Orðið stakkur á sér mjög langa sögu í íslensku og getur haft ýmsar merkingar. Hér verður einungis fjallað um notkun orðsins í nútímamáli þar sem það merkir eins konar yfirhöfn. Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók er stakkur ‘síð og (jafn)víð yfirhöfn, yfirleitt heil að framan (t.d. sjóstakkur)’.

Eftirfarandi smáauglýsingu frá 1983 er að finna í dagblaðinu Degi sem gefið var út á Akureyri um áratuga skeið.
Tapað
Grár stakkur var tekinn í misgripum á diskótekinu í Freyvangi laugardagskvöldið 10/2. Vinsamlegast hringið í síma 24939.
Í Degi er töluvert um smáauglýsingar þar sem bæjarbúar lýsa eftir stökkum sem teknir hafa verið í misgripum eða týnst niðri í bæ. Ólíklegt verður þó að teljast að Akureyringar hafi farið mikið út á lífið í stökkum eins og þeir eru skilgreindir í orðabókum. Á Akureyri i er orðið stakkur nefnilega notað í eilítið annarri merkingu en sú sem algengust er í öðrum landshlutum.
Þegar leitað var til Akureyringa á miðjum aldri eftir upplýsingum um orðið stakkur gáfu þeir eftirfarandi skýringar:
- Stakkur er yfirhöfn – léttari en úlpa, t.d. íþróttastakkur eða létt sumaryfirhöfn.
- Ég nota orðið stakkur og myndi ég segja að það væri eitthvað sem er á milli þess að vera úlpa og jakki.
- Stakkur er frekar stuttur, rétt niður fyrir mitti en samt frekar hlý flík.
- Í mínum huga er stakkur yfirhöfn. Hann er ekki síður eins og kápa heldur í mittissídd, þynnri en úlpa, meira svona þunnur eins og sumarjakki en samt ekki endilega sumarjakki. Hann er renndur, ekki hnepptur.
- Léttur sumarjakki. Ég held ég noti það frekar um karlmannsflík, vön því að pabbi fari í stakkinn.
Af svörunum má draga þá ályktun að meðal Akureyringa merkir stakkur ‘mittislöng og frekar létt vetrar- eða sumaryfirhöfn sem er opin að framan og með rennilás‘, það er að segja það sem oftast er kallað jakki eða úlpa.
Heimildarmennirnir sem talað var við á Akureyri könnuðust allir við að nota orðið stakkur. Sumir töldu þó að notkunin hafi verið meiri áður fyrr og að orðið væri ef til vill ekki í virkri notkun meðal yngri kynslóðarinnar.
Nafnorðið stakkur er dæmi um orð sem er þekkt úr almennu máli en hefur hlotið staðbundna merkingu. Fjölmörg dæmi eru um slík orð á Akureyri og víðar á Norðurlandi og má þar nefna orð á borð við stertur ‘tagl í hári’, svelgur ‘niðurfall’, drusla ‘borðtuska’ brók ‘nærbuxur’ og strengir ‘harðsperrur’.
Orð með staðbundna merkingu koma aðallega fyrir í munnlegum samskiptum og því erfitt að afla heimilda um notkun þeirra. Oft má þó finna athyglisverð orð og orðalag í gömlum bæjarblöðum á borð við Dag á Akureyri og þá ekki síst í auglýsingatextum og smáauglýsingum frá bæjarbúum.
Myndir
Tobias Tullius, Unsplash.
Dagur. 73. árgangur 1990, 107. tölublað, bls. 8.
Greinin er eilítið breytt útgáfa af pistli sem birtur var á vef Árnastofnunar 6. maí 2022.