Síðustu daga hefur verið mikið rætt um leðurblökur eða öllu heldur eina slíka sem sást á flugi í Laugardalnum og var síðar handsömuð af dýraeftirlitsmönnum.
Íslenska orðið leðurblaka er skemmtilegt orð og lýsandi fyrir þessi fljúgandi spendýr. Þetta er samsett orð þar sem fyrri liðurinn leður- vísar væntanlega til vængja leðurblöku sem eru hárlausir og þaktir eins konar leðurhúð. Seinni liðurinn -blaka tengist því hvernig þær hreyfa vængina þegar þær flögra um. Þótt dýrið sé ekki landlægt virðist orðið leðurblaka eiga sér djúpar rætur í íslensku en það kemur fyrst fyrir í miðaldaheimildum. Elsta þekkta dæmið er í handritinu AM 226 fol. sem oft er kallað Stjórn og er frá 14. öld. Í þessu handriti er að finna Alexanders sögu sem er þýdd og unnin úr latnesku kvæði. Þar er rætt um leðurblökur í tengslum við ýmsar aðrar furðuskepnur eða eins og segir í textanum:
Þá komu villigeltir einkar stórir með freyðanda munni og með þeim flekkóttar steingeitur og hræðilegar gaupur nýbúnar til orrustu, og leðurblökur líkar dúfum að vexti, svo margt að þær féllu á andlit og augu og háls mönnum. Þær höfðu tenn svo stórar að þær skemmdu skotvopn manna.

Mynd: Orðmyndin leðurblökur eins og hún birtist í miðaldahandritinu Stjórn.
Þessar leðurblökur í Alexanders sögu virðast því meiri óargadýr en þetta litla grey sem flögraði um Laugardalinn í vikunni.
Þótt orðið leðurblaka finnist í miðaldaritum ber ekki mikið á því aftur fyrr en á 19. öld. Á öldunum þar á milli eru heimildir um að ýmis önnur heiti hafi verið viðhöfð um þessar vængjuðu skepnur sem benda til að þær hafi verið álitnar einhvers konar fljúgandi mýs, samanber orðið flæðarmús sem sést í heimildum frá 16. öld og afbrigði þess flæðurmús sem þekkist frá 17. öld. Þessi orð eru líklegast gömul tökuorð ættuð úr miðlágþýsku vledermaus (eiginlega ‘flögrandi mús’). Einnig eru heimildir um annað svipað orð, eða flugmús, allt frá 18. öld sem á sér samsvörun í orðinu flogmús sem er notað í færeysku um þessi flugelsku kvikindi. Í nágrannamálum má nefna flagermus á dönsku, fladdermus á sænsku og flaggermus á norsku sem eru svipuð samsett orð yfir flögrandi mýs. Norska á reyndar nokkur önnur orð yfir þetta dýr sem eru mynduð á annan hátt eins og kveldskingle (‘kvöldflögrari’) og skinnvengje (‘skinnvængja’).
Íslenska orðið leðurblaka er því eilítið annars konar en það sem helst sést í skyldum málum þar sem talað er um leður frekar en flug eða flögr og blöku frekar en mús. Leðurblökur eru sniðugar skepnur og gaman að til skuli vera þetta skemmtilega orð yfir þær þótt þær hafi hingað til ekki talist til fánu Íslands.
Heimildir
Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
Finnur Jónsson. 1925. Alexanders saga. København: Gyldendal.
https://handrit.is/manuscript/view/da/AM02-0226/259#page/130v/mode/2up
Mynd
Ishan @seefromthesky. Unsplash.