávalt metið þín komment (sorry að ég sletti aðeins hehe).
Ný orð hjálpa okkur að skilja nýjar hugmyndir og stundum koma inn orð úr erlendum málum sem hjálpa okkur að setja hlutina í nýtt samhengi. Þessi orð getur verið miserfitt að „þýða“. Þó eru að sjálfsögðu mörg dæmi um slettur sem virðast vera „óþarfar“ og þá má velta fyrir sér málsniði eða blæ, hvað það er sem málnotandi vill koma til skila með notkun orðsins eða afsökunarinnar.