Vefritið Mannamál er komið í loftið 


Vefritið Mannamál er nýr vettvangur til að miðla þekkingu og reifa álitamál er varða íslensku og önnur mál sem töluð eru hér á landi. Ritið er gefið út á vegum íslenskusviðs Árnastofnunar en höfundar efnis koma úr ýmsum áttum. Allir eiga það sameiginlegt að vinna störf þar sem tungumálið er í brennidepli, til dæmis við málfræðirannsóknir, tungumálakennslu, máltækni og stefnumótun sem varðar íslensku. Heiti vefritsins, Mannamál, gefur til kynna hvert viðfangsefnið er og hvernig við viljum koma því á framfæri. Við ætlum að fjalla um allskonar tungumál á aðgengilegan og lifandi máta.

Orðið mannamál er gamalt í málinu og kemur þegar fyrir í fornmáli. Í elstu heimildum merkir orðið eins konar skvaldur, það er ómur af röddum sem berast úr fjarlægð. Í dæmum frá 17. öld er mannamál einnig notað um mál okkar mannfólksins til aðgreiningar frá máli dýra með mögulegum undantekningum þó því samkvæmt þjóðtrú mæla kýr á mannamáli á Jónsmessu og nýársnótt. Undanfarna áratugi hefur orðið svo öðlast þriðju merkinguna, það að segja frá á skiljanlegu máli eða tala tæpitungulaust. Um þessa þrjá merkingarliði má lesa í Íslenskri nútímamálsorðabók

Í vefritinu Mannamál verður boðið upp á efni af ýmsum toga. Fjallað verður um nýlegar og áhugaverðar rannsóknir og helstu niðurstöður dregnar fram og birtir verða málfarspistlar sem lúta til dæmis að nýjum og gömlum orðaforða, réttritun, greinarmerkjasetningu og málsniði. Einnig bjóðum við upp á skoðanagreinar, fréttir af nýjum útgáfum, viðtöl við áhrifafólk á tungumálasviðinu og umfjallanir um áhugaverð verkefni. Stefnt er að því að birta valdar greinar á ensku, pólsku eða öðrum erlendum málum.

Markhópur vefritsins er stór og ekki síst viljum við ná til ungra lesenda. Með útgáfunni vonumst við til að efla áhuga landsmanna á íslensku og öðrum tungumálum sem töluð eru á Íslandi. Við viljum fræða, skapa umræðu og vekja athygli á einkennum tungumála og skráðum og óskráðum reglum sem við getum verið meðvituð eða ómeðvituð um. Einnig viljum við beina kastljósinu að hlutverkum tungumála í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi og skoða stöðuna frá sjónarhóli móðurmáls- og annarsmálshafa.  

Pistlar verða birtir reglulega og geta lesendur skráð sig á póstlista sem kynntur verður eftir áramót.

Góðar stundir!

Höfundur

Ritstjórn Mannamáls skipa þau Ari Páll Kristinsson, Atli Jasonarson, Branislav Bédi, Helga Hilmisdóttir og Steinþór Steingrímsson.

Scroll to Top